Norðurlandabúðir Ungmennalandsliða

Sunnudaginn 07. mars var haldin fjarviðburður á vegum Norðurlanda fyrir ungmenni skilgreind eru í ungmennalandslið og hæfileikamótun hvers lands fyrir sig.

Hugsunin á bakvið verkefnið var að stuðla af frekari samstarfi milli norðurlanda í landsliðsstarfi ungmenna.

 

Að þessu sinni var keppt í U21 flokki eftir sænskum bogfimireglum (þar er U18 og U21 flokkur sameinaður í einn aldursflokk).

Hægt er að finna heildar úrslit viðburðarins hér. https://www.ianseo.net/TourData/2021/8062/IC.php

Helstu niðurstöður:

Nói Barkarsson stóð sig vel og jafnaði Íslandsmetið í U21 flokki með 581 stig. Nói átti sjálfur Íslandsmetið frá því á Íslandsmeistaramótinu í Mars á síðasta ári.

Marín Aníta Hilmarsdóttir sló Íslandsmetið í U21 flokki aftur með 533 stig og endaði í fimmta sæti. Metið var áður 527 stig og Marín sló það met í Febrúar á þessu ári í Indoor World Series mótaröðinni.

Ísland var þátttöku hæsta þjóðin í verkefninu enda er þetta samstarf verkefni sem BFSÍ hefur hvatt til að verði að veruleika milli Norðurlanda.

Svíþjóð sá um fyrsta viðburðinn og áætlað er að halda slíka viðburði einu sinni til tvisvar á ári fyrir einstaklinga sem eru skilgreindir í ungmennalandslið og hæfileikamótun hvers lands fyrir sig. Ef áhugi er fyrir hendi.

Eftir að mótinu var lokið voru haldnar æfingabúðir fyrir hæfileikamótun og ungmennalandslið BFSÍ sem gaf öllum í þeim hópum betra tækifæri til þess að kynnast og vinna saman.

Frumvarp til laga vegna bogfimi ungmenna

Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum vegna bogfimi iðkun ungmenna.

https://www.althingi.is/altext/151/s/0520.html

Er þetta að mestu til þess að liðka lögin til þess að gera ungmennum kleift að æfa og keppa á sama veg og gert er í öðrum löndum í heiminum. Sem er nauðsynlegt fyrir ungmenni þegar þau stefna á að æfa eða keppa á mótum utandyra s.s. Íslandsmótum utandyra, Norðurlandamótum ungmenna og Ólympíuleikum ungmenna.

Breytingin sem lögð er til er einföld, að bætt verði við lögin að slík ástundun sé á ábyrgan veg heimil undir eftirliti lögráða einstaklinga.

Hægt er að vísa í margt þess til stuðnings, s.s. að bogfimi er með eina lægstu áhættugreiningu tryggingafélaga erlendis (oft í sama hópi og borðtennis, keila og mun lægri en flestar boltaíþróttir). Í Evrópulöggjöf vopna er ekki minnst á boga og þeir almennt flokkaðir sem íþróttatæki fremur en vopn á heimsvísu.

Þó er ekki talið athugavert að svo stöddu að einhverjar hömlur séu til staðar gagnvart ungmennum í þessum málum, en þó ekki svo strangar að hún komi í veg fyrir iðkun ungmenna á íþróttinni.

Umsögn BFSÍ er:

Núverandi tillaga að lagabreytingum myndi leysa þau vandkvæði sem liggja fyrir gagnvart bogfimi íþróttaiðkun ungmenna á mjög ábyrgan veg. Og gefa Íslenskum ungmennum tækifæri á því að stunda, æfa og keppa í bogfimi íþróttum með sama móti og ungmenni í heiminum og nágrannaþjóðum Íslands gera.

Til að gefa dæmi um áhrif núverandi löggjafar:

Ólympíuleikar ungmenna eru haldnir fyrir ungmenni á aldursbilinu 15-17 ára, þau ungmenni eru almennt að keppa um þátttökurétt á leikana á aldursbilinu 14-16 ára. Algengt er að togkraftur sem sé verið að nota sé um 15-20 kg. Núverandi löggjöf kemur því í óbeint veg fyrir að Ísland geti keppt um sæti á Ólympíuleika ungmenna, nema að flytja þau börn sem miða á þann árangur erlendis um árabil. Núverandi lagabreytingar tillaga myndi leysa það vandamál þar sem börnin gætu þá æft undir eftirliti lögráða einstaklings með þeim togkrafti sem til þarf hverju sinni.

Norðurlandameistaramót ungmenna eru haldin fyrir aldursbilið 13-20 ára á vegalengdum sem er ómögulegt að drífa á með minna en sirka 12-26 kg togkrafti. Núverandi hömlun kemur í veg fyrir að helmingur barna og ungmenna á Íslandi geti keppt á sama grundvelli með börnum og ungmennum frá Norðurlöndum.

Núverandi lög eiga sér enga hliðstæðu á Norðurlöndum og eftir því sem best er vitað í heiminum. Líklegt er að þegar þessari lagagrein var bætt við hafi lítið sem ekkert verið um bogfimi iðkun ungmenna á Íslandi. Sú iðkun hefur aukist gífurlega síðasta áratug og er séð fyrir miklum vexti og mögulegum árangri Íslands á alþjóðavettvangi. Langflest ungmenni stunda bogfimi íþróttir á æfingum á vegum íþróttafélaga undir eftirliti lögráða einstaklinga.

Þegar þessi lagabreyting gengur í gegn mun það lagalega séð gefa Íslenskum ungmennum sömu möguleika á iðkun bogfimi og í öðrum þjóðum.

Íslandsmet félagsliða í ungmenna og öldunga flokkum breytt í 2 manna liðakeppni

Íslandsmet félagsliða var breytt fyrir skömmu á eftirfarandi veg.

Liðakeppni í Ungmenna og öldunga flokkum var breytt úr 3 manna liðakeppni í 2 mann liðakeppni.

Innandyra parakeppni var einnig bætt við í öllum aldursflokkum.

Breytingarnar eru að hluta til að koma á móts við minni íþróttafélög í bogfimi og að hluta til þess að reyna skapa grundvöll fyrir útsláttarkeppni liða á Íslandsmótum í ungmenna og öldunga flokkum. Það er auðveldara að finna/skapa t.d. tvær stelpur í trissuboga kvenna U18 til þess að búa til lið heldur en að finna/skapa þrjár. Parakeppni var einnig bætt við innandyra þar sem félagslið er eitthvað sem fellur ekki undir WA reglur og þar með hægt að aðlaga það betur að Íslenskum aðstæðum.

Þriggja manna liðakeppni mun halda áfram í opnum flokki í samræmi við reglur WA, þar sem engar hömlur eru á aldri í þeim flokki ætti ekki að reynast mjög erfitt fyrir minni íþróttafélög að skapa sér í lið í þeim flokkum.

Tveggja manna liðakeppni á sér hliðstæðu hjá heimssambandinu, en það er bæði keppt í tveggja manna liðakeppni á háskóla meistaramótinu (University Championships – Universiade) og það verður tekin 2 manna liðakeppni á Ólympíuleikum ungmenna 2022 (sem voru færðir til 2026).

Íslandsmetaskrá hefur verið uppfærð í samræmi við þessar breytingar.

Einnig er líklegt að á Íslandsmótum verði hverju félagi heimilt að hafa mörg lið í sama flokki, s.s. í sveigboga karla ef félag sendir 6 keppendur væru þeir með 3 lið (lið sett saman eftir skori). En það er en í hugsunarferli og einhverjar tilraunir verða gerðar á mótum til þess að finna bestu lausnina sem hentar best.

Fyrsta mótið sem þetta á við um er Bogfimisetrid Indoor Series í febrúar, en þar er ekki liðkeppni ungmenna eða öldunga en hægt að setja parakeppnismetið.

BFSÍ gefur bikar til íþróttafólks ársins í hverjum bogaflokki í fyrsta sinn

BFSÍ samþykkti á síðasta stjórnarfundi 27.12  viðbót við reglur um íþróttafólk ársins. BFSÍ gefur út til viðbótar við tilnefningar til íþróttafólks ársins árlega bikar til þeirra sem stóðu sig best í hverjum bogaflokki fyrir sig.

Oft hefur reynst erfitt að velja einstaklinga úr bogfimi í íþróttafólki ársins hjá ÍSÍ þar sem um er að ræða margar íþróttagreinar og mismunandi bogaflokka þar sem aðeins er hægt að velja eina konu og einn karl óháð íþróttagrein eða bogaflokki.

Tölfræðin hefur verið notuð til þess að reyna skera úr á milli einstaklinga en þar er oft mjög lítill munur sem sker á milli þeirra einstaklinga á milli greina. Það eru bara allt of margir að standa sig vel 😊.

Til að koma á móts við þetta og gefa þeim viðurkenningu sem stóðu sig best á árinu í sínum bogaflokki og sinni íþróttagrein hefur BFSÍ ákveðið að gefa sjálft út til viðbótar árlega bikar til þeirra sem stóðu sig best í hverjum bogaflokki fyrir sig út frá sömu tölfræði og er notuð til þess að velja íþróttafólk ársins óháð bogaflokki.

Þeir sem hreppa bikarana á árinu 2020 eru:

Berboga karl ársins 2020: Izaar Arnar Þorsteinsson – ÍF Akur 

Izaar vann bæði innandyra og utandyra Íslandsmeistaramótin á þessu á ári ásamt því að vera hæstur í undankeppni á báðum mótunum. Því má segja að hann hafi átt yfirburðar ár í berboganum á árinu og sé óvéfengjanlegur berbogameistari ársins.

Berboga kona ársins 2020: Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur

Guðbjörg vann bæði innandyra og utandyra Íslandsmeistaramótin á þessu ári bæði í opnum flokki og U21. Guðbjörg sló einnig heims og Evrópumet í opnum flokki og U21 á árinu og var ekki langt frá því að bæta Evrópumetið í U21 aftur á indoor world series í desember þar sem hún var meðal 20% efstu keppenda í heiminum. Hún sló einnig Íslandsmetið í opnum flokki og U21 tvisvar á árinu.

Trissuboga karl ársins 2020: Nói Barkarson – BF Boginn

Nói átti frábært ár. Nói sló 10 einstaklings Íslandsmet í U18 og U21 flokkum á árinu oft með gífurlegri bætingu og 3 liðamet í opnum flokki með sínu félagi. Hann vann alla Íslandsmeistaratitla ungmenna innandyra og utandyra í U18 og U21 flokki, vann alþjóðlega hluta Íslandsmóts ungmenna innandyra í U18 og U21 og Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki innandyra þar sem hann skoraði hæsta skor ársins í trissuboga 581, það eru fáir Íslendingar sem hafa skorað yfir 580 stig af 600 mögulegum á móti hingað til.

Trissuboga kona ársins 2020: Anna María Alfreðsdóttir – ÍF Akur

Anna vann Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki og ungmenna utandyra. Anna náði einnig lágmarks skori fyrir Evrópuleika á árinu með skorið 641 af 720 og skilgreinist því sem afreksfólk hjá BFSÍ. Anna sló einnig bæði Íslandsmetið í U18 og U21 flokki utandyra með því 641 skori, en mjög mikil samkeppni er í trissuboga kvenna.

Sveigboga karl ársins 2020: Dagur Örn Fannarsson – BF Boginn

Dagur var einnig valinn íþróttamaður ársins á heildina litið hjá BFSÍ og fær því bæði bikarinn fyrir Sveigboga karl ársins 2020 og Íþróttamaður ársins 2020. Meira er fjallað um hans árangur í þessari grein https://bogfimi.is/2020/11/08/ithrottafolk-arsins-2020-bogfimi-dagur-og-marin/

Sveigboga kona ársins 2020: Marín Aníta Hilmarsdóttir – BF Boginn

Marín var einnig valinn íþróttakona ársins á heildina litið og fær því bæði bikarinn fyrir Sveigboga kvenna ársins 2020 og Íþróttakona ársins 2020. Meira er fjallað um árangur hennar í þessari grein https://bogfimi.is/2020/11/08/ithrottafolk-arsins-2020-bogfimi-dagur-og-marin/

Óskum þeim öllum innilega til hamingju. Sökum Covid verður enginn formlegur tími eða viðburður til afhendingar og haft verður samband við íþróttafólkið til þess að mæla sér mót til að afhenda verðlaunin.

Skráningarfrestur Desember fjarmót Indoor World Series

Frestur til að skrá sig til að taka þátt í fjarmótinu Indoor Archery World Series fyrir Desember rennur út á morgun 13. Desember kl. 23:00 að Íslenskum tíma, það er því hver að verða síðastur að skrá sig.

Til að skrá sig á mótið þarf að skrá sig inn á WAREOS og velja:
December | Indoor Archery World Series Online
https://extranet.worldarchery.org/wareos/

Áfram verður hægt að skrá sig til að taka þátt á mótinu í Bogfimisetrinu í Desember, en til að skorin verði færð í fjarkeppnina sjálfa er mikilvægt að skrá sig fyrir frestinn á morgun.

Til að skrá sig á mótið í Bogfimisetrinu sjálfu er hægt að finna skráningarformið hér.

Fyrri grein af archery.is hér fyrir neðan

Skráning á Indoor Archery World Series fyrir Desember er hafin

Ekki var fært að halda formlegt mót í kringum mótaröðina í Nóvember en fyrir Desember hefur heilbrigðisráðuneytið veitt BFSÍ undanþágu frá núgildandi ákvæði um keppnir til að halda mót í Bogfimisetrinu.

Grundvöllur undanþágunnar er að bogfimi þarfnast ekki nálægðar við aðra né sameiginlegan búnað og er því hægt að viðhalda ströngum sóttvörnum á meðan mótinu stendur og er undanþágan háð því. Eins er hún háð því að reglur um takmarkanir verði ekki hertar né Landsspítali settur á neyðarstig.

Til að viðhalda þessum ströngu sóttvörnum verður mótinu skipt í fjórar lotur:

Dagsetning Dagur Lota Byrjar Endar
19. Desember Laugardagur Fyrir hádegi 09:00 11:30
19. Desember Laugardagur Eftir hádegi 13:00 15:30
20. Desember Sunnudagur Fyrir hádegi 09:00 11:30
20. Desember Sunnudagur Eftir hádegi 13:00 15:30

Í hverri lotu verða að hámarki 8 keppendur og lokast fyrir skráninguna fyrir hverja lotu þegar hún er orðin full, það er því fyrstur kemur fyrstur fær.

Í nóvember tóku meira en 2.800 keppendur þátt í mótaröðinni frá 80 löndum víðsvegar um heimin.
Hægt er að sjá niðurstöður Nóvember hér.

Það er því tilvalið að nýta tækifærið og taka þátt í þessari einstöku mótaröð sem nær yfir allan heiminn.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um mótið í skráningarforminu.

Translate »