Upplýsingar fyrir þá sem eru að íhuga að stofna Bogfimifélag eða Bogfimideild innan annars íþróttafélags.

Athugið á þessari síðu er aðeins verið að fjalla um þjónustu sem er í boði fyrir aðildarfélög BFSÍ. Semsagt þau bogfimifélög/íþróttafélög sem eru með bogfimideild og eru aðilar að BFSÍ eða þau félög sem eru að stofna deild/félag sem verður aðili að BFSÍ. En ef þú ert í vafa og/eða þarft aðstoð, ekki hika við að hafa samband við starfsfólk BFSÍ. Það aðstoðar þig eða vísar þér á réttan veg 😊

Ef þú ert að leita að bogfimi námskeiði eða æfingum fyrir einstakling hafðu samband við aðildarfélög BFSÍ, þau skipuleggja námskeið/æfingar fyrir almenna iðkendur, sjá lista hér https://bogfimi.is/bogfimifelog/.

Ef þú ert að leita þér að því að prófa íþróttina í fyrsta skipti, halda kynningu á íþróttinni eða hefur bara áhuga á því að stunda hana til gamans mælum við með að hafa samband við Bogfimisetrið https://bogfimisetrid.is/setrid/. Bogfimisetrið er einn stærsti styrktaraðili Bogfimisambands Íslands og Bogfimisetrið er sérstaklega miðað á grasrótarstarfsemi (algera nýliða) þar sem allir geta komið og kynnst og haft gaman af íþróttinni. Út frá því myndast oft áhugi á því að stunda íþróttina og þá mælum við með að hafa samband við aðildarfélög okkar.

Ef þú ert í stjórn aðildarfélags BFSÍ, eða íþróttafélags sem er að íhuga að byrja með bogfimideild og ganga til liðs við BFSÍ og ert að leita að upplýsingum og aðstoð tengt því þá ertu á réttum stað 😉. Það mikilvægasta í startið er alltaf að senda póst á BFSÍ bogfimi@bogfimi.is og biðja um ráðleggingar, starfsmenn BFSÍ aðstoða þig svo með næstu skref, gefa ráð og leiða þig í gegnum ferlið. (Þú getur sent póstinn núna og svo lesið restina af síðunni þegar þú ert búinn að senda póst á okkur).

Tilgangur síðunnar er aðeins að gefa dæmi um hvaða þjónusta er í boði fyrir aðildarfélög til að koma starfsemi af stað innan félagsins. Starfsfólk BFSÍ getur einnig sérsniðið námskeið að þörfum félagsins/deildarinnar og/eða aðstoðað félagið við að setja saman pakka af grunnbúnaði sem hentar hverju félagi/deild til að koma starfi á nýju svæði í gang. Hugsaðu um síðuna sem „til dæmis“ frekar en „það verður að vera svona“ þetta er hægt að aðlaga og við gerum það sem er besta fyrir þig og svæðið sem hentar hverju sinni.

Hver er munurinn á bogfimifélagi og bogfimideild og hvort er betra?

Bogfimifélag er sér íþróttafélag sem almennt stundar bara bogfimi (sérgreinafélag). Bogfimideild er deild innan annars íþróttafélags sem sér um bogfimi innan þess íþróttafélags. Sama íþróttafélagið getur verið með margar deildir s.s. sunddeild, fótboltadeild, bogfimideild o.s.frv.

Það er erfiðara að svara hvort er betra og fer eftir aðstæðum á hverju svæði fyrir sig og í raun ekkert 100% rétt svar við því. Í stuttu máli er auðveldara og fljótlegra að byrja með bogfimideild en bogfimifélag gefur meira frelsi en tekur lengri tíma og er meiri vinna og byggir mikið á því að félagið fái aðstöðu úthlutaða frá bæjarfélagi eða geti starfrækt sína eigin aðstöðu.

Í lengra máli:

Bogfimideild: Að stofna bogfimideild innan annars íþróttafélags er almennt bæði mjög auðvelt og fljótlegt, og mun minni vinna er almennt að reka bogfimideild innan annars íþróttafélags en sér bogfimifélag. Íþróttafélög sem eru þegar starfandi eru einnig almennt með marga stjórnarmenn og jafnvel einhverja starfsmenn sem hafa mikla reynslu og geta aðstoðað þig og bogfimideildina í öllu sem upp kemur og gefið ráð um ýmislegt sem kemur að íþróttastarfi. Mörg íþróttafélög eru einnig þegar með eigin húsnæði og utandyravelli þar sem mögulegt væri að stunda bogfimiæfingar, nánast öll venjuleg fjölíþróttahús og fótboltavellir henta til að vera með bogfimiæfingar/námskeið, en utandyra er einnig auðvelt og öruggt að koma því fyrir til hliðar við fótboltavelli. Innan félagsins eru margar íþróttir oft að vinna saman er oft meira um sjálfboðaliða sem aðstoða á milli mismunandi íþróttir. Við mælum almennt með að stofna bogfimideildir innan íþróttafélaga á íbúa litlum svæðum á landinu, eða þar sem ekki er gert ráð fyrir því að bogfimi iðkendur í félaginu verði fleiri en 100 á endanum. Til að athuga með stofnun bogfimideildar sendu fyrirspurn á íþróttafélag sem starfar á þínu svæði til að sjá hvort að áhugi sé til staðar fyrir að bjóða upp á bogfimi innan félagsins. Síðar meir ef ástæða telst til (þó að það sé almennt ólíklegt) að brjóta deildina frá íþróttafélaginu og stofna sér bogfimifélag er það almennt mögulegt, en það þarf að skoða hverju sinni hvernig væri farið að því.

Bogfimifélag: Er sér íþróttafélag sem ætlar sér aðallega eða einungis að stunda bogfimi. Til þess að stofna félagið þarf að skrifa lög félagsins, halda stofnfund, finna a.m.k. 5 stjórnarmenn, sækja um kennitölu, sækja um aðild að ÍSÍ og viðkomandi íþróttahéraði (getur tekið allt að 3 ár að fá fulla aðild). Halda árlega aðalfundi, sjá um fjármál, launamál (bókhald) og ýmislegt annað, svipað og að reka mjög lítið fyrirtæki. Í upphafi hefur félagið enga aðstöðu og því þarf að hafa samband við íþróttahérað/bæjarfélag til þess að athuga með aðstöðu fyrir félagið, ef þau eru jákvæð fyrir því að veita bogfimifélagi sér svæði/aðstöðu gæti verið betra að byrja með bogfimifélag í stað bogfimideildar. Það er mun meiri vinna að stofna bogfimifélag og getur tekið mun lengri tíma en að stofna bogfimideild innan íþróttafélags sem er þegar starfandi. En þegar að vel er staðið að því getur það stundum verið betri valmöguleiki að stofna sér félag, það gefur meira frelsi og fjármagn sem kemur inn í félagið fer allt til uppbyggingar á bogfimiíþróttum. Við mælum almennt með að stofna bogfimifélög á íbúa miklum svæðum þar sem gert er ráð fyrir að iðkendur félagsins verði margir og margir einstaklingar eru þegar til staðar sem vilja vinna saman að því að stofna félagið og byggja bogfimifélagið (sem er töluverð vinna og betra að því sé deilt á milli margra). Dæmi um vel heppnuð bogfimifélög er Bogfimifélagið Boginn í Kópavogi sem er í dag stærsta bogfimifélag á Norðurlöndum í bæði iðkendum og keppendum, 11% af keppendum allra þjóða á Norðurlandameistaramóti ungmenna 2022 voru úr BF Boganum, og um 75% að iðkendum í bogfimi á Íslandi eru í því Bogfimifélagi. En það félag er undantekningin ekki „normið“

Grunn námskeið fyrir félög/deildir

BFSÍ býður upp á grunn námskeið til að:

 • Koma nýjum bogfimifélögum eða bogfimideildum af stað í íþróttinni
 • Aðstoða aðildarfélög sem eru fámenn og/eða eru en í uppbyggingu ekki komin með sinn eigin leiðbeinenda/þjálfara til starfa.

Mögulegt er að halda námskeiðin í Bogfimisetrinu eða halda þau í heimabyggð íþróttafélagsins. Markmiðið með því að bjóða upp á námskeiðin er að nýtt bogfimifélag eða deild geti reitt sig á BFSÍ til þess að styðja við félagið/deildina þar til félagið er orðið að mestu eða öllu leiti sjálfbjarga og þarf ekki lengur á námskeiðunum að halda. Semsagt að byggja sterkar undirstöður komnar undir starf félagsins.

Námskeiðið er ekki miðað á aðildarfélög sem eru búin að koma starfi af stað og búin að koma sér upp aðstöðu og búnaði til að stunda íþróttina. Tilgangur námskeiðsins er að styðja við aðildarfélög sem eru að taka fyrstu skrefin að koma reglubundinni starfsemi í gang, fjölga iðkendum og finna kandidata sem gætu viljað læra að vera leiðbeinendur/þjálfarar innan félagsins til að standa fyrir reglubundnum æfingum/námskeiðum. Námskeiðin eru almennt haldin af tveim þjálfurum frá BFSÍ með alþjóðleg þjálfararéttindi (WorldArchery Coach L1 eða hærra)

Meðal þess sem er kennt á námskeiðinu:

 • Öryggisreglur og umgengni
 • Grunn form og tækni í íþróttinni (hvernig á að skjóta, miða, rétt staða, helstu vandamál sem koma hjá byrjendum o.s.frv.)
 • Grunnur um búnað (uppsetning, meðferð/viðhald, stillingar o.s.frv.)
 • Grunnur um mót (skráning á mót, mótareglur, o.s.frv.)
 • Grunnur um námskeið og æfingar (skipulag og slíkt)
 • Leiðbeinenda námskeið (netnámskeið) fyrir þá sem hyggjast leiðbeina á æfingum félagins og mögulega verða þjálfara í framtíðinni

Æskilegt er að félagið sé með:

 • Fjóra aðila sem eru tilbúnir til þess að sitja námskeiðið, vera lærlingar starfsfólks BFSÍ og styðja félagið/deildina með því að leiðbeina nýjum meðlimum félagsins og viðhalda starfi félagsins.
 • Grunn búnað sem þarf til þess að halda námskeiðið (s.s. einn grunn boga per aðila (helst fleiri), örvar, skotmörk, hlífar o.s.frv.).
 • Svæði til þess að halda námskeiðið (s.s. íþróttahús, bogfimisvæði eða fundarsal) með örvaneti til að taka við örvum sem gætu farið framhjá.

Verð áætlun fyrir slíkt námskeið er 600.000.kr. Mögulegt er að sækja um styrki fyrir námskeiðinu m.a. hjá UMFÍ sem veitir styrki tengt stofnun nýrra deilda, en sjá nánar um það neðar á síðunni. Partur af námskeiðinu væri að BFSÍ mun aðstoða félagið við að sækja um styrki til að stofna deildina.

Skipulag grunn námskeiðsins er aðlagað aðstæðum hvers félags hverju sinni s.s. hve langt frá höfuðborgarsvæðinu félagið er.

Síðar er hægt að óska eftir uppfærslu námskeiðum ef þess þarf, s.s. ef að upprunalegu lærlingum félagsins hefur fækkað, eða áætlað er að byrja með nýja íþróttagrein eða keppnisgrein innan félagsins. Slík námskeið eru sett upp hverju sinni eftir þarfagreiningu en eru almennt um 100.000.kr – 300.000.kr eftir aðstæðum.

OK en ég er ekki með svæði til að koma starfinu af stað á mínu svæði eða til að halda grunn námskeið hvað geri ég þá?

Sendir póst á bogfimi@bogfimi.is og biður um aðstoð 😊. Tveir megin möguleikar eru til staðar:

 1. BFSÍ getur haldið námskeiðið fyrir þessa 4 grunn aðila sem ætla að koma starfsemi félags/deildar af stað í Bogfimisetrinu í Reykjavík.
 2. Mögulegt er að hafa samband við íþróttahérað og/eða bæjarfélag á þínu svæði og biðja um upplýsingar og ráð um verkefnið sem og hvað þeir geta gert til þess að aðstoða. Þeir þekkja almennt staðarhætti best og hvernig er hægt að aðstoða þig með verkefnið.

Þú getur fundið þitt íþróttahérað hér https://isi.is/sambandsadilar/ithrottaherud/ ásamt tengiliða upplýsingum þeirra. Til þess að ná sambandi við bæjarfélag er best að hringja í það eða kíkja á vefsíðu þess. Flest bæjarfélög eru með íþróttaráð eða svipað sem sér um íþróttamál í bæjarfélaginu, ef þú finnur ekki upplýsingar um íþróttaráð/fulltrúa/nefnd hjá bæjarfélaginu sendu póst á aðalnetfang bæjarfélagsins og spurðu hver sér um íþróttamál hjá þeim til að ná sambandi við þá.

Við getum líka aðstoðað við það ef þú hefur samband.

OK en það er ekki til neinn búnað til þess að byrja með starfið og ég veit lítið eða ekkert um búnað í bogfimi, hvað geri ég?

Sendir póst á bogfimi@bogfimi.is og biður um aðstoð 😊.

Starfsfólk BFSÍ getur aðstoðað þig við að greina hvaða þörf er í félaginu á búnaði til að byrja með og hægt að skapa pakka sem hentar því fjármagni sem til er hverju sinni.

En til að gefa einhverja hugmynd um verð þá setti BFSÍ saman „grunnpakka“ sem inniheldur allt sem þarf til þess að byrja með og reka bogfimifélag/deild og kynna allar keppnisgreinar og bogaflokka í íþróttinni fyrir að hámarki fjórum aðilum í einu.

Sá pakki er um 800.000.kr og inniheldur meðal annars: Allt helsta sem þarf til þess að setja saman, gera við, stilla og viðhalda búnaði félagsins (t.d. strengjum, örvum og bogum, verkfæri o.fl.), búnað sem þar til að kynna starfið, halda lítil námskeið/æfingar og reka félagið (bogar af mismunandi gerðum, skotskífur af mismunandi gerðum, eitt skotmark, 100 örvar, örvanet o.fl.). Allt sem þarf í grunninn svo að rekstur æfinga og námskeiða gangi vel fyrir sig og mögulegt sé að kynna bogfimi fyrir max 4 aðilum á sama tíma (svo er hægt að vera með nokkur námskeið/æfingar á dag til að fjölga iðkendum í upphafi).

Þegar grunn búnaðurinn er komin í hús er auðveldara og ódýrara að fjölga bogum og skotmörkum til þess að koma fleiri iðkendum fyrir á sama tíma á æfingum/námskeiðum. Hægt er að áætla að það sé sirka um 100.000-150.000.kr að bæta við þeim búnaði sem þarf til þess að bæta við einum iðkanda á æfingu/námskeiði á sama tíma. Vert er að geta að allur þessi búnaður endist almennt mjög lengi, þó að eitthvað viðhald þurfi alltaf er hægt að hugsa um þetta er langtíma fjárfestingu.

Þessi pakki veitir félaginu sterkar undirstöður til þess að byggja á. Þetta gera grunn námskeið sem BFSÍ heldur fyrir nýja félagið/deildina einnig mun árangursríkari, þar sem mögulegt er þá að kenna leiðbeinendum félagsins á öll atriði sem felst í því að setja saman, viðhalda og kenna á allar íþróttagreinar/keppnisgreinar innan BFSÍ og reka félagið/deildina. Og því mun meiri líkur á því að iðkendum fjölgi og minni líkur á því að félagið stoppi eða lendi í hraðahindrunum í upphafi uppbyggingar sem geta gerst vegna skorts á grunn búnaði og þekkingu á því hvernig á að nota hann.

Þar sem pakkinn er settur saman af starfsfólki BFSÍ gefur það ákveðið traust og öryggi til bæjarfélaga/íþróttahéraða, sem sótt er um styrki til vegna fjárfestingar í búnaðinum, að búnaðurinn sé nauðsynlegur, viðeigandi og líklegur til þess að ná þeim árangri sem miðað er á.

Til að setja dæmi upp fyrir nýtt félag sem vill vera með æfingar/námskeið fyrir 8 einstaklinga á sama tíma:

 • Grunnbúnaður félags/deildar: 800.000.kr (gert fyrir 2 en getur tekið allt að 4, en gerum ráð fyrir því að grunnurinn dugi þægilega fyrir 2 iðkendur á sama tíma)
 • 6 iðkendur til viðbótar á sama tíma á æfingu/námskeiði: + 125.000.kr*6 = 750.000.kr
 • Samtals: 800.000.kr + 750.000.kr = 1.550.000.kr
 • Svo er hægt að stækka meira síðar eftir því hvernig starfsemin þróast og eykst.

En þetta er bara mjög gróft dæmi til þessa að gefa einhverja hugmynd. Mögulegt er að fara margar leiðir að þessu og setja upp pakka sem hentar hverju íþróttafélagi/svæði fyrir sig til að koma sér af stað. Við vinnum með það fjármagn sem við höfum til að koma starfinu af stað, og stækkum svo þegar það er viðeigandi 😉

Styrkir sem eru í boði fyrir íþróttafélög/deildir:

Mögulegt er að sækja um styrki hjá ýmsum samtökum til að greiða niður kostnað á námskeiðum og búnaði sem þarf til þess að stofna félög/deildir. BFSÍ aðstoðar aðildarfélög sín í að sækja um styrki fyrir námskeiðum (útbreiðslu). Dæmi um samtök sem hægt er að sækja um styrki til eru s.s.:

 • UMFÍ https://www.umfi.is/um-umfi/sjodir-styrkir/
  • Styrkir vegna stofnun nýrra bogfimideilda/félaga. (Áætlað allt að 300.000.kr en fer eftir ákvörðun UMFÍ hverju sinni.)
  • Styrkir vegna námskeiða. (Fer eftir ákvörðun UMFÍ hverju sinni, en almennt um 50% af kostnaði námskeiðsins upp að 300.000.kr.)
 • Íþróttahéraði
  • Er mismunandi eftir íþróttahéröðum, sendið póst á íþróttahéraðið til að athuga hvað er í boði af styrkjum til að styðja við stofnun bogfimideilda/félags og rekstur þeirra https://isi.is/sambandsadilar/ithrottaherud/
 • Íþróttaráði bæjarfélags
  • Er mjög mismunandi eftir bæjarfélögum, sendið póst á bæjarfélagið til að athuga hvað er í boði af styrkjum til að aðstoða við stofnun bogfimideilda/félags og stuðning við rekstur þeirra. Einnig er hægt að senda erindi á bæjarstjórnina og sækja sérstaklega um styrk frá bænum fyrir verkefninu.
 • Rannís
  • Almennt um 200.000.kr til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana t.d. til að koma upp búnaði sem þarf til að halda námskeið og æfingar innan félagsins, eða bæta við búnaði sem þarf til svo að starfið vaxi. En sjóðurinn er einnig með mismunandi áherslur hverju sinni https://www.rannis.is/sjodir/aesku-ithrotta/ithrottasjodur/

Ekki vera smeykur við að senda fyrirspurnir á samtökin. Tilgangur þessara samtaka á að bjóða upp á þessa styrki er til þess að styðja við og styrkja íþróttastarf í landinu eða á svæðinu sem við á. Með því að stofna eða standa fyrir starfi á bogfimifélagi/deild er verið að stuðla að því að bæta íþróttastarf í landinu. Því eru samtökin almennt ánægð með að heyra frá slíkum aðilum og reiðubúin að aðstoða og leiðbeina tengt styrkjum og öðru sem er í boði og taka almennt vel við fyrirspurnum.

Bogfimi ætti að fá góðar viðtökur, þar sem bogfimi er íþrótt sem mikið af börnum, unglingum og fullorðnum sem féllu út úr hefðbundnu íþróttastarfi finna sig oft í. Eitt mesta mikilvægi skipulagðs íþróttastarfs og áhersla flestra samtaka á er forvarnargildi þess að haldast í starfinu. Í raun að stuðla að því að ungmenni hafi eitthvað fyrir stafni og séu því ólíklegri til þess að taka upp vonda siði. Bogfimi hefur verið lýst af sumum sem íþrótt fyrir ungmenni sem hata íþróttir og hentar því vel til þess að halda ungmennum inn í íþróttahreyfingunni, sem myndu annars falla úr „hefðbundnu“ hópamiðuðu íþróttastarfi og því forvarnarstarfi sem fer fram í hreyfingunni. Fjölbreytni á íþróttum er liður í því að halda sem flestum inni í íþróttahreyfingunni og tryggja að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Bogfimi hefur einnig verið meðtækilegasta íþrótt fyrir hinsegin fólk og aðra jaðarhópa, sem eru einmitt hópar sem falla oft úr öðru skiplögðu íþróttastarfi.

Starfsfólk BFSÍ aðstoðar einnig aðildarfélögin sín og ný félög sem eru að koma sér af stað við styrkjaumsóknir og að læra hvernig þetta virkar allt saman 😉

Leiðbeinenda námskeið

Leiðbeinenda námskeið er hægt að skrá sig á og taka hvenær sem er ársins á netinu. Námskeiðið er bóklegi hluti þjálfarastigs 1 hjá Alþjóðabogfimisambandinu World Archery og BFSÍ. Námskeiðin eru ódýr og öllum opin, en eru miðuð meira á einstaklinga sem hafa stundað bogfimi áður um nokkuð skeið og þekkja til íþróttarinnar. Því mælum við með að félag taki fyrst grunn námskeið hjá BFSÍ til að þjálfa upp leiðbeinendur og þeir taki svo eftir það online leiðbeinenda námskeiðið, svo að námskeiðið skili hámarks árangri. Sjá nánari upplýsingar hér https://bogfimi.is/thjalfaranamskeid/

Hér er hægt að finna drög að mjög grunn bæklingi sem verið er að vinna í að skapa sem ætlaður er til þess að aðstoða nýja aðila í íþróttinni að læra ýmis grunnatriði. (hann er en í vinnslu og er birtur hér til tilrauna)  Þú varst að byrja í bogfimi – Bæklingur

Þessi síða er í sífelldri vinnslu og uppfærslum, en betra að hafa einhverjar upplýsingar til stuðnings frekar en að hafa ekkert 😎

Það kostar ekkert að senda tölvupóst og spyrja. Ekki hafa áhyggjur af því að spyrja að vitlausum spurningum, það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að fólk kunni eitthvað sem er ekki búið að kenna þeim, það eru ekki til vitlausar spurningar. Ekki hafa áhyggjur af því að hafa ekki meðtekið eða lært allt utan af sem stendur á vefsíðunni, það er ekki gert ráð fyrir því að þú verðir sérfræðingur í neinu, hugsaðu meira um síðuna sem upplýsingasíðu sem þú getur flett í þegar þig vantar upplýsingar eða leiðbeiningar. Stærstu mistökin eru að þora ekki að spyrja 😉