Áhættumat á bogfimiíþróttum og stefna BFSÍ

Áhættumat í bogfimi er mjög lágt og íþróttin er ein sú öruggasta sem fólk getur stundað. Tíðni slysa og meiðsla er mjög lág. Framkvæmdar hafa verið í gegnum tíðina áhættumöt af fjölmörgum aðilum um allan heim og hér er hægt að finna eitt slíkt

Archery Trade Association (ATA) gefur reglubundið út bækling með samanburði á slysa-/meiðslatíðni í bogfimi og öðrum íþróttum. Þar sem sjá má að bogfimi mjög örugg í samanburði við nokkrar aðrar íþróttir og slysatíðni er mjög lág.

Þó er vert að geta að mat ATA byggist á ástundun bogfimi í bandaríkjunum þar sem bæði bogveiði og lásbogar eru löglegir og talin með í tölfræði þeirra. Stór hluti slysa/meiðsla í bogfimi gerast í ástundun bogveiði s.s. með því að skera sig á veiðioddum eða með rangri meðferð lásboga.

Því er hægt að áætla að tíðni slysa/meiðsla í bogfimiíþróttum á Íslandi sé mun minni þar sem bogveiði og lásbogar teljast ekki hluti af íþróttinni innan vébanda BFSÍ. Vert er þó að nefna að engin hörð gögn eru til um slysatíðni í bogfimiíþróttum á Íslandi. En áætlað er að hún sé það lág að hún sé nánast ómælanleg.

Á Ólympíuleikum 2008 var tölfræði um slys/meiðsli í öllum íþróttum haldið til haga og mældust 0 slys/meiðsli í keppni í bogfimi á Ólympíuleikunum. Flest slys gerðust í fótbolta, handbolta, lyftingum og boxi. Sama má segja um Ólympíuleikana 2016 þar sem bogfimi var flokkuð í lægsta flokkinn 0-3% líkur á meiðslum og enginn íþróttamaður þurfti að taka sér hlé frá keppni vegna slysa/meiðsla. Tíðni slysa/meiðsla virðist ekki vera hærri meðal ungmenna í bogfimiíþróttum, á Ólympíuleikum ungmenna 2018 var haldið utan um bæði veikindi og slysa/meiðsla tíðni. Í báðum tilfellum var tíðnin í bogfimi meðal þeirra allra lægstu á leiknum. Hæsta slysa/meiðsla tíðni meðal ungmenna var í golfi.

Þar sem tíðni slysa/meiðsla í bogfimiíþróttum er mjög lág og oft engin er erfitt að skapa stefnu eða markmið til þess að fækka slysum/meiðslum eða minnka möguleika á slysum í íþróttinni. Öryggi er ofið inn í íþróttina og þjálfun frá því að fólk kemst í kynni við íþróttina. Fyrsta sem iðkendum er kennt eru öryggisreglur. Þar á eftir er nýjum iðkendum kennt hver algengustu slys/meiðsli eru og hvernig er hægt að koma í veg fyrir þau.

 • Kenna öllum nýjum iðkendum grunn öryggisreglur í bogfimiíþróttum og meðferð búnaðar
 • Fara yfir og útskýra ástæður og leiðir til að forðast algengustu slys í bogfimi, sérstaklega hjá byrjendum s.s.:
  • Munið eftir armhlífinni, ef strengur slæst í hendi sem heldur boga vegna rangrar beitingar getur það valdið marblettum.
  • Munið eftir fingurvörn, ef skotið er beint af streng án fingurhlífar getur það valdið óþægindum eða blöðrum á fingurgómum.
  • Ekki of há dragþyngd, veljið eins léttan boga og mögulegt er til að byrja með og lærið rétta stöðu og tækni. Þegar góð grunn staða og tækni er til staðar er auðvelt að auka dragþyngd án þess að eiga á hættu á t.d. vöðvabólgu vegna of mikils álags.
  • Mundu að hafa gaman af bogfimi og af lífinu, andleg heilsa er líka heilsa 😉

Ekki er mælt með að iðkendur byrji að stunda íþróttina nema hafa farið á námskeið eða æfingar hjá aðildarfélagi BFSÍ og hafa fengið grunnkennslu á öryggisatriðum íþróttarinnar, grunn stöðu og tækni frá þjálfara til að fyrirbyggja slys/meiðsli sem gætu komið upp.

Algengasta ástæða þess að afreksfólk í bogfimiíþróttum í Íslandi þarf að taka sér hlé frá íþróttinni er talin vera vegna slysa/meiðsla sem gerast við heimilisstörf, ofæfinga eða ástundun annarra íþrótta utan bogfimi æfinga. Því mætti segja að bestu meðmæli til íþróttafólks sem stundar bogfimi til að forðast/fækka slysum/meiðslum sé að:

 • Fara varlega heimavið og í almennu lífi, til dæmis vera í góðum skóm til að minnka líkur á snúnum öklum.
 • Hlusta á líkamann á æfingum hann lætur vita ef hann er að verða fyrir of miklu álagi, spurðu þjálfarann ráða, hann getur einnig bent þér á nuddara/sjúkraþjálfara eða annars fagaðila. Ef þú ert ekki viss minnkaðu álagið. Bogfimi er nákvæmnisíþrótt ekki styrktar íþrótt, sá sem er með hæstu dragþyngdina er ekki sá sem vinnur.
 • Forðastu að stunda áhættusamar íþróttir eða tómstundir þar sem tíðni slysa/meiðsla er há s.s. boltaíþróttir og golf.

Þó að bogfimi sé mjög örugg íþrótt er aldrei hægt að koma að fullu í veg fyrir öll slys/meiðsli, ekkert frekar en í lífinu. Áhættan er talin sambærileg hjá afreksfólki og áhugamönnum í íþróttinni. Æfinga álag er oft mun meira hjá afreksfólki en hjá áhugamönnum, en áhugamenn eru líklegri til þess að slasast/meiðast vegna rangrar beitingar (stöðu/tækni). Heimssambandið bjó til myndskeið tengt því til fræðslu um hvernig má minnka líkur á meiðslum við ástundun bogfimi.