You are currently viewing Íþróttafólk ársins 2023 eru Haraldur og Marín

Íþróttafólk ársins 2023 eru Haraldur og Marín

Marín Aníta Hilmarsdóttir í BF Boganum í Kópavogi og Haraldur Gústafsson í Skaust á Egilstöðum urðu fyrir valinu á Íþróttafólki ársins 2023 hjá BFSÍ. Valið fer fram á hlutlausann veg byggt á útreikningi árangurs keppenda á árinu á innlendum og erlendum mótum.

Marín á Íslandsmeistaramóti utandyra 2023 í Hafnarfirði

Þetta er í þriðja sinn sem Marín hreppir titilinn Íþróttakona ársins hjá BFSÍ, hún var einnig valin 2020 og 2021. Marín endaði hæst allra keppenda með 5,18 stig í útreikningi, næst efsta kona var með 4,68 stig í útreikningi. En það var tæpt og mikil samkeppni meðal efstu tveggja kvenna og þurfti að bíða eftir að niðurstöður allra móta á tímabilinu væru komnar inn áður en mögulegt var að staðfesta hver myndi hreppa titilinn Íþróttakona ársins í útreikningi.

Meðal árangurs Marínar árið 2023 er: Norðurlandameistari, sló Norðurlandametið, sló 4 Íslandsmet, vann 7 Íslandsmeistaratitla einstaklings/félagsliða, varð Íslandsbikarmeistari og vann til tveggja annarra verðlauna í alþjóðlegum mótum erlendis. Marín vann einnig þátttökurétt á Evrópuleikana 2023 og keppti þar fyrir ÍSÍ og var meðal annars fánaberi Íslands á leiknum.

Marín Aníta Hilmarsdóttir var einnig valin sveigbogakona ársins 2023 og er fjallað nánar um hana og hennar árangur í frétt á archery.is.

Haraldur á Íslandsmeistaramóti utandyra 2023 í Hafnarfirði

Þetta er í fyrsta sinn sem Haraldur hreppir titilinn Íþróttamaður ársins hjá BFSÍ. Haraldur byrjaði í íþróttinni árið 2012 og er því búinn að vera að keppa í rúman áratug og hefur lengi langað í þennan titil. Haraldur endaði hæstur karla með 3,92 stig í útreikningi, næst efsti var með var með 3,67 stig í útreikningi.

Haraldur sýndi slíka yfirburði í sinni grein á Íslandi á árinu að sá árangur dugði honum til þess að taka titilinn. Hámarks fjöldi stiga sem mögulegt er að fá fyrir keppni innalands er 4 stig, en mun hærra stiga vægi er sett í útreikningi á árangri alþjóðlegum mótum eftir erfiðleikastigi þeirra. Haraldur var fyrstur í 7 af 8 tilfellum í undankeppni og útsláttarkeppni um Íslandsmeistaratitla ársins í sinni grein, í eina af þessum 8 tilfellum sem hann þurfti að sætta sig við annað sætið var gegn Íþróttakonu ársins Marín Anítu um Íslandsmeistaratitilinn óháð kyni utandyra. Haraldur var skráður til þátttöku á EM og HM á árinu en EM í febrúar var aflýst vegna nátttúruhamfara í Tyrklandi og Haraldur þurfti því miður að aflýsa þátttöku sinni á HM í júlí vegna bráðra veikinda degi fyrir mótið.

Haraldur Gústafsson var einnig valinn sveigbogamaður ársins hjá BFSÍ og fjallað er nánar um hann og hans árangur í frétt á archery.is.

BFSÍ óskar Haraldi og Marín til hamingju með viðurkenningarnar.

BFSÍ veitir árlega tvær viðurkenningar byggt á útreikningi á árangri keppenda á árinu:

Bogfimifólk ársins: Er viðurkenning sem BFSÍ veitir til þeirra karla og kvenna sem hafa staðið sig best í sínum greinum á árinu. Veiting viðurkenninga Bogfimifólks ársins hjá BFSÍ kom meðal annars til þar sem að erfitt var að gera beinan samanburð milli árangurs á milli mismunandi greina í íþróttinni (sveigboga/trissuboga/berboga) þar sem að forsendur eru oft mismunandi. Því er mun meira við hæfi að fólk fái viðurkenningar fyrir árangur í sinni grein þar sem mun auðveldara er að gera beinan samanburð milli tveggja keppenda í tölfræði og árangri sömu grein.

Íþróttafólk ársins: Er viðurkenning sem er veitt til íþróttafólks óháð grein sem keppt er í, í samræmi við viðmið ÍSÍ um tilnefningar til íþróttamanns ársins. BFSÍ sendir tilnefningu um Íþróttakonu og Íþróttamann ársins í bogfimi til ÍSÍ og þau sem tilnefnd eru taka þátt í Íþróttamaður ársins hátíð ÍSÍ og taka við viðurkenningu frá ÍSÍ.

Til að gefa dæmi sem fólk getur mögulega tengt sig við um afhverju eru til tvær viðurkenningar hjá BFSÍ fyrir bogfimi þá væri:

  • Bogfimifólk ársins svipað og að veita viðurkenningar fyrir Tennismann/konu ársins, Badmintonmann/konu ársins og Borðtennismann/konu ársins.
  • Íþróttamaður árins væri svo Spaðamaður/kona ársins.

Þó er vert að geta að ÍSÍ afhendir verðlaun til Tennis/Borðtennis og Badminton karls og konu ársins þar sem þær greinar eru skilgreindar sem mismunandi íþróttagreinar innan ÍSÍ. Bogfimi er heild sinni skilgreind sem ein íþróttagrein innan ÍSÍ, og því aðeins keppt í „bogfimi“ undir þeirra skilgreiningum og því aðeins ein viðurkenning veitt fyrir bogfimi. Svipað á einnig við í sundi, frjálsum og fimleikum.

Þar sem að kynsegin keppendur þurfa sem stendur að velja að keppa í karla eða kvenna flokki í alþjóðlegum mótum og mótakerfi BFSÍ þar sem það er tengt við alþjóðaskorskráningarkerfið (í samræmi við núverandi viðmið WA, þar sem aðeins er mögulegt að keppa í kvenna eða karla flokki), þá er árangur kynsegin íþróttafólks gagnvart viðurkenningum Bogfimifólks ársins og Íþróttafólks ársins metinn í samanburði við það keppniskyn sem þeir hafa valið sér að keppa í alþjóðlega.

Líklegt er að slíkt muni breytast í framtíðinni þegar að alþjóðabogfimisambandið og ÍSÍ hafa gert breytingar sem þarf að gera frá sínum hliðum og BFSÍ mun því fylgja þeirri þróun þegar hún gerist. En ólíklegt er að slíkt gerist fyrr en IOC hefur gefið út viðmið fyrir þátttöku kynsegin íþróttfólks í alþjóðlegum mótum, sem IOC segist reiðubúið til þess að gefa út og áætlað er að komi út á næstu árum.