You are currently viewing Geggjuð niðurstaða en hefði getað gert betur sagði Freyja eftir að taka silfur á World Series í Sviss

Geggjuð niðurstaða en hefði getað gert betur sagði Freyja eftir að taka silfur á World Series í Sviss

Freyja Dís Benediktsdóttir vann silfur verðlaun í dag á World Series í Sviss.

Freyja stóð sig vel í undankeppni mótsins á föstudaginn og endaði í öðru sæti undankeppninnar með 571 stig. Eftir að útsláttarkeppni mótsins var lokið þá voru Freyja og Lea Tonus frá Lúxemborg „last women standing“ ef svo má segja, og þær léku því í gull úrslitum mótsins.

Gull úrslitaleikurinn milli Freyju og Lea var mjög jafn og spennandi. Eftir að síðustu örinni hafði verið skotið í síðustu umferðinni var leikurinn jafn 142-142 og útlit fyrir bráðabana (ein ör, nær miðju vinnur). En síðasta örin sem Freyja skaut var á 10/9 línunni og þegar að örvarnar voru sóttar dæmdi dómarinn þá ör sem 9 og Lea frá Lúxemborg tók sigurinn 142-141 og Freyja hreppti því silfrið. Lara Drobnjak frá Króatíu vann brons leikinn gegn Mariia Brazhnyk frá Sviss.

Freyja er 18 ára keppir í trissuboga kvenna U21 flokki á mótinu og er í Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi. Freyja sagði að innandyra tímabilið sé að byrja vel hjá sér, en aðspurð að því hvernig henni gekk í úrslitaleiknum svaraði hún „Geggjuð niðurstaða en hefði geta gert betur“.

Mótið er fyrsta af fjórum í heimsmótaröð bogfimi heimssambandsins (Indoor World Series) og var haldið í Ólympíuborginni Lausanne Sviss í afreksíþróttamiðstöð heimssambandsins (World Archery Excellence Center). Næstu mót verða haldin í Strassen Lúxemborg í nóvember, Chinese Taipei í desember og svo er síðasta mótið og úrslitamótið í Nimes Frakklandi í janúar. 16 efstu vinna sér þátttökurétt á úrslitamótið í Frakklandi í janúar, en tölfræðilega séð á stigum þá er Freyja í raun búin að vinna sér inn þátttökurétt á úrslitamótið ef hún mætir á síðasta mótið í Frakklandi.

Fyrir þá sem þekkja ekki til þá er heimsmótaröðin innandyra frekar nýleg. Á heimsþingi World Archery 2019 ákveðið að hætta haldi Indoor World Championships (HM innandyra) og Indoor World Cups (Heimsbikarmótaröð innandyra) og hefja þess í stað hald heimsmótaraðar (Indoor World Series). World Series er hybrid af HM og heimsbikarmótum, semsagt 4 mót eins og heimsbikarmótaröð og svo úrslitamót eins og HM þar sem 16 efstu á stigum úr mótum mótaraðarinnar keppa (World Series Finals). Þannig að í raun er þessi mótaröð þannig séð eins „HM“ gagnvart innandyra markbogfimi þó að það heiti annað, en heimssambandið fékk stóran ramma og vilyrði á heimsþinginu til þess að gera breytingar á mótaröðinni til þess að þróa hana. Heimssambandið veitir formlega „World Series Champion“ titla fyrir sigur í úrslitamótum World Series á hverju ári. Heimsmótaraðarmeistari er kannski óþjálla nafn til að kalla einhvern formlega, en það myndi engin lasta þá sem stytta það í heimsmeistara 😉

Fyrsta Indoor World Series mótaröðin var haldin 2019-2020 (og síðasta HM innandyra var 2018) akkúrat þegar að kórónuveirufaraldurinn var að skella á og því hafa verið gerðar miklar breytingar á mótaröðinni á síðustu árum með online útgáfu á meðan að C-19 var sem hæst og tilraun með fyrirtækjaliðakeppni og mörgu fleiru. En nú virðist vera sem svo að mótaröðin sé að finna sinn sess sem í hybrid af HM og heimsbikarmótaröðinni sem höfðu verið haldnar í marga áratugi fyrir breytingarnar 2019.

https://bogfimi.smugmug.com/World-Series-23-24/

https://worldarchery.smugmug.com/INDOOR-WORLD-SERIES/2024/1-LAUSANNE-EXCELLENCE-CHALLENGE