You are currently viewing Afrekssjóður hækkar styrki til afreksstarfs BFSÍ árið 2024

Afrekssjóður hækkar styrki til afreksstarfs BFSÍ árið 2024

BFSÍ fékk bréf þess efnis um helgina að Afrekssjóður ÍSÍ og framkvæmdastjórn ÍSÍ hafi tekið þá ákvörðun 18 janúar að styrkja Afreksstarf BFSÍ um 15.521.000.kr árið 2024. Það væri hækkun um 3.371.000.kr frá árinu 2023 þegar BFSÍ fékk 12.150.000.kr, eða hækkun sem nemur um 27.7% í prósentum.

Á milli ára þá lækkuðu styrkir í heild sinni úr Afrekssjóði ÍSÍ um 7%. Það er meðal annars þar sem afgangur myndaðist á Covid árunum sem var verið að úthluta á árunum 2022-2023. Því væri hægt að segja að ef að BFSÍ hefði staðið á pari við úthlutanir úr Afrekssjóði ÍSÍ á milli ára að þá hefði BFSÍ átt að fá um 7% lægri styrk eða um 11.300.000.kr á árinu 2024.

Ef tekið er tillit til þess að 7% minna fjármagni var úthlutað til sérsambanda 2024 þá mætti í raun segja að BFSÍ hafi hækkað úr 11.3 milljónum upp í 15,5 milljónir. Sem væri 4.200.000.kr hækkun á milli ára eða um 37% hækkun. Sem er algerlega frábært.

Árangur BFSÍ hefur aukist mikið á síðustu árum og útlit er fyrir að slík jákvæð þróun muni halda áfram á næstu árum. BFSÍ er meðal annars að vonast eftir sínum fyrstu verðlaunum á EM í febrúar næstkomandi. En sambandið hefur verið mjög nálægt verðlaunum á EM 2019 og EM 2022, en á öðrum árum á tímabilinu hefur heimsfaraldur og nátttúruhamfarir sett strik þar í reikninginn.

Hægt er að rekja árangur BFSÍ að stórum hluta til þriggja þátta:

  • Íþróttafólksins okkar, árangri og umfangi þátttöku þeirra sem hefur aukist gífurlega á hverju ári.
  • Íþróttastjóra BFSÍ og starfa hans síðasta áratug, lengst til í sjálboðastarfi, í að smíða ramma afreksstarfs BFSÍ og skipuleggja starfið.
  • Styrkjum úr Afrekssjóði ÍSÍ sem er stærsti styrktaraðili afreksstarfs BFSÍ

Án þessara atriða að vinna saman þá væri BFSÍ ekki að ná þeim árangri sem það er að ná í dag.

BFSÍ sótti um um 27 milljónir í Afrekssjóð ÍSÍ fyrir árið 2024 og áætlaður kostnaður Afreksstarfs BFSÍ árið 2024 er yfir 50 milljónir.

Þó að alltaf sé þörf á meira fjármagni þá er vel vert að þakka innilega fyrir þá viðurkenningu og traust sem Afrekssjóður og ÍSÍ sýna BFSÍ. Einnig er vert að viðurkenna starf stjórnarfólks Afrekssjóðs ÍSÍ og starfsfólks ÍSÍ með Kára Stein Reynisson í fararbroddi, sem vinna oft löngum stundum umfram sín eðlilegu störf og margir hverjir í sjálfboðastarfi að gera þetta að veruleika. Og fá stundum meira last en lof fyrir sín störf.

Fjárþörfin er alltaf mun meiri til að sinna afreksstarfi sérsambanda á Íslandi en það fjármagn sem Afrekssjóður hefur til úthlutunar. „Þegar allir eru jafn óánægðir þá höfum við unnið starf okkar vel.“, er brandari sem heyrst hefur sagt innan þeirra raða tengt úthlutunum. BFSÍ hefur ákveðið að vera alltaf þakklátt fyrir allt sem það fær, þar sem það er ekki hægt að taka engum stuðningi sem sjálfsögðum.

Álag við úthlutanir var þó líklega sérstaklega krefjandi hjá ASJ á þessu ári þar sem að reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ var breytt seint á síðasta ári og tekið var upp glænýtt kerfi fyrir flokkun sérsambanda og úthlutun styrkja, svo kallaður afrekskvarði, sem var verið að innleiða á árinu og flokkar sérsambönd í 6 flokka. Sem er meðal annars ástæða þess að úthlutun þessa árs er óvenjulega seint á ferðinni. Samningur BFSÍ við ASJ hefur ekki verið undirritaður formlega enþá en gert er ráð fyrir því að það gerist í næstu viku.

Í framtíðinni eru miklar vonir eru lagðar á að meira fjármagn í afreksstarf á Íslandi. Sérstaklega tengt þeim verkefnum sem Vésteinn Hafsteinsson er að leiða í samstarfi við ÍSÍ og yfirvöld á Íslandi. Og það verður spennandi að sjá fyrstu ummerki um það starf árið 2025.

Myndir í fréttinni er úr ýmsum afreks verkefnum árið 2023.