You are currently viewing Íþróttafólk ársins 2020 Bogfimi – Dagur og Marín

Íþróttafólk ársins 2020 Bogfimi – Dagur og Marín

Dagur Örn Fannarsson 19 ára og Marín Aníta Hilmarsdóttir 16 ára eru yngstu keppendur í sveigboga sem hafa verið valin íþróttafólk ársins í bogfimi. Enginn sveigboga keppandi yngri en 35 ára hefur áður verið titlaður íþróttamaður og kona ársins í bogfimi og þetta er aðeins í annað sinn sem sveigboga keppandi er titlaður íþróttakona ársins. Þetta eru því tímamót í íþróttinni.

Dagur Örn Fannarsson 19 ára átti frábært ár í sveigboga.

Dagur tók Íslandsmeistaratitilinn innandyra með gífurlegum yfirburðum. Dagur var hæstur í undankeppni og tapaði aðeins 1 stig í öllum úrslitaleikjum mótsins. Hann var einnig hæstur í undankeppni á Íslandsmeistaramóti utanhúss. Dagur byrjaði í bogfimi 2018 og þetta var í fyrsta sinn sem Dagur keppir á Íslandsmeistaramótum í opnum flokki og hefur strax sett sig fram sem framúrskarandi íþróttamann. Þetta er einnig fyrsta sinn sem Dagur er tilnefndur og valinn íþróttamaður ársins í bogfimi. Dagur sló tvö einstaklings íslandsmet í U21 flokki á árinu, seinna metið var 553 stig sem setur hann meðal top fimm hæst skorandi sveigboga karla innandyra í bogfimi á Íslandi frá því að skráningar hófust. Dagur sló einnig fimm liðamet með félagsliði sínu.

Áætlað var að senda Dag á EM-, NM- og Evrópubikar ungmenna ásamt fleiri erlendum mótum. Því miður kom heimsfaraldur í veg fyrir það þar sem öllum alþjóðlegum bogfimimótum var aflýst. Einstaklega leitt þar sem Dagur var talinn sigurstranglegur á NM ungmenna.

Marín Aníta Hilmarsdóttir 16 ára að taka toppinn.

Marín sigraði allt með yfirburðum á Íslandsmótum innandyra á þessu ári og tók alla titla og verðlaun sem henni stóðu til boða. Marín vann Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki, U21 og U18 flokki ásamt því að sigra keppendur erlendis frá sem kepptu í alþjóðlega hluta íslandsmóts ungmenna í U18 og U21 flokki. Marín var aðeins einum Íslandsmeistaratitli frá því að taka fullkomið ár í sveigboga kvenna, þar þurfti silfur að duga. Marín á fimm af sex íslandsmetum í U21, U18 og U16 flokkum og hún bætti bæði U18 og U21 utandyra metin á árinu. Ásamt því að bæta fjögur Íslandsmet í liðakeppni með sínu félagsliði. Þetta var í fyrsta sinn sem Marín tók þátt á Íslandsmeistaramótum í opnum flokki og fyrsta sinn sem hún er valin íþróttakona ársins.

Áætlað var að senda Marín á EM-, NM- og Evrópubikar ungmenna ásamt öðrum erlendum mótum. Því miður kom heimsfaraldur í veg fyrir það. Marín hefur sett sér markmiðið að ná sæti fyrir Ísland á Evrópuleika 2023. Gífurlega efnileg stúlka sem vert er að fylgjast með.

Dagur og Marín kepptu og unnu saman Íslandsmeistaratitil í parakeppni félagsliða fyrir Bogfimifélagið Bogann á Íslandsmótinu utanhúss 2020, það var í fyrsta sinn sem keppt var í parakeppni félagsliða á Íslandsmeistaramóti. Þau voru einnig bæði í hæfileikamótun BFSÍ á árinu og náðu lágmörkum fyrir landslið/ungmennalandslið 2021.

Hægt er að finna mörg mynskeið af þeim á archery tv iceland youtube rásinni. https://www.youtube.com/c/ArcheryTVIceland/videos

Ófyrirséðar aðstæður í vali íþróttafólks ársins.

Covid-19 heimsfaraldur olli miklum röskunum í íþróttum hérlendis og erlendis. Undir venjulegum kringumstæðum væri valið eftir tölfræði keppenda sem er reiknuð út frá frammistöðu á mun stærra mengi af mótum og þá sérstaklega erlendum mótum. Sökum heimsfaraldurs þurfti stjórn BFSÍ að virkja ákvæði í reglum um íþróttafólk ársins um ófyrirséð atvik, þá var tölfræði notuð eins og mögulegt var til þess að skilja að besta íþróttafólk ársins. Loka val íþróttafólks ársins féll þá á formenn aðildarfélaga BFSÍ úr þeim einstaklingum sem voru hæstir í tölfræði ársins.