You are currently viewing Annað eldgosið í röð á vel heppnuðu þjálfaranámskeið Alþjóðabogfimisambandsins í samstarfi við Ólympíusamhjálpina, tólf þjálfarar nýjir World Archery Level 2 þjálfarar á Íslandi

Annað eldgosið í röð á vel heppnuðu þjálfaranámskeið Alþjóðabogfimisambandsins í samstarfi við Ólympíusamhjálpina, tólf þjálfarar nýjir World Archery Level 2 þjálfarar á Íslandi

World Archery Coaching seminar level 2 var haldið af Bogfimisambandi Íslands í Bogfimisetrinu dagana 3-11 júlí. Námskeiðið var haldið af þjálfarakennara frá alþjóðabogfimisambandinu World Archery í Bogfimisetrinu, í samstarfi við ÍSÍ og Ólympíusamhjálpina Olympic Solidarity (OS) sem stendur undir meirihluta kostnaði námskeiðsins.

Eins undarlegt og það er þá í hvert skipti sem haldið er bogfimi þjálfaranámskeið á Íslandi með stuðningi frá Ólympíusamhjálpinni þá gýs eldfjall. Litli-hrútur gaus á 7 degi námskeiðsins núna og Meradalir gaus í ágúst 2022 á sama tíma og World Archery þjálfarastig 1 var haldið með styrk frá Ólympíusamhjálpinni 2022. Jarðskjálftar fundust í báðum tilfellum á meðan námskeiðin voru í gangi og í báðum tilfellum lítil hætta fyrir þátttakendur námskeiðins að öðru leiti en að vera á varðbergi gagnvart gasmengun eftir vindátt.

Íslenskum þjálfurum sem eru þegar virkir í þjálfun innan aðildarfélaga BFSÍ og eru með World Archery L1 Coach alþjóðleg þjálfararéttindi var boðin þátttaka á námskeiðinu til þess að auka þekkingu sín og réttindi, svo að námskeiðið myndi skila sem mestum árangri. Allir Íslensku þátttakendurnir náðu mati prófdómara námskeiðsins.

Eftirfarandi einstaklingar sátu WA Coach L2 námskeiðið og náðu mati prófdómara:

 1. Kristján Guðni Sigurðsson – Skotíþróttafélag Ísafjarðar
 2. Valgerður Einarsdóttir Hjaltested – BFSÍ
 3. Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur
 4. Sveinn Stefánsson – BF Hrói Höttur
 5. Albert Ólafsson – BF Boginn
 6. Freyja Dís Benediktsdóttir – BF Boginn
 7. Ragnar Smári Jónasson – BF Boginn
 8. Heba Róbertsdóttir – BF Boginn
 9. Þórdís Unnur Bjarkadóttir – BF Boginn
 10. Haukur Hallsteinsson – BFB Rimmugýgur (Boginn)
 11. Indriði Ragnar Grétarsson – UMF Tindastóll
 12. Izaar Arnar Þorsteinsson – ÍF Akur

Prófdómarar voru:

 • Tim Swane GBR WA – WA Coach trainer L2
 • Gummi Gudjonsson ISL BFSÍ – WA Coach L3

Ekkert formlegt opinbert skor var gefið við matið.

Alþjóðabogfimisambandið er þó ekki formlega byrjað að gefa út alþjóðleg þjálfararéttindi frá sinni hendi fyrir WA Coach L2. Sem stendur er það aðeins gert fyrir WA Coach L1 (stig 1). En venjan er sú að prófdómarar meti þátttakendur á L2 og L3 námskeiðum samt sem áður fyrir viðkomandi landssamband þar til formlegu diploma World Archery verður bætt formlega við L2 og L3, sem áætlað er að gerist á næstu árum.

Tim Swane frá Bretlandi var valinn af World Archery sem þjálfarakennari námskeiðsins út frá tillögu BFSÍ. Tim er með alþjóðlegt þjálfarastig 2 og alþjóðleg þjálfarakennara réttindi stig 2 hjá heimssambandinu World Archery. Tim kennir World Archery þjálfaranámskeið reglubundið í afreksmiðstöð heimssambandsins World Archery Excellence Centre í Lausanne Sviss, og er nú í raun orðinn megin þjálfarakennari í þjálfaramenntun World Archery.

Tim er einnig mjög virkur í þjálfaramenntun í sínu heimalandi (Bretlandi) þar sem hann stendur fyrir nokkrum þjálfaranámskeiðum á ári í Breska þjálfaramenntunarkerfinu, þar sem Bretar halda úti sínu eigin menntunarkerfi fyrir dómara og þjálfara innan Bretlands.

Vert er að geta að World Archery byrjaði aðeins árið 2019 að gefa út formleg diploma fyrir alþjóðleg þjálfararéttindi fyrir stig 1, sem gilda í flestum löndum í heiminum. Og markmið þeirra er að gera það einnig fyrir WA L2 og WA L3 þjálfararéttindi í framtíðinni, en verið er að vinna í að koma þeirri breytingu fyrir sem stendur og kórónuveirufaraldurinn tafði þá vinnu einnig eitthvað.

Þegar því ferli er lokið verður þeim sem lokið hafa WA Coach L2 þjálfaranámskeiðum, eins og þeim sem luku námskeiðinu á Íslandi í dag, boðið að taka þá viðbótar menntun sem bætist við námskeiðin, eða taka endurmenntunar námskeið. Sem verður líklega online námskeið og formlegt mat/próf á næsta þjálfaranámskeiði sem haldið er, án þess að þurfa að sitja námskeiðið aftur.

Kandidatarnir á námskeiðinu þurftu einnig að hafa lokið netnámskeiði og prófi sem bókalega hluta þjálfaranámsins sem tekur almennt um 3 daga að klára. Til viðbótar við það þarf að hafa lokið og náð mati á námskeið á vegum WADA Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin (World Anti Doping Agency) og eru bæði tengd fyrsta stigs þjálfararéttindum.

Tim var mjög ánægður með kandidata sem sátu námskeiðið og sagði að grunn þekkingarstig þeirra væri mjög hátt, sem væri ekki normið á námskeiðum sem hann væri venjulega að kenna. Hann lýsti yfir mikilli ánægju yfir því sérstaklega þar sem að námskeiðið myndi þá líklega ganga hratt og auðveldlega fyrir sig og því myndi líklegast myndast tími til þess að fjalla meira um atriði sem eru ekki í venjulega námskeiðsefninu.

Aldur þátttakenda námskeiðsins var víður frá fimmtán ára til yfir sextugt. Kynjahlutfallið var nokkuð jafnt með 7 karlar og 5 konur sem luku námskeiðinu, en 5 aðrir sem ætluðu upprunalega að sitja námskeiðið þurftu að aflýsa sinni þátttöku vegna vinnu eða annarra skuldbindinga. Þrátt fyrir það voru kandidatar sem sátu námskeiðið frá 50% af aðildarfélögum BFSÍ.

Þó að þátttakendur námskeiðsins hafi lokið WA Coach L2 námskeiðinu á vegum heimssambandsins til þess að sinna þjálfun í bogfimi eru þau ekki að fullu gild á Íslandi fyrr en þátttakendur hafa lokið ÍSÍ þjálfarastigi 2 samkvæmt viðmiðum ÍSÍ sem BFSÍ starfar eftir.

Dagskrá námskeiðsins var fjölbreytt og farið yfir víðan völl af atriðum á mjög stuttum tíma eins og sjá má á námsskránni á myndinni hér fyrir neðan.

Áætlað er að halda þjálfaranámskeið World Archery stig 1 á Íslandi 2024, ef næg þátttaka næst. BFSÍ mun sækjast eftir því að fá stuðning frá Ólympíusamhjálpinni fyrir það verkefni líka ef það verður haldið til þess að halda áfram að byggja upp fjölda þjálfara í bogfimi á Íslandi.

Mögulegt er að finna fleiri myndir af námskeiðinu á smugmug BFSÍ https://bogfimi.smugmug.com/OS-WA-L2-Coaching-Seminar/