You are currently viewing Marín Aníta í 33 sæti á Evrópuleikunum

Marín Aníta í 33 sæti á Evrópuleikunum

Marín Aníta Hilmarsdóttir hefur lokið keppni á Evrópuleikunum 2023 (European Games) í 33 sæti.

Marín keppti í einstaklings útsláttarkeppni í dag og mætti þar Tsiko Putkaradze frá Georgíu.  Leikurinn þeirra var mjög jafn og ansi spennandi í dag.

Marín skaut frekar lágt skor, 20 stig, í fyrstu lotunni og tapaði lotunni og staðan því 2-0 fyrir Tsiko. Marín var smá stressuð/kvíðin/spennt í fyrstu umferðinni, eins og við er að búast, nýjar aðstæður og fyrsta sinn sem hún keppir í alternate shooting útslætti á erlendri grundu á stórmóti í Ólympíuröð.

En Marín náði sér mjög fljótt aftur á strik og sigraði seinni lotuna 28-27 með frábærri grúppu og jafnaði leikinn 2-2.

Tsiko tók þriðju lotuna 28-25 og staðan því 4-2 fyrir Tsiko.

Í fjórðu lotunni skaut Marín 24 og var því nánast búin að tryggja sér sigurinn í þeirri lotu, en Tsiko þurfti að skjóta 10 á síðustu örinni til að jafna lotuna og deila stigunum fyrir lotuna. En Tsiko náði því og skaut 10 á síðustu örinni, stelpurnar voru því jafnar 24-24 og deildu því fjórða settinu 1-1 og staðan því 5-3 fyrir Tsiko og aðeins ein lota eftir.

Flott mynd af æfingasvæði Evrópuleikana þar sem örin er ný lögð af stað og sést hanga í loftinu rétt fyrir framan bogann

Marín þurfti að vinna síðustu lotuna til þess að knýja fram jafntefli og knýja fram bráðabana (Sá sem er fyrr að ná 6 stigum vinnur útsláttar leikinn, ef leikurinn endar jafn 5-5 þá er farið í bráðabana til að ákvarða sigurvegara sem heldur áfram í útsláttarkeppninni. Í bráðabana skýtur hvor keppandi einni ör og sá sem hittir örinni sinni nær miðju skotmarksins vinnur og heldur áfram í næsta leik, hinn er því sleginn út.).

Marín skaut flotta fimmtu lotu með 26 stig. Á síðustu örinni í lotunni þurfti Tsiko að hitta 8 stig eða hærra til að jafna/vinna lotuna og þar með taka sigurinn í leiknum (6-4 eða 7-3), 7 stig eða lægra frá Tsiko og þá tæki Marín lotuna og við færum í bráðabana (ein ör nær miðju vinnur og heldur áfram í keppninni). En Tsiko náði því og skaut 9 stig á síðustu örinni í lotunni og leiknum, og tryggði sér því sigurinn 7-3, og sló Marín út af Evrópuleikunum í 33 sæti eftir 64 manna útsláttarleikinn.

Vert er að geta að Tsiko var að skjóta mjög vel í leiknum gegn Marín, ein besta frammistaða sem hún hefur sýnt og meðal hæstu skorum á keppnisvellinum í dag, Tsiko var því mjög ánægð með leikinn og sína frammistöðu, sérstaklega miðað við vindinn sem var að stríða keppendum tölvuvert í dag.

Ef við berum saman skorin í öðrum útsláttum í dag við skor Marínar þá hefði Marín unnið ansi marga keppendur sem kepptu í dag í sínum leikjum, sem er mjög góðs viti og sýnir að hún er á „levelinu“. En svona er þetta, maður lendir stundum í andstæðingi á góðum degi, stundum á meðal degi og stundum á vondum degi, eins og maður á sjálfur mismunandi daga líka, sem er allt partur af íþróttinni, svokallaða „dagsformið“.

Marín að sækja örvar á æfingasvæði Evrópuleikana

Þetta var samt sem áður mjög vel af sér vikið hjá Marín sem stóð sig frábærlega í leiknum og sérstaklega vel gert að að koma sér aftur inn í leikinn og rétt hugarfarið eftir mjög laka fyrstu lotu, sem hefði dregið mikið úr andlegum styrk og sjálfstrú margra annarra keppenda í sömu aðstæðum. Þetta er aldrei búið fyrr en það er búið að skjóta síðustu örinni.

Marín var persónulega mjög ánægð með frammistöðu sína í leiknum „Þetta munaði svo littlu bara smá munur á því hvar ein ör lenti í síðustu umferðinni. En þessi Georgíska var að skjóta mjög vel í leiknum og átti sigurinn alveg skilið, en mig langaði samt að vinna og ég var ekki langt frá því. Ég var mjög stressuð og kvíðin í dag áður en leikurinn byrjaði, en svo þegar ég byrjaði að skjóta var þetta rosalega gaman og ég var meira spennt. Mig langaði að vinna svo að ég fengi að skjóta fleiri leiki.“.

Evrópuleikarnir eru ekki mjög gamlir leikar en þetta er aðeins í þriðja sinn sem þeir eru haldnir. Hugmyndin á bakvið leikana er að þeir séu „Ólympíuleikar Evrópu“ eða Eurolympis ef má kalla. Sambærilegir leikar eru haldnir í Asíu, Ameríku, Eyjaálfu og Afríku og margir þeirra hafa verið haldnir um langt skeið og Evrópa því aðeins eftir á í þróun þar. En þar sem Evrópuleikarnir eru nýlegir þá eru þeir ekki eins vel þekktir í sumum þjóðum og sumar íþróttir eru en að vinna að koma Evrópuleikunum fyrir í þéttu skipulagi sinna íþrótta (fyrstu Evrópuleikarnir voru haldnir 2015, aðrir 2019 og þriðju 2023)

Þjálfari BFSÍ sagði „Marín stóð sig mjög flott á Evrópuleikunum bæði í undankeppni og útsláttarkeppni. Þetta er bara spurning um að reyna aftur og aftur. Það mikilvægasta er þátttakan, maður getur ekki unnið ef maður tekur ekki þátt. Svo er bara að gefast aldrei upp og halda sífellt áfram að bæta sig í formi, tækni, styrk, þoli, andlega og líkamlega, bæta búnað og byggja upp keppnisreynslu. Og aldrei gleyma því mikilvægasta sem er að fá ánægju úr þessu öllu og hafa gaman, en það gleymist of oft. Það eru Evrópuleikar aftur eftir 4 ár og mörg önnur mót þess á milli sem Marín mun keppa á. Marín er þegar búin að vinna ein gull verðlaun á alþjóðlegu móti í Sviss á þessu ári, þannig að það er bara að halda áfram að taka þátt og bæta sig og við munum sjá Marín í 16 manna úrslitu eða hærra á Evrópuleikunum eftir 4 ár.“

Marín að æfa á æfingasvæði Evrópuleikana með núverandi Ólympíu gull verðlaunahafa karla Mete Gazoz (vann Tókýó leikana)

Marín mun næst keppa á NM ungmenna á laugardaginn næstkomandi 1 júlí í U21 flokki, þar sem hún er talin sigurstrangleg og hefur áður unnið Norðurlandatitla í ungmenna. Í ágúst mun Marín keppa á HM fullorðinna í Berlín sem er einnig fyrsta undankeppni Ólympíuleikana.

Árið 2024 verður síðasta ár Marínar í U21 flokki og því munum við sjá meiri áherslu hjá Marín á því að taka þátt í ungmennamótum á sínu síðasta ári í U21 flokki, áður en hún er komin varanlega í fullorðinsflokk.

Nánari fréttir af Evrópuleikunum og gengi Íslenskra keppenda ÍSÍ í öðrum íþróttum er hægt að finna á vefsíðu ÍSÍ https://isi.is/