BFSÍ gefur bikar til íþróttafólks ársins í hverjum bogaflokki í fyrsta sinn

BFSÍ samþykkti á síðasta stjórnarfundi 27.12  viðbót við reglur um íþróttafólk ársins. BFSÍ gefur út til viðbótar við tilnefningar til íþróttafólks ársins árlega bikar til þeirra sem stóðu sig best í hverjum bogaflokki fyrir sig.

Oft hefur reynst erfitt að velja einstaklinga úr bogfimi í íþróttafólki ársins hjá ÍSÍ þar sem um er að ræða margar íþróttagreinar og mismunandi bogaflokka þar sem aðeins er hægt að velja eina konu og einn karl óháð íþróttagrein eða bogaflokki.

Tölfræðin hefur verið notuð til þess að reyna skera úr á milli einstaklinga en þar er oft mjög lítill munur sem sker á milli þeirra einstaklinga á milli greina. Það eru bara allt of margir að standa sig vel 😊.

Til að koma á móts við þetta og gefa þeim viðurkenningu sem stóðu sig best á árinu í sínum bogaflokki og sinni íþróttagrein hefur BFSÍ ákveðið að gefa sjálft út til viðbótar árlega bikar til þeirra sem stóðu sig best í hverjum bogaflokki fyrir sig út frá sömu tölfræði og er notuð til þess að velja íþróttafólk ársins óháð bogaflokki.

Þeir sem hreppa bikarana á árinu 2020 eru:

Berboga karl ársins 2020: Izaar Arnar Þorsteinsson – ÍF Akur 

Izaar vann bæði innandyra og utandyra Íslandsmeistaramótin á þessu á ári ásamt því að vera hæstur í undankeppni á báðum mótunum. Því má segja að hann hafi átt yfirburðar ár í berboganum á árinu og sé óvéfengjanlegur berbogameistari ársins.

Berboga kona ársins 2020: Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur

Guðbjörg vann bæði innandyra og utandyra Íslandsmeistaramótin á þessu ári bæði í opnum flokki og U21. Guðbjörg sló einnig heims og Evrópumet í opnum flokki og U21 á árinu og var ekki langt frá því að bæta Evrópumetið í U21 aftur á indoor world series í desember þar sem hún var meðal 20% efstu keppenda í heiminum. Hún sló einnig Íslandsmetið í opnum flokki og U21 tvisvar á árinu.

Trissuboga karl ársins 2020: Nói Barkarson – BF Boginn

Nói átti frábært ár. Nói sló 10 einstaklings Íslandsmet í U18 og U21 flokkum á árinu oft með gífurlegri bætingu og 3 liðamet í opnum flokki með sínu félagi. Hann vann alla Íslandsmeistaratitla ungmenna innandyra og utandyra í U18 og U21 flokki, vann alþjóðlega hluta Íslandsmóts ungmenna innandyra í U18 og U21 og Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki innandyra þar sem hann skoraði hæsta skor ársins í trissuboga 581, það eru fáir Íslendingar sem hafa skorað yfir 580 stig af 600 mögulegum á móti hingað til.

Trissuboga kona ársins 2020: Anna María Alfreðsdóttir – ÍF Akur

Anna vann Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki og ungmenna utandyra. Anna náði einnig lágmarks skori fyrir Evrópuleika á árinu með skorið 641 af 720 og skilgreinist því sem afreksfólk hjá BFSÍ. Anna sló einnig bæði Íslandsmetið í U18 og U21 flokki utandyra með því 641 skori, en mjög mikil samkeppni er í trissuboga kvenna.

Sveigboga karl ársins 2020: Dagur Örn Fannarsson – BF Boginn

Dagur var einnig valinn íþróttamaður ársins á heildina litið hjá BFSÍ og fær því bæði bikarinn fyrir Sveigboga karl ársins 2020 og Íþróttamaður ársins 2020. Meira er fjallað um hans árangur í þessari grein https://bogfimi.is/2020/11/08/ithrottafolk-arsins-2020-bogfimi-dagur-og-marin/

Sveigboga kona ársins 2020: Marín Aníta Hilmarsdóttir – BF Boginn

Marín var einnig valinn íþróttakona ársins á heildina litið og fær því bæði bikarinn fyrir Sveigboga kvenna ársins 2020 og Íþróttakona ársins 2020. Meira er fjallað um árangur hennar í þessari grein https://bogfimi.is/2020/11/08/ithrottafolk-arsins-2020-bogfimi-dagur-og-marin/

Óskum þeim öllum innilega til hamingju. Sökum Covid verður enginn formlegur tími eða viðburður til afhendingar og haft verður samband við íþróttafólkið til þess að mæla sér mót til að afhenda verðlaunin.