Bogfimiþing 2021

Fyrsta bogfimiþing BFSÍ var haldið í gær, laugardaginn 13. Mars, í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Þingforseti var kjörinn Valdimar Leó Friðriksson sem stýrði þinginu með prýði. Guðmundur Örn Guðjónsson formaður BFSÍ kynnti ársskýrslu stjórnar og lagði fyrir afreksstefnu sem var samþykkt samhljóða. Albert Ólafsson gjaldkeri BFSÍ lagði fyrir ársreikninga og fjárhagsáætlun sem einnig voru samþykktar samhljóða.

Hafsteinn Pálsson fulltrúi ÍSÍ ávarpaði samkomuna. Bar hann kveðjur frá ÍSÍ og lýsti ánægju með velgengni fyrsta starfsárs BFSÍ þrátt fyrir hraðahindrun síðasta árs eins ræddi hann mikilvægi þess að viðhalda digrum sjóði til að takast á við stór verkefni. Að lokum óskaði hann BFSÍ góðs bogfimiárs og til hamingju með fyrsta þing.

Guðmundur Örn Guðjónsson var kjörinn formaður til tveggja ára. Albert Ólafsson og Haraldur Gústafsson voru endurkjörnir sem meðstjórnendur til fjögurra ára.

Til varamanna voru kjörnir þeir Oliver Ormar Ingvarsson, Alfreð Birgisson og Sveinn Stefánsson. Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir Gunnar Bragason og Ólafur Gíslason.

Sjö af ellefu aðildarfélögum BFSÍ sáu sér fært að taka þátt á þinginu. Nýttu tveir aðilar sér tæknina og fylgdust með í gegnum fjarfundabúnað.

Það er starfinu ómetanlegt að fá fulltrúa til að koma saman og stilla saman strengi; því vill stjórn BFSÍ þakka fyrir frábærar móttökur og góða mætingu á vel heppnað þing.

Bogfimiþing 2021 – Fyrra fundarboð

Bogfimisamband Íslands boðar hér með til bogfimiþings 13. Mars 2021 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal kl. 13:00.

Á bogfimiþingi hafa fulltrúar þeirra sambandsaðila sem eru skuldlaus við BFSÍ fjórum vikum fyrir bogfimiþing einir atkvæðisrétt, en rétt til setu á þinginu, með málfrelsi og tillögurétt hafa allir eftirfarandi þingfulltrúar:

1.
2.
3.
4.
5.
6.

stjórn BFSÍ;
framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóri ÍSÍ;
héraðssambönd og íþróttabandalög;
fastráðnir starfsmenn BFSÍ;
allir nefndarmenn/fulltrúar BFSÍ;
fulltrúi menntamálaráðherra;

Auk þess getur stjórn BFSÍ boðið öðrum aðilum þingsetu telji hún ástæðu til.

Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu og framboð skulu berast stjórn BFSÍ minnst 3 vikum fyrir þing, þ.e. 20. febrúar.

Eigi síðar en tveimur vikum fyrir þingið, þ.e. 27. febrúar, skal BFSÍ senda sambandsaðilum síðara fundarboð í tölvupósti með dagskrá þings og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir þingið ásamt kjörbréfi.

Lög sambandsins eru að finna hér.

Íslandsmeistaramóti innanhúss frestað

Íslandsmeistaramóti Innanhúss í opnum flokki sem halda átti helgina 27. – 28. Mars næstkomandi hefur verið frestað til 27. – 28. Nóvember.

Samkvæmt núgildandi reglugerð yfirvalda væri heimilt að halda mótið með frekar venjulegu sniði. Hinsvegar í ljósi fjölda þeirra þátttakenda sem skilgreindir eru í áhættuhóp og þess að áætlað er að aðeins rétt rúm 10% þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok mars þykir ekki verjandi að halda mótið á þeim dagsetningum sem áætlað var.

Neikvæðar afleiðingar þess að flytja mótið verða að teljast smávægilegar í hliðstæðu við að færa það ekki og þar með að hluti af okkar þátttakendum treysti sér ekki til að sækja það.

Í raun voru þrír möguleikar í stöðunni. Forsvarsmönnum aðildarfélaga voru kynntir þessir kostir og óskað eftir áliti þeirra.

  1. Halda Íslandsmeistaramót eins og venjulega á settum tíma.
    Þó alltaf haldið innan þeirra reglugerðar sem er í gildi að hverju sinni.

  2. Halda Íslandsmeistaramót með Covid-sniði á settum tíma.
    Að mótið verði haldið með miklum breytingum til að halda sóttvörnum í fullum forgangi. Undankeppni verði skipt niður og engin útsláttarkeppni.

  3. Að færa mótið fram í Nóvember og halda það þá með venjulegu sniði.
    Mótinu verði frestað til nóvember líkt og Ungmenna- og öldungamótunum, þegar áætlað er að bólusetningar séu komnar vel í gang og ætti þá að vera aðgengilegra fyrir alla að sækja mótið í venjulegu sniði.

Þeir forsvarsmenn sem skiluðu áliti voru hlynntir þriðja valkostinum; að færa mótið til nóvember. Er þessi ákvörðun því tekin í samráði við félögin.

Íslandsmótum ungmenna og öldunga innanhúss frestað

Vegna áframhaldandi óvissu af völdum COVID nú þegar nær dregur að íslandsmótum innanhúss og þar sem gildandi reglugerð bannar enn keppnishald þá hefur stjórn BFSÍ ákveðið að fresta Íslandsmótum ungmenna og öldunga til seinna á árinu þegar ástandið er vonandi orðið skárra.

Líklegt er að ekki verði leyfilegt að halda þessi mót á næstu mánuðum miðað við takmarkanir vegna Covid. Ef mögulegt yrði að halda mótin á næstu tveimur mánuðum þá yrðu þau ekki venjuleg Íslandsmót og þyrfti að breyta fyrirkomulagi mótana gífurlega, s.s. sleppa útsláttarkeppni og gull keppni á livestream. Líklegt er að mögulegt verði að halda venjuleg Íslandsmót seinni hluta ársins eftir að bólusetningar eru byrjaðar að segja til sín og samkomubönnum mögulega aflétt.

Ný dagsetning Íslandsmóts Ungmenna innanhúss er 30. og 31. Október.
Skráningarform Íslandsmót Ungmenna Innanhúss

Ný dagsetning Íslandsmóts Öldunga innanhúss er 13. og 14. Nóvember.
Skráningarform Íslandsmót Öldunga Innanhúss

Íslandsmeistaramót innanhúss í opnum flokki hefur ekki verið fært og er enn sett helgina 27. og 28. Mars. Við eigum þó eftir að sjá hvernig ástandið þróast en vonum að ekki þurfi að raska dagsetningum frekar.

Formannafundur Bogfimisambands Íslands 2020

Fundarboð

Formannafundur Bogfimisambands Íslands 2020

Hér með er boðað til formannafundar Bogfimisambands Íslands.  Fundurinn verður haldinn sunnudaginn 29. mars 2020 kl. 13:00 í húsnæði Múltikúlti Barónsstíg 3, 101 Reykjavík.

Rétt til setu á fundinum hafa formenn, eða fulltrúar þeirra, frá þeim íþróttabandalögum, héraðssamböndum og félögum sem mynda sambandið.

Dagskrá

·       Skýrsla stjórnar um starfsemi síðastliðins árs.

·       Ársreikningur síðastliðins árs lagður fram.

·       Fjárhagsáætlun lögð fram. 

·       Ákvörðun um drög að afreksstefnu fyrir 2020 og 2021.

·       Önnur mál.

Stjórn BSFÍ  28. febrúar 2020