You are currently viewing Mikið um óvæntar niðurstöður á Íslandsmeistaramótinu um helgina

Mikið um óvæntar niðurstöður á Íslandsmeistaramótinu um helgina

Íslandsmeistaramót í bogfimi innandyra 2023 var haldið af Bogfimisambandi Íslands helgina 25-26 febrúar í Bogfimisetrinu í Reykjavík. Níu Íslandsmeistaratitlar voru í boði í einstaklingskeppni og níu í félagsliðakeppni á mótinu þremur keppnisgreinum, trissuboga, berboga og Ólympískum sveigboga.

Í þessari frétt verður stiklað á stóru um það helsta fréttnæma sem gerðist á mótinu ásamt úrslitum mótsins. Áætlað er, eins og hefðbundið er orðið, að ítarlegri fréttir verða birtar um hvern sigurvegara í úrslitum á archery.is fréttavefnum á næstu dögum.

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested Íslandsmeistari sveigboga kvenna

Highlights um mótið og úrslit mótsins:

Lengsta óbrotna sigurröð Íslandsmeistaratitla lauk á mótinu eftir að Heba Róbertsdóttir vann Guðbjörgu Reynisdóttir. En Guðbjörg hefur unnið síðustu 11 Íslandsmeistaratitla berboga kvenna í röð.

Lengsta óbrotna sigurröð Íslandsmeistaratitla karla lauk á mótinu. Izaar Arnar Þorsteinsson átti þá sigurröð í berboga karla með sjö Íslandsmeistaratitla í röð. Gummi Guðjónsson vann titilinn að þessu sinni eftir að hafa slegið Izaar út í undanúrslitum.

Lengsta óbrotna sigurröð Íslandsmeistaratitla sveigboga kvenna lauk á mótinu eftir að Valgerður Einarsdóttir Hjaltested sigraði Marín Anítu Hilmarsdóttir 6-4 í úrslitaleiknum. En Marín hefur unnið síðustu fjóra Íslandsmeistaratitla í röð í sveigboga kvenna.

Haraldur Gústafsson í Skaust Íslandsmeistari karla og Íslandsmeistari Unisex

Allir sex Íslandsmeistaratitlar karla og kvenna skiptu um hendur á mótinu sem er í fyrsta sinn sem það gerist í sögu íþróttarinnar. Þrír af sex krýndum Íslandsmeisturum höfðu unnið titil áður í sömu keppnisgrein, einn hafði áður unnið titla í öðrum keppnisgreinum og  tveir keppendur voru að taka sína fyrstu Íslandsmeistaratitla á ferlinum. Heba Róbertsdótttir í berboga kvenna og Valgerður Einarsdóttir Hjaltested í sveigboga kvenna unnu sína fyrstu Íslandsmeistaratitla á mótinu.

Gummi Guðjónsson er fyrsti keppandi í íþróttinni til þess að hafa unnið einstaklings Íslandsmeistaratitil í öllum keppnigreinum (sveigboga, trissuboga og berboga). Hann hefur unnið til margra Íslandsmeistaratitla á síðasta áratug fyrir nokkur íþróttafélög en þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill hans í berboga. Nokkrir keppendur keppa í tveim keppnisgreinum (s.s. sveigboga og berboga) þó að flestir keppendur keppi aðeins í einni grein, en aðeins tveir á Íslandi keppa í öllum þremur keppnisgreinum. Því er ólíklegt að einhver annar muni leika það eftir að taka Íslandsmeistaratitil í öllum keppnisgreinum í bogfimi.

53 keppendur voru skráðir til keppni á Íslandsmeistaramótið í opnum flokki innandyra að þessu sinni, sem er mesti fjöldi til dags. Útlit er fyrir að áhrif kórónuveirufaraldursins séu að hjaðna, en það hafði mikil áhrif á vöxt íþróttarinnar. Meirihluti almennra keppenda í íþróttinni skráir sig þó ekki til keppni á Íslandsmeistaramótum í opnum flokki þar sem erfiðleikastigið á mótinu er svo gífurlega hátt.

Keppendur að skrá skor í undankeppni

Átta Íslandsmet voru slegin á mótinu og mögulega eitt Evrópumet (Evrópumetið er óstaðfest sem stendur). Helsta metið sem vert er að nefna er Guðbjörg Reynisdóttir sem er búin að slá berboga kvenna Íslandsmetið í nánast hverjum mánuði síðasta hálfa árið. Metið var áður 490 stig frá því í janúar og er nú 503 stig! Til samanburðar eru Evrópumetin í U18 498, U21 517 og opnum flokki 540.

Bogfimifélagið Boginn í Kópavogi vann alla Íslandsmeistaratitla í félagsliðakeppni á Íslandsmeistaramótinu. Það er í fyrsta sinn sem félagslið vinnur alla níu Íslandsmeistaratitla félagsliða í sögu íþróttarinnar og talið ólíklegt að það gerist aftur og mætti því flokka sem heljarinnar afrek. Boginn tók einnig flesta einstaklings Íslandsmeistaratitla með 4 af 9, BF Hrói Höttur tók 3 og Skaust tók 2 titla.

Þetta er í fyrsta sinn sem veittir eru formlegir Íslandsmeistaratitlar óháð kyni (unisex). En sú viðbót var m.a. gerð á reglum BFSÍ til að stuðla að keppni milli karla og kvenna og til að þeir sem skráðir eru í þriðju kynskráningu í þjóðskrá geti keppt um Íslandsmeistaratitla. Einn kynsegin keppandi keppti í berboga á mótinu og endaði í 11 sæti. Konur unnu tvo af þrem titlum óháðum kyni.

Það getur verið sárt að tapa Íslandsmeistaratitlinum í unisex 6-4 gegn Guðbjörgu á síðustu örinni eftir 12 klukkustunda keppnisdag. Gummi þurfti á síðustu örinni í leiknum 10 stig til að vinna, 9 stig til að jafna og knýja fram bráðabana en hann skaut 7 stig.

Þetta er í fyrsta sinn í manna minnum sem Íþróttafélagi Akur vinnur engan Íslandsmeistaratitil á Íslandsmeistaramóti í bogfimi. En Akureyringar áttu hreint út sagt frábært ár 2022 þar sem þeir unnu 50% af einstaklings Íslandsmeistaratitlum bæði innandyra og utandyra (3 af 6 í báðum tilfellum) og félagið hefur venjulega tekið 1-2 félagsliða Íslandsmeistaratitla til viðbótar. Þrír af keppendum Akurs voru titlaðir bogfimifólk ársins í sínum keppnisgreinum árið 2022, þrjú önnur félög á landinu deildu með sér hinum þremur titlunum 2022. Báðir íþróttamenn ársins hjá BFSÍ 2022 sem tilnefndir voru til ÍSÍ voru úr ÍF Akri. Því var enginn sem sá það fyrir að íþróttafélag sem sýndi eina sterkustu frammistöðu á árinu 2022 færi heim með engan Íslandsmeistaratitil 2023. Það er greinilegt að aðstöðuleysi félagsins er farið að hafa gífurleg áhrif á iðkendur og afreksíþróttafólk á Akureyri, þar sem félagið hefur enga aðstöðu til þess að stunda íþróttina lengur og við vonum að Akureyrarbær kippi því í liðinn sem fyrst þar sem margt er um mjög efnilegu íþróttafólki þar í bæ, sem getur og hefur náð langt bæði á Íslandi og heimsvísu.

Önnur skotklukkan á mótinu var skotin af keppanda sem var að flýta sér að ná að skjóta sinni ör innan tíma í blandaðri félagsliðakeppni. Aðeins eru gefnar 20 sekúndur til þess að skjóta hverri ör í sjónvörpuðum úrslitaleikjum og það getur verið erfitt ef að liðsfélagarnir eru ekki vanir að skjóta á eðlilegum hraða. Sem betur fer fékk Bogfimisamband Íslands styrk frá Rannís á þessu ári til þess að endurnýja skotklukkurnar og áætla má að þær verði komnar til landsins þegar að utandyratímabilið hefst. En Íslandsmeistaramótið innandyra var síðasta mót innandyra tímabilsins.

Frá vinstri Daniel Sanchez Pombrol og Ru Barlow Bretar í heimsókn

Tveir Bretar kepptu í alþjóðlega hluta Íslandsmeistaramótsins í sveigboga karla. Þeim var gefið tækifæri á því að vera íþróttaskýrendur í beinni útsendingu úrslita Íslandsmeistaramótsins, stýra myndavéla skiptum og voru einstaklinga vinsælir í því hlutverki meðal keppenda og áhorfenda. Það gaf þeim einnig tækifæri á því að kynnast því hvernig beinar útsendingar fara fram á bogfimimótum. BFSÍ er með fjórða mesta fjölda áskrifenda á Youtube af íþrótta sérsamböndum á Íslandi, rétt yfir KKÍ og rétt undir HSÍ í áskrifenda fjölda. Einnig er BFSÍ með einar bestu útsendingar af sínum viðburðum meðal bogfimi landssambanda í heiminum á Archery TV Iceland Youtube rásinni. Bretarnir töpuðu báðir í undanúrslitum Recurve International Men og enduðu því á að þurfa að keppa við hvern annan um brons verðlaunin á mótinu sem Daniel vann.

Helstu niðurstöður mótsins:

Íslandsmeistaratitlar karla

  • Haraldur Gústafsson – Skaust – Sveigbogi karla
  • Nói Barkarson – BF Boginn – Trissubogi karla
  • Gummi Guðjónsson – BF Boginn – Berbogi karla

Íslandsmeistaratitlar kvenna

  • Valgerður Einarsdóttir Hjaltested – BF Boginn – Sveigbogi kvenna
  • Eowyn Marie Mamalias – BF Hrói Höttur – Trissubogi kvenna
  • Heba Róbertsdóttir – BF Boginn – Berbogi kvenna

Íslandsmeistaratitlar (unisex, keppni óháð kyni)

  • Haraldur Gústafsson – Skaust – Sveigbogi
  • Eowyn Marie Mamalias – BF Hrói Höttur – Trissubogi
  • Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur – Berbogi
Smá hæðar munur á Íslandsmeistaranum í trissuboga unisex og silfur/brons verðlaunahöfunum. Margur er knár þótt hann sé smár. Frá vinstri Þorsteinn Halldórsson (brons), Eowyn Marie Mamalias (Íslandsmeistari kvenna og unisex) og Alfreð Birgisson (silfur)

Íslandsmeistaratitlar í félagsliðakeppni (3 manna lið í sama kyni)

  • Sveigbogi karla félagslið – BF Boginn Kópavogi
    Oliver Ormar Ingvarsson, Alex Johnsson og Marcin Bylica
  • Sveigbogi kvenna félagslið – BF Boginn Kópavogi
    Marín Aníta Hilmarsdóttir, Valgerður E. Hjaltested og Melissa Pampoulie
  • Trissubogi karla félagslið – BF Boginn Kópavogi
    Nói Barkarson, Albert Ólafsson og Ísar Logi Þorsteinsson
  • Trissubogi kvenna félaglið – BF Boginn Kópavogi
    Freyja Dís Benediktsdóttir, Sara Sigurðardóttir og Þórdís Unnur Bjarkadóttir
  • Berbogi karla félagslið – BF Boginn Kópavogi
    Gummi Guðjónsson, Sveinn Sveinbjörnsson og Sölvi Óskarsson
  • Berbogi kvenna félagslið – BF Boginn Kópavogi
    Heba Róbertsdóttir, Astrid Daxböck og Birna Magnúsdóttir

Íslandsmeistaratitlar í blandaðri félagsliðakeppni (á ensku mixed team, 2 manna lið, 1 kk og 1 kvk)

  • Sveigbogi blönduð félagsliðakeppni – BF Boginn Kópavogi
    Marín Aníta Hilmarsdóttir og Oliver Ormar Ingvarsson
  • Trissubogi blönduð félagsliðakeppni – BF Boginn Kópavogi
    Nói Barkarson og Freyja Dís Benediktsdóttir
  • Berbogi blönduð félagsliðakeppni – BF Boginn Kópavogi
    Heba Róbertsdóttir og Gummi Guðjónsson
Lena Sóley Þorvaldsdóttir og Matej Cieslar í bardaga um gullið í langboga unisex.

Langbogaflokkur á Íslandsmeistaramótinu.

Þar sem langbogi er ekki formleg keppnisgrein í markbogfimi innandyra í reglum alþjóðabogfimisambandsins World Archery (WA) eða í keppnisreglum BFSÍ eru ekki gefnir formlegir Íslandsmeistaratitlar fyrir keppni í langboga. En það dregur þó ekki úr því, að þó að óformlegt hafi verið, að eftirfarandi unnu gullið í sinni keppnisgrein á Íslandsmeistaramótinu:

  • Langbogi karla gull – Matthias Cosnefroy – BF Boginn
  • Langbogi kvenna gull – Lena Sóley Þorvaldsdóttir – ÍF Akur
  • Langbogi (unisex) gull – Matej Cieslar – ÍF Akur
  • Langbogi blandað félagslið gull – ÍF Akur
    Lena Sóley Þorvaldsdóttir og Matej Cieslar

Ef vel gengur með viðbót langbogaflokks á Íslandsmeistaramótum og þátttaka eykst mun BFSÍ íhuga að bæta keppnisgreininni inn í regluverk sambandsins og gefa formlega titla og met í greininni. Þó er mögulegt að það verði ekki í núverandi formi. Eitthvað hefur verið rætt um hvort að heppilegra væri að bæta við fornaldarbogaflokki, svo að allar tegundir af fornaldar bogum geti tekið þátt (s.s. hestabogar og slíkt)

Alþjóðlegi hluti Íslandsmeistaramótsins.

Þegar að alþjóðlegir keppendur skrá sig til keppni á Íslandsmeistaramótum er sett upp sér keppni sem alþjóðlegir keppendur geta tekið þátt í. Það er gert þar sem að aðeins þeir sem hafa búið á Íslandi lengur en ár og eru skráðir í aðildarfélög BFSÍ geta keppt um Íslandsmeistaratitla. Tveir Bretar voru skráðir til keppni á mótinu í sveigboga og því var sett upp alþjóðleg keppni í sveigboga karla (Recurve International Men). Verðlaunahafar þar voru:

  • Oliver Ormar Ingvarsson – Iceland – BF Boginn – Gull
  • Haraldur Gústafsson – Iceland – Skaust – Silfur
  • Daniel Sanchez Pombrol – Great Britain – Peacock Archers – Brons
Dómari gefur merki um að starfsfólk á skotmarki í sjónvörpuðum úrslitum hafi lokið sínum störfum við að skora og næsta lota geti hafist.

Íslandsmet á Íslandsmeistaramótinu 2023:

Sex Íslandsmet voru slegin á Íslandsmeistaramótinu um helgina.

  • Berbogi kvenna – Guðbjörg Reynisdóttir 503 stig – BF Hrói Höttur (metið var áður 490)
  • Sveigbogi U18 WA – Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir 407 stig – BF Boginn (metið var áður 379 stig)
  • Sveigbogi blandað félagslið 50+ undankeppni – Skaust 1028 stig (metið var áður 1021)
    Haraldur Gústafsson og Guðný Gréta Eyþórdóttir
  • Berbogi blandað félagslið 50+ undankeppni – BF Boginn 874 (metið var áður 849)
    Sveinn Sveinbjörnsson og Birna Magnúsdóttir
  • Berbogi karla félagslið undankeppni – BF Boginn 1366 stig (nýtt)
    Gummi Guðjónsson, Sveinn Sveinbjörnsson og Sölvi Óskarsson
  • Berbogi kvenna félagslið undankeppni – BF Boginn 1153 stig (metið var áður 1052)
    Heba Róbertsdóttir, Astrid Daxböck og Birna Magnúsdóttir
  • Berbogi blandað félagslið undankeppni – BF Boginn 929 stig (metið var áður 849)
    Heba Róbertsdóttir og Gummi Guðjónsson
  • Trissubogi kvenna félagslið undankeppni – BF Boginn 1681 stig (metið var áður 1677 stig)
    Freyja Dís Benediktsdóttir, Sara Sigurðardóttir og Þórdís Unnur Bjarkadóttir
  • Þórdís Unnur Bjarkadóttir jafnaði U18 WA undankeppni Íslandsmetið með 558 stig.
  • Evrópumet trissuboga fatlaðra karla opnum flokki útsláttarkeppni – Þorsteinn Halldórsson 143 stig
    (óstaðfest en tilkynnt af BFSÍ, mögulegt er að þetta geti verið villa í meta gagnagrunni World Archery, en ef svo er ekki þá er þetta Evrópumet) UPPFÆRSLA 23.3.2023: póstur barst um að metið hafi verið samþykkt af WA og vefsíða WAE hefur verið uppfærð.
Heba Róbertsdóttir Íslandsmeistari í berboga kvenna

Frekari upplýsingar um Íslandsmeistaramótið er m.a. mögulegt að finna hér:

Fréttamiðlar hafa leyfi til þess að nota allt efni sem er á þeim síðum í sínum fréttaflutningi og geta haft samband við BFSÍ ef þeir vilja frekari upplýsingar.

Í lokin vill BFSÍ þakka kærlega hetjunum sem gerðu mótið mögulegt og árangursríkt.+

Styrktaraðilar

Starfsfólk

  • Valgerður E. Hjaltested skipuleggjandi, mótsstjóri, skorskráningarkerfi og birting
  • Gummi Guðjónsson eftirlitsaðili og ráðgjafi

Dómarar

  • Freyja Dís Benediktsdóttir
  • Guðbjörg Reynisdóttir
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir
  • Gummi Guðjónsson

Útsendingar og úrslitaleikir

  • Oliver Ormar Ingvarsson yfirmaður, stjórnandi og alt mulig mand
  • Ewa Ploszaj – Kamerumaður
  • Ísar Logi Þorsteinsson – Kamerumaður
  • Þórdís Unnur Bjarkadóttir – Skorskráning
  • Anna María Alfreðsdóttir – Skorskráning
  • Ragnar Smári Jónasson – Skorskráning
  • Georg Elfarsson – Örvadragari/hlaupari/dansari og tímavörður
  • Sölvi Óskarsson – Örvadragari/hlaupari
  • Rakel Arnþórsdóttir – Örvadragari/hlaupari
  • Auðunn Andri Jóhannesson – Örvadragari/hlaupari
  • Izaar Arnar Þorsteinsson – Örvadragari/hlaupari/burðardýr
  • Haukur Hallsteinsson – Burðardýr
  • Ru Barlow – Íþróttaskýrandi
  • Daniel Sanchez – Íþróttaskýrandi
  • Haraldur Gústafsson – Afleysing íþróttaskýranda
  • Og allir þeir sem við gleymum að nefna, aðstoðuðu á einhvern veg við hald mótsins