You are currently viewing Fyrsta kynsegin/annað Íslandsmet var sett á bikarmóti BFSÍ í dag

Fyrsta kynsegin/annað Íslandsmet var sett á bikarmóti BFSÍ í dag

Frost Ás Þórðarson úr BF Boganum í Kópavogi setti fyrsta Íslandsmet í þriðju kynskráningu í þjóðskrá (kynsegin/annað) á Bikarmóti Bogfimisambands Íslands (BFSÍ) í dag. Eftir því sem best er vitað er þetta fyrsta Íslandsmet sem veitt er í nokkurri íþrótt fyrir þriðju kynskráningu í þjóðskrá (kynsegin/annað).

Íslandsmetið er 264 stig í berboga kynsegin/annað og hán hefur þegar tilkynnt metið í gegnum tilkynningar form á vefsíðu sambandsins og fengið það staðfest af Bogfimisambandi Íslands (BFSÍ). Áætlað er að Íslandsmetaskrá verði uppfærð síðar í dag. Við óskum Frost til hamingju með metið 🏹🏳️‍🌈

Frost endaði í 4 sæti á bikarmótinu um helgina í berboga, en það er aðeins þriðja bogfimimót sem Frost keppir á, en hán byrjaði í íþróttinni snemma á árinu 2022.

Bikarmót BFSÍ eru einnig tengd við World Series Open innandyra mótaröð Alþjóða bogfimisambandsins World Archery og skor Frost mun því einnig gilda til stiga á þeim heimslista, en hán þurfti þó að velja hvort að skorið myndi gilda til stiga á heimslista karla eða kvenna þar sem World Archery er ekki með möguleika á þriðju kynskráningu að svo stöddu í landsliðsverkefnum. Veiting Íslandsmeta í kynsegin/annað er í samræmi við uppfærða reglugerð Bogfimisambands Íslands um Íslandsmet sem stjórn BFSÍ samþykkti á stjórnarfundi  fimmtudaginn 5 janúar 2023. En fjallað er um bæði breytingar á reglugerðum og forsendur þátttöku kynsegin/annað aðila til þátttöku í landsliðsverkefnum náið í þessar fréttagrein.