You are currently viewing Allir náðu alþjóðlegum þjálfararéttindum á vel heppnuðu þjálfaranámskeiði Alþjóðabogfimisambandsins í samstarfi við Ólympíusamhjálpina

Allir náðu alþjóðlegum þjálfararéttindum á vel heppnuðu þjálfaranámskeiði Alþjóðabogfimisambandsins í samstarfi við Ólympíusamhjálpina

Þjálfaranámskeið stig 1 heimssambandsins World Archery (WA) var haldið af Bogfimisambandi Íslands í Bogfimisetrinu dagana 2-7 ágúst. Námskeiðið var haldið í samstarfi við ÍSÍ og Ólympíusamhjálpina Olympic Solidarity (OS) sem stendur undir meirihluta kostnaði námskeiðsins. Allir Íslensku þátttakendurnir náðu mati prófdómara WA, en endanleg staðfesting og skírteini munu berast frá WA á næstu vikum eftir að skýrsluskilum og viðeigandi form hafa verið fyllt út. Alþjóðlegu þjálfararéttindin gilda í fjögur ár.

Aðildarfélög BFSÍ voru hvött til þess að velja einstaklinga sem væru þegar mjög virkir í starfi innan félagana til þátttöku til þess að þekkingin myndi skila sér sem mest inn í þeirra starf til iðkenda og til að efla íþróttina á Íslandi. Aðildarfélögin höfðu endanlega valið um hvaða þátttakendur á þeirra vegum sætu námskeið. Það heppnaðist mjög vel, skilaði sterkum kandidötum með fyrri reynslu eins og sjá má á niðurstöðunum. Þátttakendur þurftu að ná að lágmarki 12 stigum af 20 til þess að ná matinu.

Eftirfarandi einstaklingar sátu námskeiðið og náðu World Archery L1 Coach alþjóðlegum réttindum:

 • Valgerður Einarsdóttir Hjaltested – BF Boginn – 19 stig
 • Anna María Alfreðsdóttir – ÍF Akur – 20 stig
 • Albert Ólafsson – BF Boginn – 19 stig
 • Kristján Guðni Sigurðsson – Skotíþróttafélag Ísafjarðar – 19 stig
 • Freyja Dís Benediktsdóttir – BF Boginn – 19,5 stig
 • Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur – 17 stig
 • Ragnar Smári Jónasson – BF Boginn – 17,5 stig
 • Haukur Hallsteinsson – BFB Rimmugýgur (Boginn) – 20 stig
 • Heba Róbertsdóttir – BF Boginn – 17 stig
 • Ásgeir Ingi Unnsteinsson – ÍF Akur – 19 stig
 • Þórdís Unnur Bjarkadóttir – BF Boginn – 18,5 stig

Albert og Haukur fengu óformlega „gull stjörnu“ frá þjálfarakennaranum fyrir einstaklega vel uppsett og ítarlegt námskeiðs skipulag sem þeir lögðu fram á matsdeginum (above and beyond). Vel umfram þau viðmið sem sett eru upp fyrir námskeiðið og voru notuð sem dæmi fyrir aðra þátttakendur, þó að það gildi ekki til auka stiga í einkunn er vel vert að nefna það. Anna og Haukur fengu fullkomið skor 20 stig og Freyja var stutt frá því með 19,5.

2019 tók Alþjóða bogfimisambandið World Archery í notkun nýtt ferli og námskeið fyrir stig 1 þjálfararéttindi innan sinna raða, þar sem verklegu matsferli og online verklegu var m.a. bætt við, námskeiðið var lengt og öll réttindi eldri en 2017 gerð úrelt. Kandidatar taka fyrst net námskeið og próf sem bókalega hluta þjálfaranámsins sem tekur almennt um 3 daga að klára. Til viðbótar við það þarf að sitja net námskeið á vegum WADA Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin (World Anti Doping Agency). Námskeiðið sem var haldið á Íslandi var verklegi hluti þjálfaranámsins sem er 5-8 dagar (fer eftir fjölda tíma á dag) og svo einn dagur til viðbótar við lok verklega hluta þjálfaranáms stig 1 fyrir WA til að framkvæma matið á þátttakendum.

Christos Karmoiris frá Grikklandi var valinn af World Archery sem þjálfarakennari á námskeiðinu. Christos er með alþjóðlegt þjálfarastig 2 og alþjóðleg þjálfarakennara réttindi stig 2 hjá heimssambandinu. Þetta var fyrsta World Archery „certified“ þjálfaranámskeið sem hann kennir fyrir hönd heimssambandsins eftir að nýja fyrirkomulagið var tekið upp (enda 2019 sem nýja fyrirkomulagið var tekið upp og ekki mikið gert árin 2020-2021 vegna kórónuveirufaraldursins). En hann hefur haldið slík námskeið í nokkrum löndum á þessum áratug fyrir landssambönd í eldra fyrirkomulaginu. Áætlað er að Christos haldi næsta slíkt „certified“ námskeið í Íran síðar á árinu fyrir World Archery.

Prófdómarar WA á námskeiðinu voru Christos Karmoiris frá Grikklandi og heimssambandið óskaði eftir því að Guðmundur Örn Guðjónsson Íþróttastjóri BFSÍ yrði annar prófdómari. Guðmundur er ekki með þjálfarakennara réttindi innan WA og tók ekki mikið þátt í kennslu á námskeiðinu, en hann er með hæstu þjálfararéttindi innan WA, einu stigi hærra en þjálfarakennarinn, og var því vel hæfur til þess að sinna stöðu prófdómara skv. mati WA. Góð samsvörun var í einkunnum prófdómarana og lítill munur á milli þeirra í stiga mati.

Fyrir upphaf námskeiðsins gerðu Íþróttastjóri BFSÍ og þjálfarakennari WA samkomulag um það að þeir einstaklingar sem næðu ekki mati fyrir Alþjóðleg þjálfararéttindi (sem var áætlað að gæti gerst) en væru með meðal einkunn (10-12) fengju samt mat sem þjálfarar innan BFSÍ. Meðal einkunn (10-12) gefur þátttakanda möguleika á því að endurtaka mat um alþjóðleg þjálfararéttindi á WA námskeiði í framtíðinni án þess að sitja námskeiðið sjálft. Það þurfti þó ekki að beita því þar sem lægsta einkunn var 17 sem er vel gert hjá okkar fólki. Christos sagði að á námskeiðum landssambanda ýmissa landa þar sem hann hefur haldið námskeið með fyrirkomulagi WA en þó ekki „certified“ í nýja fyrirkomulaginu hafi hann gefið einkunn niður í 2 stig af 20 mögulegum og þetta er fyrsta námskeið sem hann man eftir að hann haldi og allir ná mati.

Christos var mjög ánægður með fyrirkomulagið að velja einstaklinga sem eru virkir í félagsstarfi og hafa fyrri reynslu sem leiðbeinendur eða þjálfarar í íþróttinni. Christos er meðal virkari þjálfarakennara með réttindi og býr sem stendur í Sádí-Arabíu þar sem hann starfar sem þjálfarakennari í uppbyggingu þjálfara og þjálfaramenntunarkerfi landsins.

Christos fannst aðstaða til iðkunar á íþróttinni innandyra ein sú besta sem hann hefur séð og rammaverk og aðferðafræði BFSÍ í uppsetningu og útbreiðslu íþróttarinnar vera fordæmi fyrir aðrar þjóðir. Hann óskaði einnig eftir að Íþróttastjóri BFSÍ kæmi til Sádí-Arabíu til aðstoða sig við þróun þar um skeið, en Íþróttastjóri tjáðist ekki vera gerður fyrir 50 stiga hita loftslagið og afþakkaði það, en hann bauðst til þess að aðstoða Christos og Sádí-Arabíu í fjarfyrirkomulagi við þróun og uppsetningu skorskráningarkerfa og annað sem þyrfti í Sádí-Arabíu s.s. í aðdraganda Saudi Games (Ólympíuleika fyrirkomulag sem verið er að koma af stað sem fjölíþrótta landsmóti þar í landi)

Christos hafði aldrei upplifað grasrótarstarfið sem fer fram á Íslandi til dæmis í Bogfimisetrinu, þar sem þjálfaranámskeiðið var haldið, og taldi það mögulega vera einsdæmi á heimsvísu. Hann bað um leyfi til þess að nota Ísland sem fordæmi og sniðmát fyrir Grikkland og aðrar þjóðir í grasrótarstarfi þar sem hann vinnur við uppbyggingu og þróun. Hann lýsti einnig yfir miklum áhuga á því að fá að taka þátt í áframhaldandi þróun á Íslandi og óskaði eftir því að BFSÍ hefði samband við hann ef að fullt starf opnaðist innan BFSÍ ef áhugi væri fyrir að fá hann til starfa.

Meirihluti þátttakenda námskeiðsins voru konur og aldur þátttakenda var víður frá fjórtán ára til yfir sextugt. Yngsti einstaklingur sem vitað er til að setið hafi og náð alþjóðlegum þjálfararéttindum innan World Archery er Þórdís Unnur Bjarkadóttir aðeins 14 ára gömul. WA voru með efasemdir um mögulegt getustig svo ungs einstaklings þar sem þroskastig einstaklinga er mjög mismunandi á yngri aldri, en WA lagði endanlega matið í hendur prófdómarana um hvort að þeir vildu taka þá yngri einstaklinga inn á námskeið sem er almennt miðað á fullorðna einstaklinga með töluverða reynslu af íþróttinni. Þórdís hefur verið að leiðbeina á námskeiðum fyrir yngstu aldurshópa hjá Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi undir handleiðslu reyndra þjálfara og vann einnig Norðurlandameistaratitil í U16 flokki fyrir um mánuði síðan í Finnlandi og var því talin ágætlega reyndur keppandi og leiðbeinandi. Þórdís var upprunalega á biðlista sem varamaður og ekki áætluð til þátttöku á námskeiðinu að hluta til vegna aldurs, en var tekin inn ásamt nokkrum öðrum yngri kandidötum með skömmum fyrirvara þar sem nokkrir þátttakendur aflýstu sinni þátttöku eða luku ekki þeim verkefnum/menntun sem sitja þurfti fyrir upphaf námskeiðsins.

Þó að þátttakendur námskeiðsins séu komnir með mat heimssambandsins til þess að sinna þjálfun í bogfimi alþjóðlega (þau teljast gild í fjölmörgum löndum) eru þau ekki að fullu gild á Íslandi fyrr en þátttakendur hafa lokið ÍSÍ þjálfarastigi 1 samkvæmt viðmiðum ÍSÍ sem BFSÍ starfar eftir. Þórdís þarf því að bíða með að teljast „formlega“ þjálfari á Íslandi þar til hún nær 16 ára aldri og lýkur þjálfarastigi 1 hjá ÍSÍ, en mun þó en geta leiðbeint á námskeiðum félagsins síns undir handleiðslu þjálfara þar 😉

Áætlað er að halda þjálfaranámskeið World Archery stig 2 á Íslandi í fyrsta sinn snemma í ágúst árið 2023 og mældist 100% áhugi hjá þátttakendum að taka þátt í því og áframhaldandi þjálfaramenntun sem er mjög jákvætt fyrir reynslu þátttakenda af námskeiðinu, símenntun þjálfara og fyrir framtíð íþrótttarinnar á Íslandi. 8 aðrir þjálfarar sem hafa áður setið stig 1 þjálfaranámskeið lýstu einnig yfir áhuga á því að sitja stig 2 námskeið á næsta ári, það gæti því verið ansi þétt setið námskeið. BFSÍ mun sækjast eftir því að fá stuðning frá Ólympíusamhjálpinni fyrir það verkefni líka þar sem að engir stig 2 þjálfarar eru á Íslandi (utan Íþróttastjóra BFSÍ sem er stig 3).

Áætlað er að halda þjálfaranámskeið World Archery stig 1 á Íslandi aftur 2024 ef nægilegur fjöldi þátttakenda næst. Einnig er verið að íhuga ýmsar viðbætur við námskeiðin fyrir sérhæfingu þjálfara í ákveðnum íþróttagreinum og/eða keppnisgreinum á síðara stigi.