You are currently viewing Valgerður á leið á Technical Delegate námskeið haldið af Evrópusambandinu í Króatíu

Valgerður á leið á Technical Delegate námskeið haldið af Evrópusambandinu í Króatíu

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested (Vala) er á leið út á fyrsta Technical Delegate námskeið hjá Evrópusambandinu World Archery Europe. Námskeiðið er haldið í Porec í Króatíu 20-24 janúar og Vala er í fluginu út á þessari stundu (lendir 22:15 í Zagreb Króatíu)

WorldArchery Europe Technical Delegate (WAE TD) er tengiliður Evrópusambandsins við mótshaldara móta sambandsins s.s. Evrópuleika, Evrópumeistaramóta og Evrópubikarmóta. TD aðstoðar mótshaldara við að skipuleggja mótin og tryggir að allt sé til reiðu og rétt gert af mótshöldurum tengt skipulagi og haldi mótsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Evrópusambandið heldur slíkt námskeið, en upprunalega átti að halda það árið 2020 en því var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. Áður fyrr voru það stjórnarmenn í Evrópusambandinu eða alþjóðlegir dómarar sem tilnefndir voru í stöðu Technical Delegate stórmóta innan Evrópusambandsins. Hver þjóð sem er aðili að Evrópusambandinu má aðeins senda tvo aðila á námskeiðið.

Námskeiðið er haldið í tveim hlutum.

Fyrri hluti námskeiðsins fer yfir markbogfimi í heild sinni s.s. hald EM ungmenna og fullorðinna utandyra, Evrópubikarmót ungmenna og fullorðinna utandyra og Evrópumeistaramót innandyra, dómgæslu, skotstjóra o.fl.

Námskeiðin sameinast svo í hluta um úrslitabirtingu, fjölíþróttamót eins og Evrópuleika og undankeppnismót um þátttökurétt á Ólympíu- heims- og Evrópuleikum. Smáþjóðaleikar væru einnig hluti af því, en bogfimi er ekki hluti af þeim leikum sem stendur.

Seinni hluti námskeiðsins fer yfir aðrar íþróttagreinar s.s. víðavangs (field), veiði (3D), hlaupa (run) og mót fatlaðra.

Ástæða þess að námskeiðinu er skipt er af því að ákveðnir einstaklingar hafa reynslu eða áhuga á að sinna stöðu TD í ákveðnum íþróttagreinum innan bogfimi. BFSÍ ákvað að senda Valgerði á báða hluta námskeiðsins þar sem meðal markmiða BFSÍ er að halda stórmót á Íslandi í framtíðinni (s.s. EM innandyra) og að byggja upp nýjar íþróttagreinar á Íslandi s.s. víðavangs og hlaupabogfimi sem farið er yfir í seinni hluta námskeiðsins.

Valgerður er starfsmaður BFSÍ í 80% starfshlutfalli sem mun m.a. sjá um hald móta BFSÍ í framtíðinni og var ráðin í starfið í byrjun ársins. Reynsla og þekking sem Valgerður fær út úr námskeiðinu mun því koma sér vel fyrir BFSÍ í alla staði við að ná þeim markmiðum sem listuð eru upp í s.s. aðgerðaáætlun afreksstarfs BFSÍ hald stórmóta á Íslandi.

Til þess að fá mat sem TD hjá Evrópusambandinu þarf að standast próf. Hvort sem Valgerður nær prófinu eða ekki þá verður þetta ómetanleg reynsla og mun stuðla að betra skipulagi og uppbyggingu á móthaldi í íþróttinni innanlands og betri samskiptum og tengslaneti við Evrópusambandið.

Valgerður varð 20 ára í mánuðinum og hún er því einnig í góðri stöðu til þess að sækjast eftir að sitja námskeið hjá heimssambandinu fyrir World Archery Youth Judges WAYJ (alþjóða ungmenna dómara) í framtíðinni næst þegar slíkt er haldið. WAYJ dæma s.s. á HM ungmenna og Ólympíuleikum ungmenna en geta einnig tekið þátt í verkefnum fullorðinna (s.s. HM og Heimsbikarmót).

Aldursbilið á alþjóðaungmennadómurum er 18-30 ára og er partur af aðgerðum Heimssambandsins til að stuðla að þátttöku yngri dómara í alþjóðastarfi, 12 dómarar eru með WorldArchery Youth Judge réttindi í heiminum sem stendur.

 

80 dómarar að hámarki mega vera með WorldArchery Judge (WAJ) réttindi á sama tíma í heiminum, það var hækkað úr 70 í 80 á þessu ári. Margir þeirra eru komnir vel til ára og því sjaldan sem opnast möguleiki fyrir yngri dómara til þess að sækjast í slíkar stöður. Langur biðlisti er af dómurum sem hafa náð öllum prófum og viðmiðum fyrir alþjóðadómara World Archery (WAJ) en komast ekki að vegna fjöldatakmarkana.

Fjallað verður nánar um námskeiðið þegar því er lokið.