You are currently viewing Besti árangur Íslands í nokkrum greinum á Evrópubikarmótinu í Amsterdam

Besti árangur Íslands í nokkrum greinum á Evrópubikarmótinu í Amsterdam

Sex keppendur frá Íslandi kepptu á Evrópubikarmóti – EB (European Grand Prix – EGP) í meistaraflokki, með nokkuð góðu gengi. Mótið var haldið í Arnhem Niðurlöndum 21-26 júlí.

Í undankeppni einstaklinga á Evrópubikarmótinu voru Valgerður í sveigboga og Þórdís í trissuboga hæstar á lista einstaklinga frá Íslandi.

Þórdís sló U18 Íslandsmetið með 666 stig (metið var 663) og setti hæsta skor sem trissuboga kona hefur náð á Evrópubikarmóti í meistaraflokki til dags (var áður 642 stig) og jafnaði hæsta sæti í undankeppni sem Íslendingur hefur náð á EB (14 sæti).

Valgerður náði hæsta sæti sem sveigboga kona hefur náð í undankeppni Evrópubikarmóts til dags (31 sæti var áður 33 sæti) og það var þrátt fyrir að hafa skotið eitt M. Þannig að eitthvað meira til í þeim tanki fyrir framtíðina.

Í liða var Ísland í 4 sæti í trissuboga liða og 8 sæti í sveigboga liða. Í báðum tilfellum hæsta sæti sem lið hafa náð í sínum keppnisgreinum á Evrópubikarmóti og sveigboga stelpurnar slóu landsliðsmetið. Þannig að undankeppni gekk nokkuð vel hjá okkar stelpum.

Í útsláttarkeppni einstaklinga kom aftur upp að Íslendingar mættust oftar en einu sinni í fyrstu útsláttarleikjum mótsins. Þar sem aðeins einn getur sigrað og haldið áfram í keppninni var ljóst að einhver myndi vera slegin út í fyrstu leikjum. Það er hægt að sjá það sem kost, 100% líkur á því að einn Íslenskur keppandi haldi áfram, eða sem ókost að báðir geti ekki unnið sína leiki og haldið áfram í keppni. Þetta er almennt sjaldgæft, en virðist vera furðulegt þema ársins þar sem að Íslendingur VS Íslendingur snemma í útsláttarleikjum hefur komið upp í flestum landsliðsverkefnum ársins, eins merkilegt og það er.

Marín náði hæsta lokasæti í einstaklingskeppni sem Íslendingur hefur náð á Evrópubikarmeistaramóti í sveigboga meistaraflokki og endaði í 9 sæti. Besta niðurstaða hingað til á EB var 17 sæti í sveigboga kvenna (fyrst Astrid 2017 og 33 sæti í sveigboga karla (fyrst Gummi 2017).

Eowyn náði hæsta lokasæti í einstaklingskeppni sem Íslendingur hefur náð á Evrópubikarmeistaramóti í trissuboga meistaraflokki og endaði í 7 sæti. Besta niðurstaða hingað til var 9 sæti í trissuboga kvenna (fyrst Ewa 2017) og 9 sæti í trissuboga karla (fyrst Guðjón 2017).

Í útsláttarkeppni liða enduðu sveigboga stelpurnar okkar í 8 sæti eftir að vera slegnar út af Þýskalandi í 8 liða úrslitum 6-0.

Trissuboga stelpurnar okkar kepptu um bronsið í trissuboga kvenna liðakeppni gegn Hollandi eftir að tapa fyrir Þýskalandi í undanúrslitum 230-215. Hollendingar unnu leikinn 228-213

Lokaniðurstöður Íslands á Evrópubikarmótinu:

Sveigboga kvenna

  • 9 sæti einstaklingskeppni Marín Aníta Hilmarsdóttir BFB
    • (hæsta sæti sem Íslendingur hefur náð á Evrópubikarmóti í meistaraflokki)
  • 33 sæti einstaklingskeppni Valgerður E. Hjaltested BFB
  • 33 sæti einstaklingskeppni Astrid Daxböck BFB
  • 8 sæti Sveigboga kvenna lið Íslands
    • (hæsta sæti sem sveigboga lið hefur náð á Evrópubikarmóti í meistaraflokki til dags)
    • Liðsmenn:
      Marín Aníta Hilmarsdóttir
    • Valgerður E. Hjaltested
    • Astrid Daxböck

Trissuboga kvenna

  • 7 sæti einstaklingskeppni Eowyn Mamalias BFHH
    • (hæsta sæti sem Íslendingur hefur náð á Evrópubikarmóti í meistaraflokki)
  • 17 sæti einstaklingskeppni Anna María Alfreðsdóttir ÍFA
  • 17 sæti einstaklingskeppni Þórdís Unnur Bjarkadóttir BFB
    • (náði hæsta skor og sæti sem Íslendingur hefur náð í undankeppni í sinni grein)
  • 4 sæti Trissuboga kvenna lið Íslands
    • (hæsta sæti trissuboga lið hefur náð á Evrópubikarmóti í meistaraflokki til dags)
    • Liðsmenn:
    • Eowyn Mamalias
    • Anna María Alfreðsdóttir
    • Þórdís Unnur Bjarkadóttir

Íslandsmet sem slegin voru á mótinu:

  1. Íslandsmet – Þórdís Unnur Bjarkadóttir BFB – trissuboga kvenna undankeppni U18 – 666 stig (Metið var áður 663 stig)
  2. Landsliðsmet – Sveigboga kvenna liðakeppni – 1579 stig (metið var áður 1549 stig)
    • Marín Aníta Hilmarsdóttir
    • Valgerður E. Hjaltested
    • Astrid Daxböck

Almennt var þokkalega gott veður á mótinu, þrátt fyrir að vindur og skúrir hafi reglubundið heimsótt keppendur, sérstaklega í undankeppni.

Mótið var „girls trip“ þar sem að allir þátttakendur Íslands á Evrópubikarmótinu voru konur og engir karlar að keppa fyrir Ísland að þessu sinni. Svo sem ekki óvenjulegt að konur séu í stórum meirihluta í landsliðsverkefnum þar sem að stelpurnar okkar eru almennt að ná hærri árangri en strákarnir alþjóðlega, en mjög sjaldgæft að ferðin sé öll stelpur.

Heilt á litið frábær frammistaða hjá okkar stelpum og góð framför hjá okkar fólki.

Ýmsar myndir af mótinu

Smugmug BFSÍ 

Smugmug WAE

Evrópubikarmótinu í Arnhem er ekki lokið, blönduð liðakeppni og gull úrslitaleikirnir eru eftir, en þar sem að engir karlar eru með í för og stelpurnar okkar eru ekki að keppa um gull þá hafa þær lokið keppni.

Næst á dagskrá hjá BFSÍ er Evrópubikarmót ungmenna EBU (European Youth Cup EYC) í Catez í Slóveníu 27 júlí – 3 ágúst, þar sem 13 keppendur fá Íslandi og 3 fylgdarmenn mæta til leiks. Valgerður og Þórdís munu fljúga beint frá EB í Amsterdam á EBU í Slóveníu og hitta hina 14 Íslendingana 27 júlí á meðan Astrid, Eowyn, Anna og Marín fljúga heim.

393 keppendur og 37 þjóðir eru skráðir á Evrópubikarmót ungmenna í Slóveníu. Sem er met þátttaka á nokkra vegu:

  • Stærsta Evrópubikarmóti ungmenna í sögu íþróttinar.
    • Næst stærsta var 314, 2017 í Króatíu
  • Stærsta ungmenna mót innan Evrópu í sögu íþróttarinnar.
    • Næst stærsta var EM ungmenna 2024 í Rúmeníu með 363 íþróttamenn
  • Stærsta heimsálfu ungmenna mót í sögu íþróttarinnar (eftir því sem best er vitað, ekki er haldið utan um samanburðar tölur fyrir það en mótin í Evrópu eru vafalaust stærst í þátttöku)

Það slær þó ekki heimsmetið í keppendafjölda, sem var á HM árið 2019 á Spáni með 584 keppendur. Vert er að geta að Evrópubikarmót ungmenna eru opin fyrir þjóðum utan Evrópu, þó að sjaldgæft sé að þjóðir utan Evrópu taki þátt á þeim. En að þessu sinni eru 3 þjóðir frá Afríku/Asíu sem eru að keppa á mótinu núna (að hluta þar sem þau fá ekki vegabréfsáritun til Canada fyrir HM seinna á árinu). En aðeins niðurstöður Evrópuþjóða gilda í Evrópubikarmótaröð ungmenna, sem eru sameiginlegar niðurstöður úr Evrópubikarmótum ársins.

En Evrópubikarmót ungmenna í Slóveníu núna er samt sögulegur viðburður í þátttöku og styrkleika, og fleiri keppendur eru á mótinu en á nokkru EM í sögu íþróttarinnar og einnig stærra mót en t.d. HM 2015.

Gengi Íslenskra ungmenna hefur verið mjög gott á Evrópubikarmótum ungmenna, og Ísland er í þriðja sæti stöðu Evrópubikarmótaraðar ungmenna 2025 eins og staðan er fyrir mótið í Slóveníu.

Því verður áhugavert að fylgjast með hvort að okkar fólk nær að halda þeirri stöðu og koma heim með verðlaun af einu stærsta ungmenna móti í sögu íþróttarinnar.