You are currently viewing Ísland í 1 sæti á heimslistamótinu í Slóveníu

Ísland í 1 sæti á heimslistamótinu í Slóveníu

Íslenska trissuboga kvenna liðið gerði sér lítið fyrir um helgina og vann öruggann sigur á Veronicas Cup World Ranking Event í Kamnik Slóveníu um helgina.

Ísland mætti Lúxemborg í gull úrslitaleiknum og stelpurnar okkar sigruðu mjög örugglega 225-219. Svo öruggur var leikurinn að á síðustu örinni þurftu stelpurnar okkar aðeins að hitta inn á skotskífuna til að taka sigurinn, en negldu örinni í enn aðra tíu og tóku 6 stiga öruggann sigur og gull heim á klakann. Slóvakía tók svo bronsið í trissuboga kvenna á mótinu.

Mögulegt er að sjá úrslitaleikina á beinu streymi Evrópusambandsins af viðburðinum hér:

Því miður vegna veður aðstæðna á mótinu þá byrjaði streymið af úrslitum mótsins seinna en áætlað var og því aðeins hægt að fylgjast með seinni hluta gull úrslita leiks Íslands og Lúxemborg sem var fyrsti leikur dagsins. Mikil rigning var á mótinu og vatn og rafmagn fer ekki alltaf vel saman sem orsakaði töfina á streyminu. En mótið var með blautustu í manna minnum.

Stelpurnar okkar sem unnu til verðlauna eru allar ungar að aldri, Þórdís Unnur Bjarkasdóttir 15 ára, Freyja Dís Benediktsdóttir 18 ára og Anna María Alfreðsdóttir 20 ára. Og því ljóst að Ísland mun setja sig hátt á sess í þessari keppnisgrein í framtíðinni á alþjóðavettvangi. Þar sem þær eru þegar að byrja að ná árangri í landsliðsverkefnum fullorðinna.

Íslensku gull verðlaunahafarnir á heimslistamótinu í Slóveníu. Frá vinstri: Anna María Alfreðsdóttir, Þórdís Unnur Bjarkadóttir og Freyja Dís Benediktsdóttir.

Íslenska trissuboga kvenna liðið er nú hæst Norðurlanda í 8 sæti á Evrópulista og 18 sæti á heimslista eftir mótið.

Ísland hefur nú unnið gullið í liðakeppni trissuboga kvenna þrisvar af síðustu fjórum Veronicas Cup World Ranking Event sem haldin hafa verið og við vonum að sú sigurröð haldi áfram í framtíðinni.

  • 2019 Gull
  • 2020 Aflýst vegna Covid
  • 2021 Ísland tók ekki þátt vegna Covid
  • 2022 Gull
  • 2023 Gull

Það munaði ekki miklu að Ísland kæmist einnig í gull eða brons úrslita leik í mixed team (blönduð liðakeppni semsagt hæsti kk og hæsta kvk frá hverri þjóð). En þar sló Slóvakía Ísland út í 8 liða úrslitum í jöfnum leik sem endaði 149-147. Íslenska liðið endaði því í 5 sæti þar.

Gengið var þó ekki eins gott í einstaklingskeppni að þessu sinni. 2022 tók Ísland ein einstaklingsverðlaun á mótinu og nokkrir komust í 8 manna úrslit, en allir okkar keppendur voru slegnir út í 16 manna úrslitum eða fyrr í keppninni að þessu sinni og hæsta niðurstaða einstaklings á mótinu var 9 sæti.

Veronicas Cup World Ranking Event er árlegt mót sem haldið er í Kamnik Slóveníu í samstarfi við Evrópska Bogfimisambandið. Að þessu sinni var keppnin sjálf 12-14 maí og sex keppendur frá Íslandi kepptu á mótinu. Samtals voru 291 þátttakendur á mótinu frá 85 þjóðum að þessu sinni. Sex keppendur voru frá Íslandi á mótinu.

Mótið er meðal þeirra styttri sem fyrir finnast í fjölda daga sem gerir mótið mjög hagkvæmt fyrir keppendur, en fórnin er í staðin að keppnisdagarnir verða mun lengri. Sumir keppendur þurftu að keppa 12 klst á sama degi án hlés.

Veðrið var einnig mjög krefjandi á þessu ári en það rigndi eins og hellt væri úr fötu meirihluta mótsins. Grasvöllurinn breyttist í drullupolla á sumum stöðum og enginn slapp við að vera vel blautur og drullugur sama hve vel þeir voru klæddir og þó að þeir notuðu regnhlífar eða hlífðarfatnað.

Mögulegt er að finna heildar úrslit allra keppenda og liða Íslands á mótinu á myndinni hér fyrir neðan:

Mögulegt er að finna fréttir um árangur hvers og eins keppanda á bogfimifréttavefnum archery.is

Myndir af mótinu er mögulegt að finna á smugmug BFSÍ 

Heildar úrslit mótsins er hægt að finna á ianseo.net alþjóðaskorskráningarkerfinu.