You are currently viewing Full endurgreiðsla fékkst fyrir nánast öllum útlögðum kostnaði eftir aflýsingu EM

Full endurgreiðsla fékkst fyrir nánast öllum útlögðum kostnaði eftir aflýsingu EM

Íþróttastjóri BFSÍ náði að fá endurgreiddann nánast allan kostnað sem var búið að leggja út vegna Evrópumeistaramótsins innandyra eftir að því var aflýst í febrúar. Heildarkostnaður verkefnisins var að nálgast 12.000.000.kr vegna þátttöku á mótinu, enda 34 þátttakendur að leggja för sína á mótið, sem eru fleiri þátttakendur í einu verkefni en í flestum hópíþrótta landsliðsverkefnum á Íslandi.

Öllum þátttakendum á vegum BFSÍ á mótinu var endurgreitt að fullu eða greiðslur þeirra voru færðar yfir á önnur landsliðsverkefni sem þeir eru áætlaðir til þátttöku á síðar á árinu.

Endanlega tap sem BFSÍ varð fyrir vegna aflýsingu EM var 513.218.kr sem var að mestu vegna þess að ekki var mögulegt að fá endurgreiddan kostnað vegna hótel gistingar í Kaupmannahöfn á leið út á EM og í minna mæli endurgreiðslu gjöld og gengis mismunur. Sem er ansi vel sloppið að fara úr mögulega 12 milljón krónu tapi í hálfa milljón.

BFSÍ vill þakka kærlega samstarfið við Tyrkneska bogfimisambandið, Turkish Airlines, Verdi travel, Guðnýu Ólafsdóttir og síðast en ekki síst Icelandair sem stóðu öll svo sannarlega við bakið á BFSÍ í þessum óvenjulegu aðstæðum. Síðasta endurgreiðsla tengt verkefninu var að ganga í gegn í síðastu viku.

EM var því miður aflýst vegna þjóðarsorgar í Tyrklandi eftir að jarðskjálfta hrina reið yfir landið sem byrjaði á jarðskjálfta upp á 7.8 á richter 6 febrúar. Jarðskjálfta hrinan er en í gangi með reglubundnum skjálftum upp á 4-6 á richter og hefur valdið samtals 15 milljarða króna tjóni og yfir 50.000 dauðsföllum til dags þar í landi.

Vara og veltusjóður BFSÍ er rétt um 5 milljónir og er hann til þess að jafna út ójafnt fjárflæði til sambandsins yfir árið og til þess að taka á óvæntun höggum á starf BFSÍ. En ljóst er í samhengi við þessar aðstæður sem komu upp að sá sjóður þarf að vera mun hærri. Ef ekki hefði gengið þetta vel hjá íþróttastjóra að fá endurgreiðslur á kostnaði vegna aflýsingu þessa verkefnis (sem stjórnarmaður í framkvæmdastjórn ÍSÍ lýsti sem hreint ótrúlegu afreki) hefði BFSÍ orðið fyrir tapi langt umfram það fé sem til er til að taka á slíkum höggum, og það tap hefði jafnvel færst yfir á þátttakendur í verkefninu.

Þó að þessar aðstæður séu gífurlega óvenjulegar og komi kannski bara upp einu sinni á öld, þá ef horft er til þess sem gengið hefur á í heiminum síðustu ár (s.s. Covid) er nauðsynlegt að BFSÍ birgi sig betur upp til að taka á rofum í starfi sem geta falið í sér kostnað á sambandið.  Stjórn BFSÍ mun vinna að því að reyna að hækka sjóðinn á næstu árum til þess að tryggja að slíkar aðstæður geti ekki sett rekstur sambandsins á hliðina.

Áhugvert er þó að geta að BFSÍ og þátttakendur BFSÍ eru vel tryggð í landsliðsverkefnum fyrir nánast öllu sem upp getur komið, nema aflýsingu mótsins sjálfs sem kom upp núna.