Evrópumeistaramótinu innandyra hefur verið frestað um 6 daga vegna hamfara sem standa yfir í suður Tyrkland tengt risa jarðskjálfta hrinu á svæðinu. BFSÍ var að vonast eftir sínum fyrstu verðlaunum á Evrópumeistaramóti, en þetta mun hafa mikil áhrif á 32 þátttakendur BFSÍ sem eru bókaðir á mótið og mun líklega hrista eitthvað upp í þátttöku og úrslitum mótsins. Starfsfólk BFSÍ er að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að áhrifin verði sem minnst og mögulegt verði að tefla fram og skipa þeim liðum sem upprunalega var áætlað, en breytingar á flug fyrirkomulag verður helsta fyrirstaðan sem stendur. Verið er að ræða við Icelandair og Turkish Airlines í gegnum ferðaskrifstofuna Verdi Travel (nýlega breytt úr VITA) tengt breytingunni.
Harmleikurinn er gífurlegur í Tyrklandi, dauðsföll eru nú komin yfir 9.000 manns og jarðskjálftahrinan er en í gangi með mörgum jarðskjálftum yfir 4.0 á richter skala á hverjum sólarhring en sá stærsti sem reið yfir var 7.8 á richter. Áætlað er að heildar dauðsföll gætu farið umfram 25.000 manns og þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Tyrklandi. Jarðskjálftarnir eru flestir í suður Tyrklandi en EM á að halda í Samsun sem er í norður Tyrklandi sem slapp vel í þetta sinn. BFSÍ sendir sínar samúðarkveðjur til Tyrkneska bogfimisambandsins og mótshaldara.
Líklegt er að fresta þurfi Íslandsmeistaramótinu innanhúss tengt frestun EM, þar sem EM innandyra og Íslandsmeistaramót innandyra munu þá skarast á dögum, ekkert starfsfólk á Íslandi til þess að halda mótið og allt okkar besta fólk erlendis að keppa. Slík frestun væri í samræmi við reglugerðir BFSÍ um að tekið sé tillit til alþjóðlegrar mótadagskrár svo að Íslandsmót stangist ekki á við möguleika Íslands að ná árangri á erlendum vettvangi.
2.1.4. Taka þarf tillit til móta dagskrár WA, WAE og WAN þegar dagsetningar eru valdar fyrir
Íslandsmót BFSÍ Svo að þær dagsetningar stangist sem minnst á við mikilvæg erlend mót
og möguleika Íslands að ná árangri á erlendum vettvangi.
En slík frestun Íslandsmeistaramótsins verður tilkynnt síðar þegar að upplýsingar eru staðfestar líklega síðar í dag og búið að ákveða hvaða aðlaganir þarf að gera í kjölfarið.