Bikarmótaröð BFSÍ 2022-2023 lauk á laugardaginn síðastliðinn á síðasta bikarmóti BFSÍ á tímabilinu. Bikarmeistarar BFSÍ árið 2023 eru:
- Marín Aníta Hilmarsdóttir úr BF Boganum í Kópavogi er bikarmeistari BFSÍ í sveigbogaflokki
- Alfreð Birgisson úr ÍF Akur á Akureyri er bikarmeistari BFSÍ í trissubogaflokki
- Guðbjörg Reynisdóttir úr BF Hróa Hetti í Hafnarfirði er bikarmeistari BFSÍ í berbogaflokki
Ásamt titlinum fá allir bikarmeistarar BFSÍ 50.000.kr í verðlaunafé og þeim stendur til boða að fá þær greiddar út eða að nota þær upp í kostnað sinn við þátttöku í innlendum mótum eða landsliðsverkefna. Konur sýndu hörku og sigruðu bardaga kynjana árið 2023 með tvo af þrem titlum. En um langt skeið var útlit fyrir að konur myndu taka alla þrjá titlana 2023. Bikarmótaröð BFSÍ er kynlaus (keppni óháð kyni/unisex) og er opin öllum iðkendum innan aðildarfélaga BFSÍ.
Niðurstöður Bikarmóta BFSÍ eru einnig tengd við World Series Open innandyra (IWSO) mótaröð alþjóðabogfimisambandsins (World Archery – WA) og tengdan heimslista. Niðurstöður úr bikarmóti BFSÍ sem haldið var um helgina eru ekki komnar inn en sem komið er, en staða Bikarmeistara BFSÍ á World Series Open heimslista er ótrúleg:
- Guðbjörg Reynisdóttir er efst á berboga kvenna World Series Open heimslistanum
- Marín Aníta Hilmarsdóttir er í 5 sæti sveigboga kvenna í opnum flokki (fullorðinna) og í 3 sæti U21 sveigboga kvenna.
- Alfreð Birgisson er í 3 sæti trissuboga karla sem stendur
World Series Open tímabilið hófst 1 nóvember 2022 og er því ekki en lokið. Því gæti okkar fólk lækkað á lista eftir að öðrum mótum í mótaröðinni á heimsvísu lýkur og listinn verður uppfærður í síðasta sinn. Lokaniðurstöður World Series Open U21 ranking munu liggja fyrir stuttu eftir að þeim hluta lýkur 10 janúar, en í fullorðinna munu lokaniðurstöður líklega ekki koma út fyrr en fyrsta lagi 5 febrúar. Frábær árangur hjá okkar fólki á tímabilinu og útlit fyrir að við munum eiga nokkra í top 10 á World Series Open heimslista í mismunandi keppnisgreinum 💪
World Series Open innandyra mótaröð (IWSO) alþjóðabogfimisambandsins samanstendur af mörgum tugum móta um allan heim sem mæta kröfum og stöðlum WA til aðildar að mótaröðinni og sækja um aðild að henni. Starfsfólk BFSÍ hefur verið eitt það iðnasta við að skipuleggja slík mót og tengja þau við mótaröð heimssambandsins. Stig á World Series Open heimslistanum eru gefin fyrir þrjár bestu niðurstöður keppenda úr undankeppni móta sem tengd eru mótaröðinni, hvar sem þau eru haldin í heiminum. Open hluti World Series mótaraðarinnar var fyrst haldin 2020 í kórónuveirufaraldrinum, en þar sem þátttaka og áhugi var mikill ákvað WA að halda áfram þróun slíkrar mótaraðar eftir faraldurinn.
Sigurvegarar á bikarmóti BFSÍ um helgina, sem var einnig síðasta bikarmót BFSÍ á 2022-2023 tímabilinu og síðasta Íslenska mót sem er hluti af IWSO, voru:
- Guðbjörg Reynisdóttir sigraði Izaar Arnar Þorsteinsson 6-2 í gull úrslita leik berboga.
- Valgerður E. Hjaltested, kom gífurlega sterk inn og sigraði Marín Anítu Hilmarsdóttir 6-0 í gull úrslitum mótsins. Þetta er í fyrsta skipti sem Valgerður vinnur Marín í útsláttarkeppni, en þær eru okkar sterkustu konur í sveigboga og keppa því reglulega um gullin á mótum.
- Alfreð Birgisson sigraði Sámuel Petersen í gull úrslita leik trissuboga 144-142. Sámuel er í heimsókn hér á landi og skráði sig til keppni á mótinu.
7 Íslandsmet voru slegin á bikarmótinu á laugardaginn. Þau sem ber helst að nefna eru að Guðbjörg Reynisdóttir sló Íslandsmetið í berboga kvenna með skorið 490 og Frost Ás Þórðarsson setti fyrsta Íslandsmetið í þriðju kynskráningu í þjóðskrá (kynsegin/annað) með skorið 264, eftir því sem best er vitað er það fyrsta Íslandsmet sem veitt er fyrir þriðju kynskráningu innan íþróttahreyfingarinnar.
Verðlaunagripir fyrir bogfimifólk BFSÍ árið 2023 voru einnig afhentir á mótinu.
Við óskum öllum til hamingju með árangurinn á liðnu ári, bikarmóti BFSÍ um helgina og í bikarmótaröð BFSÍ 2022-2023
Fleiri myndir af bikarmótinu í janúar ásamt helstu bogfimiviðburðum BFSÍ, erlendum og innlendum, er hægt að finna á smugmug myndasíðu BFSÍ hér https://bogfimi.smugmug.com/
You must be logged in to post a comment.