You are currently viewing Konur yfirtaka kynjahlutfall landsdómara BFSÍ. Þrír landsdómarar bætast við 2022 og allt ungar konur.

Konur yfirtaka kynjahlutfall landsdómara BFSÍ. Þrír landsdómarar bætast við 2022 og allt ungar konur.

Þrjár ungar konur tóku dómaraprófið í desember 2021. Guðbjörg Reynisdóttir (21 árs), Freyja Dís Benediktsdóttir (16 ára) og Marín Aníta Hilmarsdóttir (17 ára).

Guðbjörg og Freyja náðu báðar yfir 80% í einkunn bæði í heild og á skorkafla skriflega hluta prófsins og fengu dómararéttindi til ársins 2025 (með fyrirvara um þá endurmenntun og virkni sem gerð er krafa um á tímabilinu). Marín var innan skekkjumarka á því að ná dómaraprófinu og fékk dómararéttindi til eins árs með fyrirvara um að endurtaka dómaraprófið aftur fyrri hluta árs 2022. Verklegu mati þeirra allra er ólokið en það mun fara fram á mótum BFSÍ á árinu.

56% landsdómara með virk dómararéttindi eru nú konur. Kynjahlutfall dómara hefur almennt verið nokkuð jafnt en karlar hafa alltaf haft yfirhöndina í fjölda. Þetta er fyrsta sinn sem fleiri konur eru með virk landsdómararéttindi en karlar. (frá því að byrjað var að halda utan um gögn um fjölda og virkni dómara með virk réttindi 2018)

Það að aldur dómara á Íslandi er sífellt að yngjast er góð þróun, þar sem aldur dómara í heiminum er almennt mjög hár og bæði heims- og Evrópusambandið stuðla reglubundið að þróun yngri dómara og lækka hámarks aldur dómara innan sinna raða. Eitt slíkt program er World Archery Youth Judges (18-30 ára) sem dæma á mótum ungmenna innan WA s.s. Ólympíuleikum og HM ungmenna. Allar þessar stelpur hafa því tækifæri til þess að sækjast eftir því að verða World Archery Youth Judges í framtíðinni ef þær vilja fara þann veg og halda sinni þróun í dómgæslu áfram.

Freyja Dís er einnig yngsti einstaklingur sem náð hefur landsdómaraprófi. Yngsti aldur fyrir landsdómara á Íslandi er 16 ára, þar sem viðmið fyrir World Youth Judges er lágmark 18 ára með tveggja ára starfsreynslu.