You are currently viewing Ari/Marín Ragnar/Þórdís Baldur/Heba Haukur/Tinna Bogfimifólk ársins 2025

Ari/Marín Ragnar/Þórdís Baldur/Heba Haukur/Tinna Bogfimifólk ársins 2025

BFSÍ veitir árlega titla til þeirra sem hafa staðið sig best í sínum keppnisgreinum. Hér er listi yfir þá sem hrepptu titlana 2025 ásamt stuttum upplýsingum um hvern og einn. Nánari fréttir verða birtar á archery.is síðar um hvern og einn íþróttamann.

Sveigbogamaður árins: Ari Emin Björk – ÍF Akur Akureyri

Ari einbeittur á NM ungmenna

Ari Björk átti flott ár. Ari vann alla sex Íslandsmeistaratitla U21 á árinu (einstaklings karla, einstaklings unisex og félagsliða), ásamt því að taka sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki. Ari vann einnig silfur verðlaun á öllum öðrum ÍM í meistaraflokki á árinu og tók brons í bæði Bikarmótaröð BFSÍ inni og út. Í alþjóðlegri keppni á árinu sýndi Ari m.a. flotta niðurstöðu á NM ungmenna þar sem hann endaði í 7 sæti, var í 33 sæti á þátttökumest ungmenna móti í sögu íþróttarinnar á Evrópubikarmóti U21 í Búlgaría og endaði í 17 sæti á EM U21.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ari hreppir titilinn sveigbogamaður ársins af BFSÍ. Ari er 20 ára gamall.

Sveigbogakona ársins: Marín Aníta Hilmarsdóttir – BF Boginn Kópavogur

Marín að keppa í Kóreu

Marín Aníta átti enn annað frábært ár. Íslandsmeistari innandyra, Íslandsmeistari utandyra og Bikarmeistari BFSÍ allt í meistaraflokki einstaklingskeppni. Ásamt því að vinna bæði Íslandsmeistaratitilinn innandyra og utandyra í félagsliðakeppni. Marín var fyrsti Íslendingur í sögu íþróttarinnar til þess að koma í topp 16 úrslit á Evrópubikarmóti í sveigboga kvenna, þar sem hún endaði í 9 sæti í einstaklingskeppni, og endaði einnig í 8 sæti í liðakeppni. Marín endaði einnig í 17 sæti í einstaklingskeppni og 5 sæti í liðakeppni á Evrópumeistaramótinu í Tyrklandi.

Þetta er í sjötta árið í röð sem Marín er valin sveigbogakona ársins af BFSÍ, en hún hefur hlotið viðurkenninguna frá því að hún var veitt fyrst árið 2020. Það setur einnig lengstu sigurröð slíkra viðurkenninga í íþróttinni. Marín er 21 árs gömul.

Trissubogamaður ársins: Ragnar Smári Jónasson – BF Boginn Kópavogur

Ragnar í brons úrslitaleiknum á EM í víðavangsbogfimi

Ragnar Smári var aldeilis upptekinn á árinu að safna sér verðlaunum og árangri alþjóðlega með 6 verðlaun í alþjóðlegum mótum á árinu, 3 af þeim á EM! Ragnar byrjaði árið á því að taka silfurverðlaun á EM í berboga U21 liðakeppni karla, keppti um brons á EM í trissuboga U21 liðakeppni karla á EM og var í 7 sæti í trissuboga U21 karla einstaklingskeppni á EM, sem er hæsta sæti sem Íslendingur hefur náð í keppnisgreininni. Ragnar tók silfur í einstaklings og liðakeppni á NM ungmenna. Vann brons í liðakeppni á Evrópubikarmóti U21. Endaði í 9 sæti í Evrópubikarmótaröð U21. Kom Íslandi í fyrsta sinn í 16 liða úrslit á HM ungmenna. Sló Íslandsmetið í meistaraflokki karla, ásamt því að slá 16 önnur Íslandsmet í félagsliðakeppni, landsliðskeppni í meistaraflokki og U21 flokki. Ragnar varð Bikarmeistari BFSÍ, Íslandsmeistari karla innandyra ásamt því að vinna 7 aðra Íslandsmeistaratitla í félagsliðakeppni og einstaklingskeppni í meistaraflokki og U21 flokki. Ragnar lauk svo tímabilinu á því að taka brons verðlaun í einstaklingskeppni og brons í liðakeppni á EM U21 í víðavangsbogfimi í Póllandi, í báðum tilfellum í fyrsta sinn í sögu íþróttarinnar sem Íslendingur vinnur til verðlaun á EM U21 í víðavangsbogfimi. Í nánast öllum tilfellum var árangur Ragnars besti árangur sem Ísland/Íslendingur hefur náð í sögu íþróttinnar. Við komum í raun ekki fyrir öllum afrekum Ragnars í stutta samantekt, svo gott var árið 2025 hjá honum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ragnar Smári hreppir viðurkenninguna Trissubogamaður ársins. Ragnar er 19 ára gamall, hann er næst yngsti til þess að hreppa viðurkenninguna.

Trissubogakona ársins: Þórdís Unnur Bjarkadóttir – BF Boginn Kópavogur

Þórdís í úrslitum á Evrópubikarmóti ungmenna í Búlgaríu. Hún vann verðlaun í öllu. Silfur í einstaklings, silfur í liða og brons í blandaðri liðakeppni

Þórdís Unnur átti hreint út glæsilegt ár 2025. Fimm verðlaun á alþjóðlegum mótum og fjórum sinnum í fjórða sæti eftir brons bardaga. Heimsmet og Evrópumet í liðaútsláttarleik trissuboga kvenna U18. 18 Íslandsmet í einstaklings og liðakeppni í meistaraflokki, U21 flokki og U18 flokki. Norðurlandameistari U18. Íslandsmeistari kvenna innandyra og utandyra í meistaraflokki, ásamt því að vinna 11 aðra Íslandsmeistaratitla í einstaklings og félagsliðakeppni í meistaraflokki, U21 flokki og U18 flokki. Varð fyrsti Íslendingur til þess að vinna til verðlauna í einstaklingskeppni á Evrópubikarmóti í trissuboga, þar sem hún tók silfur í einstaklingskeppni, silfur í liðakeppni kvenna og brons í blandaðri liðakeppni. Hún var meðal 4 efstu í Evrópubikarmótaröð U18 sem gerir hana eina af efnilegustu stelpum í Evrópu. Náði hæsta sæti á EM sem Íslendingur hefur náð í sögu íþróttarinnar (2 sæti). Og svo mætti lengi telja tilfellin á árinu þar sem Þórdís náði besta árangri í sögu Íslands eða öðrum frábærum árangri. Það er of mikið af árangri til að fjalla um að mögulegt sé að koma því öllu fyrir í stutta samantekt. En vafalaust ein af sterkustu frammistöðum sem Íslendingur hefur nokkurtíma sýnt í sögu íþróttarinnar.

Þetta er í annað árið í röð sem Þórdís er valin trissubogakona ársins. Þórdís er aðeins 17 ára gömul.

Berbogamaður ársins: Baldur Freyr Árnason – BF Boginn Kópavogur

Baldur í gull úrslitaleik Evrópubikarmóts U21 í Búlgaríu

Baldur Freyr átti frábært ár. Hann vann silfur verðlaun á EM U21 á árinu í einstaklingskeppni, aðeins önnur slík verðlaun sem Ísland hefur unnið til á EM í sögu íþróttinnar. Baldur vann einnig silfur í liðakeppni á EM U21 eftir jafntefli og tap í bráðabana gegn Tyrklandi á heimavelli. Baldur vann einnig bæði gullin í einstaklingskeppni og liðakeppni á Evrópubikarmóti ungmenna í Búlgaríu, í báðum tilfellum fyrstu gull verðlaun sem Ísland hefur unnið til á Evrópubikarmótum í sögu íþróttarinnar. Í Evrópubikarmótaröð ungmenna vann Baldur til fyrstu verðlauna Íslands í sögu íþróttarinnar með silfur. Baldur sló Íslandsmetin í öllum aldursflokkum á árinu (meistaraflokki, U21 og U18), ásamt því að slá heimsmet og Evrópumet í liðakeppni og var á forsíðu Evrópska Bogfimisambandsins um skeið. Allt þetta þrátt fyrir að Baldur hafi tekið sér hlé frá keppni og æfingum meirihluta ársins þar sem hann fór í skiptinám til Ástralíu snemma sumars og snéri aftur til Íslands í haust. Án vafa ein sterkasta frammistaða Íslendings í sögu íþróttinnar hingað til.

Þetta er í annað árið í röð sem Baldur er valinn berbogamaður ársins. Baldur er aðeins 17 ára gamall.

Berbogakona ársins: Heba Róbertsdóttir – BF Boginn Kópavogur

Heba í gull úrslita leik Evrópubikarmóts U21 í Búlgaríu

Heba Róberts átti frábært ár í alþjóðlegri keppni. Heba varð fyrsti Evrópubikarmeistari ungmenna í sögu íþróttarinnar þegar hún vann Evrópbikarmótaröðina. Heba vann einnig bæði gullin í einstaklingskeppni og liðakeppni á Evrópubikarmóti U21 í Búlgaríu, í báðum tilfellum fyrstu gull verðlaun sem Ísland hefur unnið til á Evrópubikarmóti í sögu íþróttarinnar. Heba bætti svo við brons verðlaunum í einstaklings og liðakeppni á síðara EBU á árinu í Slóveníu. Heba vann í byrjun árs önnur einstaklings verðlaun kvenna í sögu íþróttarinnar á EM U21 þar sem hún tók brons. Heba setti einnig heimsmet og Evrópumet í berboga U21 blandaðri liðakeppni á EBU. Það er fátt betra sem Heba hefði getað gert í alþjóðlegri keppni á árinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Heba er valin berbogakona ársins. Heba er 20 ára gömul.

Langbogamaður ársins: Haukur Hallsteinsson – Langbogafélagið Freyja Reykjavík

Haukur einbeittur á ÍM og ætlar sér að taka gullið

Haukur sló öll Íslandsmetin í meistaraflokki á árinu, bæði utandyra og innandyra, í einstaklingskeppni og félagsliðakeppni. Ásamt því vann Haukur báða Íslandsmeistaratitla félagsliða, Bikarmeistari utandyra og Íslandsmeistari karla utandyra. Það var ekkert stórmót í meistaraflokki á Íslandi þar sem Haukur tók ekki gull eða silfur á árinu.

Haukur er fyrstur til þess að hljóta viðurkenningu sem Langbogamaður ársins, enda fyrsta árið sem sú viðurkenning er veitt. Haukur er 34 ára gamall.

Langbogakona ársins: Tinna Guðbjartsdóttir – Langbogafélagið Freyja Reykjavík

Tinna mundar bogann á Íslandsbikarmóti

Tinna Guðbjarts átti flott ár í innlendri keppni og sló einstaklings Íslandsmetið í meistaraflokki innandyra og utandyra, vann Íslandsmeistaratitil kvenna utandyra og sló tvö félagsliðamet og tók titilinn með félagsliði sínu á ÍM utandyra.

Tinna er fyrst til þess að hljóta viðurkenningu sem Langbogakona ársins, enda fyrsta árið sem sú viðurkenning er veitt. Tinna er 41 árs gömul.

Áhugaverðir punktar um bogfimifólk ársins 2025

  • 5 af 8 eru að fá viðurkenninguna í fyrsta sinn.
  • 2 af 8 eru að fá viðurkenninguna í annað sinn
  • 1 af 8
  • 6 af 8 eru 21 árs eða yngri, sem gefur til kynna að yngri kynslóðin sé að miklu búin að taka yfir íþróttina og leiðir hana nú. Sem er svo sem auðsjáanlegt miðað við árangur okkar ungmenna á árinu, sem eru öll að vinna til verðlauna eða ná sögulegum árangri. Einu tveir sem eru yfir 21 árs eru í langboga.

Fyrsta sinn Langbogafólk ársins:

Árið 2025 var fyrsta ár sem veittar voru viðurkenningar fyrir Langbogamann og Langbogakonu ársins. Þar sem að langboga/hefðbundnum var bætt við sem formlegri keppnisgrein á Íslandsmeistaramótum frá og með árinu 2025. Haukur og Tinna úr Langbogafélaginu Freyju voru þau fyrstu til þess að hreppa þær viðurkenningar.

Tvær langar sigurraðir brotnar, en ein neitar að falla:

Heba Róbertsdóttir braut 5 ára sigurröð Guðbjargar Reynisdóttur um titilinn Berbogakona ársins. Guðbjörg hefur hlotið viðurkenninguna öll skipti frá því að viðurkenningin var veitt fyrst árið 2020. En Heba náði að stinga sér framfyrir þetta árið með mjög sterkri frammistöð á alþjóðlegum mótum með 4,761 stig fyrir Hebu og 4,341 stig fyrir Guðbjörgu í útreikningi fyrir árið 2025. Sem setur þær báðar samt sem áður í topp 3 í stigum kvenna óháð keppnisgrein.

Marín Aníta Hilmarsdóttir á nú lengstu sigurröð þessara viðurkenninga 6 ár í röð. En Guðbjörg Reynisdóttir var jöfn Marín upp að þessu ári. Þar sem þær höfðu báðar fengið viðurkenninguna í sínum greinum öll ár frá því að hún var veitt fyrst 2020.

Ragnar Smári Jónasson braut 3 ára sigurröð Alfreðs Birgissonar um titilinn Trissubogamaður ársins. Alfreð hefur haldið öruggri forystu í útreikningi stiga 2022-2024, en Ragnar rétt svo stakk sér framfyrir í ár með 4,833 stig á móti 4,587 stig frá Alfreð. Sem setur þá félaga samt sem áður báða hlið við hlið í topp 3 á stigum í karla óháð keppnisgrein. Alfreð var einnig síðasti af „the old guard“, sem stóð í hárinu á yngri kynslóðinni sem var búin að ná öllum öðrum titlum en Alfreðs.

Annað

Íþróttafólk ársins óháð keppnisgrein verður tilkynnt í fréttagrein síðar. En þar sem að þetta er efsta fólkið í hverri keppnisgrein, þá eru miklar líkur á því að einhver af þeim verði tilnefnd af BFSÍ sem íþróttamaður og íþróttakona ársins til ÍSÍ.

BFSÍ Bogfimifólk ársins og Íþróttafólk ársins er eins og alltaf byggt á hlutlausum útreikningi á gengi keppenda á Íslenskum stórmótum og í landsliðsverkefnum í samræmi við reglugerð BFSÍ um Íþróttafólk ársins.

Verðlaunagripurinn fyrir bogfimifólk ársins verður veittur á úrslitamóti Bikarmótaraðar BFSÍ í janúar.

BFSÍ óskar öllum þeim sem hrepptu titlana til hamningju með árangurinn 🏹🎯🎯🎯