Þrír Íslendingar kepptu á World Archery Youth Championships (Heimsmeistaramót ungmenna – HMU) í Winnipeg Kanada 18-24 ágúst.
Í rosalega stuttu máli var gengi Íslands á mótinu flott, helstu niðurstöður Íslands voru að lið komst í 16 liða úrslit og endaði í 9 sæti á HM og hæsti í einstaklingakeppni í 17 sæti.
Gengi Íslands var sérstaklega gott í compound U21 mixed team (trissuboga blandaðri liðakeppni). Ísland komst áfram eftir undankeppni liða í 19 sæti í undankeppni, hæst áður var 25 sæti 2021 sem Ísland hafði náð en aðeins 24 lið halda áfram eftir undankeppni. Þetta var því í fyrsta sinn á HM ungmenna sem Íslenskt lið kemst áfram eftir undankeppni.
Íslenska liðið mætti heimaþjóðinni Kanada á heimavelli í 24 liða útsláttarleikjum. Þar byrjaði Ísland á ótrúlegri fullkominni umferð 40 stig!! á móti 34 stigum frá Kanada. Til að bæta við hvað það er rosalegt þá gerði Ísland það í mjög erfiðum veður aðstæðum þar sem að mikill og breytilegur vindur var á vellinum. Þulur mótsins sem þylur upp yfir öll 120 mörk vallarins fyrir áhorfendur og aðra leikmenn trúði því ekki sjálfur þegar hann var að fara yfir skorin hjá liðunum á vellinum í 24 liða útsláttum, hann benti sérstaklega á þetta og það var klappað á vellinum. Vert er að geta að þetta var eina fullkomna umferðinni hjá nokkurri þjóð í 24 liða útsláttum, 16 liða úrslitum, 8 liða úrslitum og það var ekki fyrr en í undanúrslitum þegar veðrið hafði róast sem að Mexíkó og Bandaríkin náðu einni fullkominni umferð hvor.
En aftur að leiknum, staðan 40-34 og Ísland með 6 stiga forskot. Næsta umferð var þó ekki eins góð (enda mikill vindur) og Kanada náði á klóra 4 stig til baka 34-38 og staðan 74-72. Kanada og Ísland jöfnuðu svo þriðju umferð 36-36 þrátt fyrir að vespa hafi stungið Freyju í bogahendina á meðan hún var að skjóta síðustu örinni í umferðinni (það var mjög mikið af vespum á vellinum og við höldum því fram að Freyja hafi lamið vespuna fyrst). Staðan 110-108 fyrir Íslandi.
Kanada og Ísland jöfnuðu einnig fjórðu umferðina 34-34. Ísland sigraði því 144-142 og var með hæsta heildar skorið af öllum þjóðum í 24 liða úrslitum!! Ekki amalegt, sérstaklega þar sem að Kanada var í 14 sæti í undankeppni HMU og var talið líklegra liðið til sigurs þar sem Ísland var í 19 sæti undankeppni.
En Ísland tók sigurinn og hélt áfram í 16 liða úrslit. Sem er í fyrsta sinn sem Ísland kemst í úrslit á HM ungmenna í sögu íþróttarinnar.
Freyja stökk snöggt í sjúkratjaldið og fékk kælipoka til þess að minnka bólguna eftir vespu stunguna og kom svo hlaupandi til þess að keppa í 16 liða úrslitum HMU.
Í 16 liða úrslitum mætti Ísland Spáni sem var í 3 sæti undankeppni HMU. Spánn byrjaði með 2 stiga forskot 37-35. Íslendingar jöfnuðu muninn 33-35 í annarri umferð og staðan 70-70 og leikurinn hálfnaður. En þar fundu Spánverjarnir gírinn og tóku tvær glæsilegar umferðir einu stigi frá fullkomnu skori 39-39 sem Ísland náði ekki að svara 36-32. Spánn tók því sigurinn 148-138 og sló Ísland út af HM ungmenna, Ísland endaði því í 9 sæti á HMU 2025, sem er hæsta sæti sem Ísland hefur náð á HM ungmenna.
Þórdís Unnur Bjarkadóttir stóð sig best í einstaklingskeppni af Íslendingunum. En hún var nægilega hátt í undankeppni HMU til þess að sitja hjá í fyrst útsláttarleik í trissuboga U18 kvenna og hélt því beint í 32 manna útslætti HMU. Þar mætti hún Spænski stelpu, leikurinn var mjög jafn fyrstu þrjár umferðir, en Spænska tók sigurinn með betri síðustu tveim umferðum og sló Þórdísi út af HMU. Þórdís endaði því í 17 sæti í einstaklingskeppni á HM ungmenna, sem er einnig hæsta sæti sem Íslendingur hefur náð á HM ungmenna í sögu íþróttarinnar.
Margt gerðist á mótinu og fyrir mótið sem bar til tíðinda og gerði mótið sérstaklega óvenjulegt. Flugfreyjur Air Canada fóru í verkfall 16 og 17 ágúst, sem voru akkúrat þeir tveir dagar sem meirihluti þjóða var að fljúga til Kanada (þar með talið Ísland). Stór hluti liða mótsins lentu í miklum vandræðum við að komast á HMU, þar sem öll lið sem voru með flug með Air Canada, sem var meirihluti þjóða mótsins, þurfti að finna sér nýja leið til þess að komast á HM.
Sem betur fer hafði íþróttastjóri BFSÍ fylgst með fréttum og stöðunni og var búinn að undirbúa möguleg backup plön ef ske kynni að samningar næðust ekki og flugum yrði aflýst og var búinn að redda nýjum flugum fyrir Íslenska hópinn um 30 mínútum eftir að flugunum var formlega aflýst af Air Canada. Kostnaðurinn við það var þó töluverður, um tvöfalt það sem flugin kostuðu upprunalega, þar sem verið var að bóka flugið kvöldið áður en það fór og aðeins 7 sæti laus í vélinni og 4 keppendur sem voru að ferðast til Kanada. Flest lið voru ekki það heppin og hægt að segja margar áhugaverðar sögur um hvernig liðin komust á HMU.
Fyrsta sem mótshaldarar gerðu var að breyta skipulagi mótsins, þjappa því saman, lengja daga og hagræða svo að mögulegt væri að skapa 2-3 auka daga og gefa þeim liðum hámarks möguleika til þess að finna sér aðra leið til að komast á HMU. Það heppnaðist merkilega vel og öll lið sem ætluðu sér að koma á HMU fundu leið og stundum mjög skapandi leiðir.
Mexíkó leigði einkaþotu sem flaug með allt liðið til Winnipeg. Georgía flaug til Toronto og keyrði svo næstu sólarhring þar sem að öll flug voru full. Slóvenía flaug til Minneapolis og keyrði þaðan til Winnipeg, það var mikið um að lið þurftu að fljúga til nálægra flugvalla og keyra í oft meira en sólarhring til þess að komast á mótið. Eina liðið sem ætlaði sér að komast á HMU og náði því ekki var Kazakstan, en því miður þá lentu þeir ekki bara í því að Air Canada fluginu þeirra var aflýst og þeir voru fastir í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum (UAE), heldur líka þegar þeir loksins fundu flug sem gátu komið þeim til Winnipeg sama dag og undankeppni mótsins átti að hefjast þá komu töskur meirihluta keppenda ekki með fluginu og aðeins 2 keppendur af 14 náðu því að keppa á HMU. Sem var sérstaklega sorglegt, en það var ekki mögulegt að þjappa mótinu meira saman þar sem það myndi hafa neikvæð áhrif á allar aðrar þjóðir sem mættar voru til keppni, þar sem að lengri töf á því að hefja mótið myndi orsaka að allar þjóðir þyrftu að endurbóka sín flug heim líka.
Til viðbótar við allt þetta þá þurfti einnig að fresta hluta mótsins vegna þrumuveðurs og fleira. Það má eiginlega segja að það sé ótrúlegt að þeir muni ná að klára HMU miðað við allt sem gengið hefur á.
Gengi Íslands var nokkuð gott á mótinu. Ísland tók fyrst þátt á HM ungmenna árið 2021 sem átti að vera haldið í Perth í Ástralíu, en var fært til Póllands vegna kórónuveirufaraldursins og ferðatakmarkana. Ísland hefur tekið þátt á öllum HM ungmenna síðan þá.
Loka niðurstöður Íslensku keppendanna á HMU:
- Ísland – 9 sæti liðakeppni Trissuboga U21 blandað
- Freyja Dís Benediktsdóttir
- Ragnar Smári Jónasson
- Þórdís Unnur Bjarkadóttir – 17 sæti einstaklingskeppni trissuboga U18 kvenna
- Freyja Dís Benediktsdóttir – 33 sæti einstaklingskeppni trissuboga U21 kvenna
- Ragnar Smári Jónasson – 33 sæti einstaklingskeppni trissuboga U21 karla
Besti árangur Íslands á HMU (jafnaður eða bættur):
- Ragnar Smári Jónasson : Besta lokasæti Íslendings á HMU – CU21M – 33 sæti – HMU 2025 Winnipeg (var áður 57 sæti)
- Ragnar Smári Jónasson : Besta sæti undankeppni Íslendings á HMU – CU21M – 41 sæti – HMU 2025 Winnipeg (var áður 70 sæti)
- Ragnar Smári Jónasson : Besta skor í undankeppni Íslendings á HMU – CU21M – 662 stig – HMU 2025 Winnipeg (var áður 577 stig)
- Freyja Dís Benediktsdóttir : Besta lokasæti Íslendings á HMU – CU21W – 33 sæti – HMU 2025 Winnipeg (jafnað var áður 33 sæti)
- Þórdís Unnur Bjarkadóttir: Besta lokasæti Íslendings á HMU – CU18W – 17 sæti – HMU 2025 Winnipeg
- Þórdís Unnur Bjarkadóttir: Besta sæti undankeppni Íslendings á HMU – CU18W – 24 sæti – HMU 2025 Winnipeg
- Þórdís Unnur Bjarkadóttir: Besta skor í undankeppni Íslendings á HMU – CU18W – 640 stig – HMU 2025 Winnipeg
- Ísland (Freyja og Ragnar) : Besta lokasæti Íslensks liðs á HMU – CU21XT – 9 sæti – HMU 2025 Winnipeg (Var áður 25 sæti)
- Ísland (Freyja og Ragnar) : Besta sæti undankeppni Íslensks liðs á HMU – CU21XT – 19 sæti – HMU 2025 Winnipeg (Var áður 25 sæti)
- Ísland (Freyja og Ragnar) : Besta skor í undankeppni Íslensks liðs á HMU- CU21XT – 1270 stig – HMU 2025 Winnipeg (Var áður 1210 stig)
Rútuskipulagið var frábært með því besta á nokkru móti á síðustu 10 árum. Völlurinn var mjög fínn fyrir utan vespurnar, háa grasið, hávaða frá lestum, bíla umferðina, vega framkvæmdirnar (völlurinn skalf stundum undir fæti, en stundum var það bara Þórdís), Oreo targetin sem örvarnar límdust í og vindinn, sem var stundum á við ÍM á Íslandi, en kom í stuttum gusum og feykti niður öllum girðingum, vindsokkum, skotklukkum, kíkjum og bogum). En mjög stutt í matvörubúð og veitingastaði frá vellinum, sem kom sér vel þar sem að maturinn á hótelinu var 100% í top 5 verstu valmöguleikum í mat á nokkru móti síðustu 10 ár og liðið borðaði sjaldan matinn á hótelinu. Utan þess var hótelið sjálft í raun fínt.
Allavega frábærlega gert hjá okkar keppendum, fyrsta sinn í úrslit HMU er mjög vel af sér vikið. Okkur hlakkar til að sjá hvað næsta kynslóð nær, þar sem þetta var síðasta HMU sem Freyja og Ragnar geta keppt á, þar sem þau verða orðin 21 árs árið 2027 þegar að HMU verður haldið næst í Tyrklandi. Þórdís mun þó vafalaust keppa á HMU í Tyrklandi 2027, sem verður hennar síðasta HMU, kannski verður hún fyrsti Íslenski einstaklingur til þess að komast í úrslit HMU 😉
Næsta mót á dagskrá hjá BFSÍ er World Archery Championships (HM í meistaraflokki) í Gwangju Suður-Kóreu þar sem Íslensku keppendurnir fljúga út 2 september og koma svo heim aftur 13 sept.
You must be logged in to post a comment.