You are currently viewing Ísland í 6 sæti á EM ungmenna í hitabylgju í Rúmeníu

Ísland í 6 sæti á EM ungmenna í hitabylgju í Rúmeníu

Evrópumeistaramót Ungmenna utandyra er nú í fullum gangi. Mótið er haldið 8-13 júlí í Ploiesti Rúmeníu og fimm Íslensk ungmenni eru að keppa á mótinu. Samtals eru 484 þátttakendur frá 38 löndum að keppa á EM sem er sögulega hæsta þátttaka á EM ungmenna eftir því sem best er vitað. Hitabylgja var í Rúmeníu á meðan að á EM stóð og hiti á keppnisvellinum fór reglubundið yfir 40°. Mótshaldarar voru illa undirbúnir fyrir veðrið en Íslenski liðsstjórinn var þó á tánnum og reddaði Íslenska liðinu (og fleiri löndum eftir þörfum) reglubundnu flæði af ísmolum á völlinn til að halda krökkunum köldum. Sem gerði Íslendingana mjög vinsæla meðal annarra keppenda þó að þeir væru fáir.

Undankeppni EM:

Í undankeppni EM á þriðjudaginn var gengið hjá Íslendingum gott. Marín og Þórdís skoruðu það hátt í undankeppni að hvorug þeirra þurfti að taka þátt í fyrstu umferð leikja á EM (sátu hjá). Einn af Íslendingunum ofhitnaði þó vegna veðursins þrátt fyrir ísinn og náði ekki að skjóta einni örinni í undankeppni. Það kom þó ekki að sök og hún komst áfram eftir undankeppni. En það sem eftir var af undankeppni mótsins eftir að hún ofhitnaði skaut hún sínum örvum eins hratt og mögulegt var og kom sér aftur inn í tjald í ísinn á meðan að liðsstjórinn sótti og skoraði örvar fyrir hana til þess að hún eyddi sem minnstum tíma í veðrinu. Að sögn yfirdómara mótsins þurftu 5 krakkar frá öðrum löndum að draga sig úr keppni vegna hitans. Þórdís náði hæsta sæti Íslensku keppendana í undankeppni í sínum flokki 11 sæti

Liðakeppni EM:

Ísland skipaði tveim liðum á EM ungmenna í U21 flokki, trissuboga kvenna liði og trissuboga blönduðu liði (1 kk og 1 kvk) og það gekk vel í liðakeppni. Trissuboga kvenna liðið var á endanum slegið út af Frakklandi í 8 liða úrslitum og stelpurnar okkar enduðu því í 6 sæti í lokaniðurstöðum EM. Trissuboga blandaða liðið skoraði nægilega hátt í undankeppni til þess að sitja hjá í fyrstu leikjum á EM og fóru beint í 16 liða úrslit þar sem þau voru slegin út af Tyrklandi og enduðu því í 9 sæti.

6 sæti í trissuboga kvenna liðakeppni og 9 sæti í mixed team eru flottar niðurstöður á EM.

Einstaklingskeppni EM:

Rétt áður en einstaklingskeppni átti að hefjast reið óvæntur stormur yfir völlinn og tortýmdi keppnisvellinum. Það var mikill vindur, þung rigning og þrumur og eldingar. Öll skotmörkin fuku niður, ásamt kallkerfi og flestum merkingum á vellinum sem þurfti að laga áður en keppni gæti hafist og því tafðist mótið um næstum 3 klukkustundir. Veðrið batnaði þó fljótt og varð jafn heitt og varð fljótt jafn heitt og var áður og völlurinn var settur upp aftur. Sjá myndband hér.

Það gekk ekki eins vel í einstaklingskeppni hjá Íslendingunum á þessu EM. En áætlað var að meirihluti þeirra myndi komast í topp 32 og að minnsta kosti einn myndi komast í topp 16 og jafnvel hærra. Veðrið var ekki „Íslendinga vænt“, en það samt ekki hægt að segja að krakkarnir okkar hafi skotið illa, þau lentu bara óheppilega öll á móti andstæðingum sem áttu óvenjulega góðan dag og skutu vel yfir sínu venjulega getustigi í einstaklingsleikjunum sem slógu Íslendingana út af EM. Lokaniðurstöður Íslensku keppendanna á EM:

  • Þórdís Unnur Bjarkadóttir 17 sæti trissuboga kvenna U21
  • Freyja Dís Benediktsdóttir 33 sæti trissuboga kvenna U21
  • Eowyn Marie Mamalias 33 sæti trissuboga kvenna U21
  • Ragnar Smári Jónasson 33 sæti trissuboga kvenna U21
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir 33 sæti sveigboga kvenna U21

Loka úrslit Evrópubikarmótaröð ungmenna 2024:

Á hverju ári heldur Evrópskabogfimisambandið (World Archery Europe) tvö Evrópubikarmót ungmenna utandyra, samanlögð frammistaða úr báðum ungmenna mótunum telst vera lokaniðurstaða í Evrópubikarmótaröð ungmenna. Á árum sem EM ungmenna er haldið þá telst EM ungmenna vera seinna Evrópubikarmótið eins og í ár.

Ísland endaði í 15 sæti á „þjóða ranking“ listanum í Evrópubikarmótaröð ungmenna 2024 og einstaklings niðurstöður Íslensku keppendanna er mögulegt að finna hér:

  • Þórdís Unnur Bjarkadóttir –  8 sæti trissuboga kvenna U21
  • Eowyn Marie Mamalias – 15 sæti trissuboga kvenna U21
  • Freyja Dís Benediktsdóttir – 16 sæti trissuboga kvenna U21
  • Ragnar Smári Jónasson – 16 sæti trissuboga karla U21
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir – 19 sæti sveigboga kvenna U21

Lokaorð:

Gull/brons úrslitaleikir EM ungmenna eru í gangi í dag en Íslendingar hafa lokið keppni. Heilt á litið fínn árangur hjá okkar krökkum. Þetta var síðasta landsliðsverkefni Íslands utandyra á þessu tímabili þar sem að Ólympíuleikarnir munu taka upp stærsta hluta það sem eftir er sumarsins. En Íslandsmeistaramótið utandyra er næstu helgi og við hvetjum alla til að taka þátt.