You are currently viewing 17 sæti á HM
Frá vinstri. Ewa Ploszaj, Astrid Daxböck, Anna María Alfreðsdóttir og Ítalska liðið eftir 24 liða útsláttinn á HM

17 sæti á HM

HM í bogfimi var að ljúka um helgina. Mótið var haldið 31 júlí til 6 ágúst í Berlín Þýskalandi.

Örin af leggja af stað af trissuboganum hjá Önnu Maríu Alfreðsdóttir á HM

Íslenska trissuboga kvenna liðið komst áfram eftir undankeppni í útsláttarkeppni HM. Stelpurnar enduðu í 17 sæti eftir að liðið var slegið út af Ítalíu 222-190 í 24 liða útsláttarkeppni HM. 17 sæti er hæsta sæti sem Íslenskt bogfimilið hefur náð á HM og ekki langt frá því að komast í 16 liða úrslit á HM.

Staða trissuboga kvenna liðsins breyttist þó ekki á heimslista og Evrópulista, þær stóðu í stað og eru en í 18 sæti á heimslista og 7 sæti á Evrópulista.

Evrópulisti trissuboga kvenna

 

Heimslisti trissuboga kvenna

Allar trissuboga konurnar komust einnig áfram eftir undankeppni einstaklinga á HM. En stelpurnar voru allar slegnar út í fyrsta útslætti (104 manna 1/48) og enduðu því allar í 57 sæti. Mikill vindur var á svæðinu þegar að útsláttarkeppni einstaklinga fór fram og margir keppendur á vellinum sem skutu a.m.k. einni ör framhjá skotmarkinu, sem er óvenjulegt að sjá á HM.

Marín Aníta Hilmarsdóttir í undankeppni HM sveigboga – Mynd WA

Marín Aníta Hilmarsdóttir var óheppin að komast ekki inn á HM eftir undankeppni sveigboga kvenna. Marín stóð sig frábærlega í fyrri hluta undankeppni HM og var lengi mjög ofarlega á lista keppenda og jafnvel útlit fyrir nýtt Íslandsmet í undankeppni. En svo komu nokkrar lakar umferðir í seinni umferð og á HM má ekkert út af bera þar sem keppendur eru gífurlega jafnir. Marín endaði í 111 sæti og komst því ekki inn á HM einstaklinga í þetta sinn (top 104 keppendur halda áfram eftir undankeppni).

Marín Aníta Hilmarsdóttir að undirbúa bogann fyrir keppni. Smá vax á strenginn kemur í veg fyrir að hann dragi í sig vatn í rigningunni sem myndi hægja á skotinu og örinni og orsaka að örin lendir neðar á skotmarkinu en annars mætti ætla.

Ísland átti 10 skráða í undankeppni HM, en því miður forfallaðist einn keppandi með skömmum fyrirvara. Af þeim 9 sem eftir voru komust þrír áfram í útsláttarkeppni HM (104 efstu einstaklingar). Ísland átti 4 lið í undankeppni HM af þeim komst eitt lið áfram á HM (í útsláttarkeppni, 24 efstu lið). Einnig áttu tveir Íslenskir liðsmenn afmæli á meðan á mótinu stóð, Oliver Ormar Ingvarsson sem varð 22 ára og Astrid Daxböck sem varð 433 ára.

Oliver Ormar Ingvarsson endaði heppilega lengst hægra megin á keppnisvellinum í undankeppni, sem myndaði flott tækifæri til að taka mynd og sjá hann skjóta ásamt helmingi þeirra nokkur hundruð keppenda bara í sveigboga flokki sem kepptu í undankeppni HM 2023

Mikið var um mjög óvænt úrslit á HM í Berlín í heild sinni m.a.:

  • Suður Kóreska kvenna landsliðið í sveigboga endaði í 9 sæti eftir að vera slegnar út af Indónesíu í 16 manna úrslitum og það er frétt að segja frá þar sem Kóreska liði hefur unnið öll gull verðlaun í liðakeppni kvenna á Ólympíuleikum frá árinu 1988 (9 gull í röð) og telst þetta versta niðurstaða liðsins á HM í 44 ár. Og engin Kóresk kona vann til einstaklingsverðlauna á HM heldur sem kom einnig á óvart.
  • Lúxemborg vann sín fyrstu verðlaun á heimsmeistaramóti í sögu íþróttarinnar eftir að taka brons leikinn í blandaðri liðakeppni (mixed team)
  • Bandaríkin unnu aðeins til einna verðlauna á mótinu og unnu næstum enga Ólympíukvóta sem er versta niðurstaða Bandaríkjamanna í sögu íþróttarinnar á HM.
  • Indland sýndi mjög sterka frammistöðu á mótinu sérstaklega í trissuboga og átti meðal annars yngsta heimsmeistara í sögu íþróttarinnar 17 ára gömul. En vert er að nefna að Indland hefur aldrei unnið til gull verðlauna á Ólympíuleikum og er stærsta þjóð sem hefur aldrei unnið gull í nokkurri íþrótt.
  • Pólland vann einnig til liðaverðlauna á HM í fyrsta sinn í sinni sögu.
  • Frekari fréttir af HM er hægt að finna á worldarchery.org
Valgerður E. Hjaltested í undankeppni HM – Mynd WA

82 þjóðir af 171 aðildarþjóðum World Archery skráðu sig til keppni í undankeppni HM í Berlín. Margar þjóðir skrá sig ekki til keppni á HM m.a. vegna kostnaðar við þátttöku á mótinu og/eða þar sem þjóðirnar vita að þær munu ekki ná árangri miðað við eigið getustig á hæsta stigi íþróttarinnar. Hver þjóð má senda að hámarki 1 lið (3 keppendur) í karla og kvenna í báðum keppnisgreinum (sveigboga og trissuboga). 24 efstu lið og 104 efstu einstaklinga halda áfram á HM eftir undankeppni mótsins.

Fjöldi þátttakenda á stórmótum er töluverður og nær allt að 1000 manns, þrátt fyrir ströng takmörk á því hvað hver þjóð má senda af þátttakendum í undankeppni móts (Hámark 12 manns). Það þarf því að skipta þátttakendum niður í fjóra eða fleiri hópa í undankeppni. Hver keppandi fær aðeins 90cm svæði og deilir því almennt með öðrum keppanda þar sem þeir skiptast á að skjóta. Oftast þarf 2-4 þétt setta fótboltavelli í 1-2 daga til þess að klára undankeppni á HM, með útsláttarkeppni og sjónvörpuðum úrslitum er HM í heild sinni um 7-9 dagar af keppni. 712 þátttakendur voru skráðir á HM í þetta sinn sem var óvenju lág þátttaka, en það er að hluta hægt að rekja til kostnaðar þátttöku á mótinu í þetta sinn. – Mynd WA

Lokaniðurstöður Íslensku liðana á HM:

  • Trissuboga kvenna lið 17 sæti (3kvk)
  • Trissuboga blandað lið 39 sæti (mixed team 1kk+1kvk)
  • Sveigboga kvenna lið 35 sæti (3kvk)
  • Sveigboga blandað lið 57 sæti (mixed team 1kk+1kvk)
Alfreð Birgisson í undankeppni HM – Mynd WA

Lokaniðurstöður Íslensku keppendanna í einstaklingskeppni á HM:

  • Ewa Ploszaj 57 sæti í trissuboga kvenna
  • Astrid Daxböck 57 sæti í trissuboga kvenna
  • Anna María Alfreðsdóttir 57 sæti í trissuboga kvenna
  • Alfreð Birgisson 116 sæti í trissuboga karla
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir 111 sæti í sveigboga kvenna
  • Valgerður E. Hjaltested 135 sæti sæti í sveigboga kvenna
  • Astrid Daxböck 139 sæti sæti í sveigboga kvenna
  • Dagur Örn Fannarsson 163 sæti í sveigboga karla
  • Oliver Ormar Ingvarsson 166 sæti í sveigboga karla
Dagur Örn Fannarsson að hlaða ör á bogann á æfingu á HM

Heildarniðurstöður Íslands á mótinu er hægt að sjá á myndinni hér fyrir neðan úr Ianseo úrslitakerfinu.

Myndir af mótinu er hægt að finna á myndasíðu WA á Smugmug og myndasíðu BFSÍ á Smugmug.

Lukkudýr mótsins Archie hafði einnig mikinn áhuga á Íslandi og Íslensku þátttakendunum og bað um að fá treyju svo að hann gæti líka stutt Íslenska liðið ásamt liðstjóra Íslands.

Týndir bræður fundu hvern annan á HM og horfa yfir keppnisvöllinn á meðan á keppni stendur. Gummi og Bear.