Á síðasta stjórnarfundi BFSÍ voru gerðar stórar breytingar á reglugerð um Íslensk mót og Íslandsmet. Flestar breytingarnar voru breytingar á orðalagi og formi reglugerðarinnar en breytti ekki efnislegu innihaldi reglugerðarinnar. En fjórar breytingar voru gerðar sem er vert fyrir félög, iðkendur og keppendur að vita af:
1. Viðbót á Íslandsmetum fyrir þriðju kynskráningu í þjóðskrá.
2. Viðbót á Íslandsmeistaratitilum óháð kyni (sem sagt unisex eða kynlaus Íslandsmeistaratitill)
Fjallað var ítarlega um báðar þær breytingar í annarri frétt á bogfimi.is sem birt var fyrir skömmu. Í raun er þetta eitthvað sem var þá og þegar verið að gera óformlega á Íslandsmeistaramótum 2022. Þannig að það var bara verið að færa í reglur og gera formlegt og fólk þekkti þegar til.
Hinar tvær breytingarnar sem er ekki fjallað um í þeirri frétt eru tengdar fjarlægðum utandyra fyrir U18 flokk:
3. Keppni utandyra í sveigboga U18 var færð af 60m á 50m
4. Keppni utandyra í trissuboga U18 var færð af 50m á 40m
(Í raun er orðalagið þannig að U18 flokkur utandyra er allur færður 10 metrum nær en WA reglur segja og því fylgja þá að Íslandsmet eru einnig veitt fyrir þær fjarlægðir og fjarlægðir WA).
Tilgangur breytingana er að erfiðleikastig hækki jafnara á milli aldursflokka. Ef erfiðleikastigið hækkar of hratt, eins og það hefur verið sett upp hingað til í samræmi við reglur WA, er erfitt fyrir iðkendur að hitta, drífa og sjá árangur. Því eru meiri líkur á því að iðkendur missi móðinn og hætti og/eða upplifi sem svo að þeir séu ekki eins góðir og þeir voru þegar þeir voru yngri.
Svipað hafði þegar verið gert innandyra fyrir þó nokkru síðan (um 4-5 árum). Þá voru allir bogaflokkar í U18 færðir frá WA reglum af 40cm skífu á 60cm skífu innandyra. Þar sem engin alþjóðleg keppni er í U18 flokki innandyra þá þótti það við hæfi að vera með stig hækkandi erfiðleika stig á milli aldursflokka fyrir venjulega iðkendur á Íslandi og að það hefði lítil áhrif á afreks ungmenni þar sem þau keppa (t.d. á EM innandyra er bara keppt í U21 flokki ekki U18).
Fyrir þá breytingu leit keppnisfyrirkomulagið svona út:
- U16 – 12m – 60cm skífa
- U18 – 18m – 40cm skífa
- U21 – 18m – 40cm skífa
Keppendur færðust á minni skífu og lengri vegalengd á sama tíma árið sem þeir urðu 16 ára. Þar sem erfiðleikastigið hækkaði svo fljótt þegar iðkandinn fór upp um flokk sást oft á iðkendum að þeir upplifðu það sem afturför í getu og ungmenna iðkendum fækkaði sérstaklega á milli U16 og U18 aldursflokkana.
Eftir breytinguna var það (og er en) svona:
- U16 – 12m – 60cm skífa
- U18 – 18m – 60cm skífa
- U21 – 18m – 40cm skífa
Keppendur færast árið sem þeir verða 16 ára af 12m á 18m en á sömu skífustærð, árið sem þeir verða 18 ára færast þeir svo af 60cm skífu á 40cm skífu. Semsagt erfiðleikastig hækkar með hverjum aldursflokki en ekki mikið í hvert sinn og langt líður á milli. Það er betra ef að iðkendur vilja sjálfir fara að keppa í hærra erfiðleikastigi áður en þeir þurfa þess, frekar en að þeim sé ýtt of hratt út í hærra erfiðleikastig.
2020 bætti World Archery berboga inn í sitt regluverk og þar er U18 berboga flokkur settur á 50 metra. En lengi á NM ungmenna hefur berbogi U18 verið á 40 metrum og erfiðleikastig á milli aldursflokka hefur verið stigvaxandi og það lítur svona út á NM ungmenna:
- U16 – 30 metrar
- U18 – 40 metrar
- U21 – 50 metrar
En ef farið er eftir WA reglum þá er það svona:
- U16 – 30 metrar
- U18 – 50 metrar
- U21 – 50 metrar
Norðurlöndin ákváðu því að hafa U18 berboga flokkinn á NM ungmenna áfram á 40 metrum í stað þess að fylgja reglum WA og færa hann á 50 metra, til þess að erfiðleikastig væri stigvaxandi eftir aldursflokkum í berboga. BFSÍ fylgdi þeim viðmiðum og gerði það sama á Íslandi á þeim tíma.
Þá er staðan að allir 3 bogaflokkar í U18 innandyra og 1 af 3 bogaflokkum utandyra voru þegar ekki að fylgja WA reglum. Því var ákveðið núna að gera það sama við þá 2 bogaflokka sem eftir voru, sveigboga U18 og trissuboga U18 og færa þá 10 metrum nær á sömu forsendum og þegar var búið að gera fyrir 4 af 6 flokkum:
Trissubogi fjarlægðir utandyra á Íslandsmótum breytast þá úr þessu:
- U16 – 30 metrar
- U18 – 50 metrar
- U21 – 50 metrar
Í þessa mun jafnari hækkun á erfiðleikastigi eftir aldri:
- U16 – 30 metrar
- U18 – 40 metrar
- U21 – 50 metrar
Sveigboga fjarlægðir utandyra á Íslandi breytast þá úr þessu:
- U16 – 40 metrar
- U18 – 60 metrar (50% lengra en U16)
- U21 – 70 metrar (15% lengra en U18)
Í þessa mun jafnari hækkun á erfiðleikastigi eftir aldri (í stað þess að lengja fjarlægðina um 50% hjá þeim sem eru almennt að nýlega byrjaðir að keppa í íþróttinni á milli U16 og U18, þá lengist hún um 25% sem er mun eðlilegri breyting til að fjölga og halda í ungmenni á þessum aldri.):
- U16 – 40 metrar
- U18 – 50 metrar (25% lengra en U16)
- U21 – 70 metrar (40% lengra en U18)
Íhugað var um að breyta U21 flokki úr 70 metrum á 60 metra, þar sem opinn flokkur er á 70 metrum og því væri hækkunin 10 metrar lengra fyrir hvern aldursflokk, eins og í trissuboga og berboga. Það gæfi því ungmennum tækifæri til þess að keppa í þeim aldursflokki (í raun fjarlægð) sem þeir telja sig tilbúna í hverju sinni í öllum keppnisgreinum. En ákveðið var að bíða með þá breytingu að svo stöddu. Ástæðurnar fyrir því voru nokkrar:
- Meirihluti U18 flokks var þegar brotinn frá WA reglum og því „meikaði sense“ að gera það jafnt við alla bogaflokka utandyra og innandyra. Hinsvegar væri breytingin á U21 sveigboga flokki frá 70 metrum í 60 metra aðeins sá flokkur en hinir 5 af 6 myndu fylgja WA reglum og mynda ákveðið ósamræmi.
- Betra er að bíða og sjá hver reynslan verður af þessum breytingum á U18 sveigboga áður en U21 flokki yrði breytt.
- Þegar iðkendur eru orðnir 18 ára eru góðar líkur á því að þeir hafi þegar flestir keppt á á lengri fjarlægðum t.d. með því að keppa NM ungmenna á 60 metrum og/eða á 70 metrum í opnum flokki eða U21 á Íslenskum mótum. Því væri minna mál fyrir þá að færast á 70 metra.
- Líkamlegir burðir þeirra sem eru 18 ára eru meiri en þeirra sem eru 16 ára og því mun líklegra að keppendur sem eru 18 ára og eldri séu komnir vel yfir þær dragþyngdir sem þarf til þess að drífa auðveldlega 70 metra.
Verið er búið að hugsa um þessar breytingar í einu eða öðru formi síðan árið 2018. En ein af ástæðum þess að þær hafa ekki verið gerðar er meðal annars vegna þess að alþjóðleg mót sem afreks ungmennin myndu fara að keppa á erlendis væru þá á öðrum fjarlægðum en hérna heima (s.s. NM, EM ungmenna og slíkt).
En þegar horft er til þess að þeir sem fara á slík mót að keppa eru almennt þeir iðkendur sem stunda íþróttina mest, og flestir eru þegar að keppa á sömu fjarlægðum eða lengra í opnum flokki, ætti það ekki að vera mikið vandamál fyrir þá að stilla sigtið smávægilega á æfingum og þegar haldið er á mót.
En það getur munað miklu fyrir þá sem eru á lægra getustigi eða að byrja í íþróttinn að upplifa meiri árangur í mótum og eykur líkur á því að þeir haldi áfram í íþróttinni (og það er skemmtilegra líka sem passar við markmið BFSÍ í heildarstefnu “allir hafi tækifæri til þess að stunda, taka þátt í og hafa gaman af bogfimi íþróttum”).
Þetta er einnig jákvætt fyrir þá sem eru á hærra getustigi þar sem þeir læra þá að hitta hærri skor í yngri flokkum og hafa því meiri trú á getu sinni þegar þeir færast síðar á hærra erfiðleikastig (lengri fjarlægðir eða minni skotskífur).
Í samræðum íþróttastjóra við aðra landsliðsþjálfara þar sem hann hefur borið þessar pælingar undir þá á síðustu 5 árum hafa þeir verið mjög jákvæðir gagnvart þessum breytingum og hafa nefnt að það mætti jafnvel fara í en styttri fjarlægðir en breytingarnar sem voru gerðar núna. Þeir hafa m.a. vísað í að svipað er gert í Suður-Kóreu, sem er sterkasta bogfimiþjóð í heiminum. Tilgangur þess er akkúrat að byggja upp þeirri trú í ungmenni að þau geti skotið há skor og góðar grúppur snemma á ferlinum. En á hin vegin er mjög erfitt að byggja þá trú upp hjá ungmenni sem hefur ekki verið að skora há skor áður að það geti gert betur.
Þannig að breytingarnar ættu því að vera af hinu góða, bæði fyrir afreks ungmenni og fyrir almenna iðkendur. En það skapast eitt vandamál tengt breytingunum, sem er að upp gæti komið t.d. ef að Íslenskur keppandi er að keppa á alþjóðlegu ungmenna móti að hann gæti slegið heimsmet og þá Evrópumet í U18, en ekki fengið Íslandsmetið gilt, þar sem alþjóðlega keppnin væri á annarri fjarlægð eða skífustærð en segir til um í reglum BFSÍ og veitt eru met fyrir. Því var ákveðið að veita Íslandsmet í U18 flokkum bæði fyrir reglur BFSÍ/WAN og fyrir reglur WA til þess að koma í veg fyrir mögulegt ósamræmi. Einnig þýðir það að eldri met sem voru í gildi munu ekki falla niður eða úr Íslandsmetaskrá. Það hefur einnig þau jákvæðu áhrif að ungmennin hafa fleiri met til þess að vinna að því að slá og það er góð hvatning/ástæða til þess að keppa einnig í hærri aldursflokki/erfiðleikastigi þegar þau eru tilbúin til þess, þar sem veitt eru met fyrir báðar fjarlægðir.
Íþróttastjóri mun einnig vinna að því að kynna breytinguna fyrir Norðurlöndum á næsta Norðurlandafundi og reyna að ná fram sambærilegum breytingum á þessum tveim flokkum sem eftir eru á NM ungmenna. Hann hafði þegar reynt að fá trissuboga U18 færðan í sama fyrirkomulag á 40 metra en Danmörk setti sig á móti þeirri breytingu. Keppnisfyrirkomulag ungmenna á landsvísu er mjög mismunandi milli Norðurlandaþjóða og því ekki ljóst hve vel það mun ganga að fá slíkar breytingar í gegn.
Sem dæmi um hve mismunandi reglur geta verið í ungmennaflokkum á Norðurlöndum: Svíþjóð er með 16 ára og eldri flokk, þar sem yngri en 16 ára er meinað að keppa, ekki er tekin fram hámarks aldur í nafni flokksins en hámarkið er 20 ára á árinu. Og Svíjar halda flestir að þetta sé eftir reglum heimssambandsins… Til að reyna að útskýra flokkinn í samhengi WA reglna, þá er þetta í raun sameinaður U18 og U21 flokkur (sem væri þá bara U21 flokkur), nema 15 ára og yngri er bannað að keppa í honum (sem er þvert á reglur WA) og þeir skjóta á 60metrum (í stað 70metra eins og U21 flokkur í WA reglum)… semsagt passar við ekkert sem til er og fylgir engum reglum/normum um fjarlægðir eða aldursþátttöku.
Komið hefur upp tilfelli þar sem Sænskur 15 ára strákur sló heimsmet og Evrópumet fullorðinna og fékk slíkt metið hjá World Archery og Evrópska bogfimisambandinu, en fékk ekki Sænska landsmetið metið af því að hann var of ungur til þess að mega slá það met í þeirra reglum.
Þetta kom upp í vinnu íþróttastjóra 2020-2021 þegar að BFSÍ fékk afrit af Sænska mótakerfinu til þess að útbúa Íslenska útgáfu (mótakerfi BFSÍ) sem byggt er á grunni Sænska bogfimisambandsins. Gera þurfti miklar breytingar á Sænska mótakerfinu þar sem stór partur af því kerfi var ekki settur upp á veg þar sem mögulegt var að fylgja reglum World Archery. Sú mikla vinna skilaði sér þó í bættu mótakerfi fyrir Noreg, Svíþjóð og Ísland sem öll nota nú sama grunn að breytta mótakerfinu. Mótakerfið er nú sett upp á veg þar sem það hentar hvort sem landssamband ákveður að fara eftir WA reglum eða skapa sínar eigin reglur, og uppfærslur sem gerðar eru á kerfinu ganga því á milli mótakerfa landana þriggja án vandræða, þó að tæknilega séð sé um þrjú ótengd kerfi eru þau byggð á sama grunni. Framkvæmdastjóri Sænska bogfimisambandsins sagðist mjög ánægður með vinnuna þar sem hann hefur lengi verið að reyna að færa Svíþjóð meira í átt að samræmingu við reglur WA og því gott að grunnur fyrir því sé kominn í þeirra mótarkerfi, en á Sænskum bogfimiþingum hafa Svíjar flestir viljað halda í hefðir sem hafa verið við líði um langt skeið.
World Archery gerir ekki ráð fyrir því að landssambönd fylgi sínum reglum á ungmennamótum innanlands. Þeir benda reglubundið aðildarþjóðum á að keppni á vegalengdum og skotskífustærðum sem settar eru upp í reglum WA eru að mestu miðaðar á að þær séu krefjandi og viðeigandi fyrir afreksfólk og afreks ungmenni á hæsta stigi, og séu því ekki endilega þær bestu til þess að nota við uppbyggingu íþróttar í ákveðnu landi eða yngri flokka mótum hjá landsamböndum, þó að reynt sé að taka tillit til þess. Þeir hvetja reglubundið þjóðir til þess að fara þær leiðir sem þeir telja að muni best stuðla að mestu þátttöku í íþróttinni frekar en að elta alltaf blint reglur WA. Þannig að þessar ákvarðanir hjá BFSÍ eru alltaf spurning um að keppni sé krefjandi og skemmtileg fyrir bæði þá sem eru á hærra og lægra stigi íþróttarinnar og þeir geti keppt saman sem getur oft verið flókið að samræma.
Íslandsmót ungmenna utandyra á þessu ári verða því á nýjum fjarlægðum fyrir U18 flokk í sveigboga og trissuboga. En slíkt verður einnig tekið fram í skráningum mótana í samræmi við reglur BFSÍ um auglýsingar/tilkynningar móta.
Utandyra U18:
- Sveigbogi U18 : 50 metrar (breytt frá 60 metrum)
- Trissubogi U18 : 40 metrar (breytt frá 50m metrum)
- Berbogi U18 : 40 metrar (sama og var áður)
Innandyra U18:
- Sveigbogi U18 : 18 metrar 60cm skífa (sama og var áður)
- Trissubogi U18 : 18 metrar 60cm skífa (sama og var áður)
- Berbogi U18 : 18 metrar 60cm skífa (sama og var áður)
Þessi skýring er líklega óþarflega löng um þær breytingar sem gerðar voru á síðasta stjórnarfundi BFSÍ. En það þótti við hæfi að útskýra forsendur og aðdraganda þessara breytinga ítarlega þar sem þetta eru breytingar á keppnisformi sem gerast mjög sjaldan s.s. viðbætur á nýjum kynskráningum, nýjum titlum og breytingum á fjarlægðum aldursflokka.