You are currently viewing Viðbót Íslandmeta fyrir þriðju kynskráningu og formleg viðbót á Íslandsmeistaratitlum óháðum kyni

Viðbót Íslandmeta fyrir þriðju kynskráningu og formleg viðbót á Íslandsmeistaratitlum óháðum kyni

Stjórn Bogfimisambands Íslands samþykkti einróma á stjórnarfundi sínum í gær breytingar á reglugerðum sambandsins um Íslensk mót og Íslandsmet.

Meðal breytinga sem er helst vert að vekja athygli á eru:

  • Formleg viðbót á Íslandsmetum fyrir einstaklinga með hlutlausa kynskráningu í Þjóðskrá (kynsegin/annað) í öllum aldursflokkum og keppnisgreinum.
  • Formleg viðbót Íslandsmeistaratitils unisex (keppni óháð kyni eða kynlausa sem sagt) í öllum aldursflokkum og keppnisgreinum.

Í unisex flokki (keppni óháð kyni eða kynlaus keppni) mega allir keppa óháð kynskráningu í þjóðskrá og svarar því einfaldlega spurningunni „hver er bestur á Íslandi í hverri keppnisgrein“.

Keppni í unisex flokki (keppni óháð kyni, sem sagt kynlaus flokkur) leysir þátttöku mál margra jaðarsettra hópa s.s.:

  • Vettvangur fyrir konur og karla að keppa gegn hvert öðru
  • Þeir sem eru hlutlausa kynskráningu hjá Þjóðskrá gefst nú færi á því að vinna Íslandsmeistaratitla án þess að þurfa að keppa í karla flokki (eins og tímabundna reglan var áður)
  • Þeir sem efast um sýna kynvitund geta keppt aðeins í unisex flokki án þess að þurfa að skrá sig til keppni í þann kynflokk sem þeir eru skráðir í þjóðskrá á meðan þeir finna út úr sinni kynvitund.
  • Trans einstaklingar sem hafa komið út úr skápnum en ekki lokið breytingu kynskráningar í þjóðskrá geta keppt aðeins í unisex flokki (keppni óháð kyni) þar til breytingin gengur í gegn. Án þess að þurfa að skrá sig í þann kynflokk sem skráð er í þjóðskrá og sem passar ekki við þeirra kynvitund.
  • Þeim sem vilja stunda íþróttir utan kynjatvíhyggju.
  • Intersex og/eða aðra aðila sem falla utan kynjatvíhyggju skilgreiningar.

Við formlega stofnun BFSÍ í desember 2019, sem tók við af bogfiminefnd ÍSÍ sem hafði verið starfrækt í um 25 ár, var ekkert í reglugerðum BFSÍ sem kom í veg fyrir þátttöku trans einstaklinga á Íslandsmeistaramótum eftir sinni kynvitund, svo lengi sem hún passaði við skráningu þeirra í þjóðskrá. Einnig var heimilt í reglum BFSÍ að halda mót kynjaskipt eða kynlaus (keppni óháð kyni), nema Íslandsmót sem voru bara kynjaskipt í samræmi við reglur alþjóðabogfimisambandsins í karla og kvenna flokka.

Reglum BFSÍ var breytt 2020 til skýra reglugerðina svo að engum væri hægt að meina þátttöku í bogfimimótum á Íslandi byggt á skráningu kyns í þjóðskrá og þá var einnig bætt við að þeir sem væru skráðir annað en karla og konur í þjóðskrá kepptu í karla flokki. Fyrsti trans keppandi keppti „úr skápnum“ eftir sinni kynvitund á Íslandsmeistaramóti 2020 og fyrsti trans keppandi í landsliðsverkefni á EM árið 2022. Svo best sem vitað er til er það einnig fyrsti trans keppandi sem keppt hefur „úr skápnum“ fyrir Íslenskt landlið í nokkurri íþrótt. En hann komst einni í 8 liða úrslit EM U21 með liðsfélögum sínum.

Með því var tryggt að allir gætu tekið þátt á mótum óháð kynskráningu í þjóðskrá. En það var þó aðeins tímabundin lausn svo að tími gæfist til þess að vinna að og útbúa betri lausn fyrir þá sem falla utan kynjatvíhyggju, svo að þeir gætu keppt undir forsendum sem samræmdust meira þeirra kynvitund.

Árið 2022 eftir að Covid áhrif minnkuðu hafði sú lausn verið sköpuð og prufu keyrsla gerð á óformlegri keppni í kynlausum flokki (keppni óháð kyni/unisex) á öllum Íslandmótum BFSÍ 2022 til viðbótar við kvenna og karla flokk, til tilrauna og undirbúnings fyrir formlegri viðbót slíkrar keppni í regluverk BFSÍ árið 2023 ef vel heppnaðist. Fyrir hreina tilviljun byrjaði fyrsti einstaklingur sem skráður er kynsegin/annað í þjóðskrá (sem vitað er til) að stunda íþróttina á sama ári og keppti fyrst á Íslandsmeistaramóti í júlí 2022, en hán skráði sig á mótið aðeins í kynlausan flokk (keppni óháð kyni/unisex) og þurfti ekki að keppa í karla eða kvenna flokki mótsins.

Ákveðið var í reglugerðum sem samþykktar voru núna að nota orðið unisex að svo stöddu sem megin nafnið á keppni óháð kyni, þar sem það orð var þegar notað í enskum útgáfum niðurstaðna í alþjóðlega niðurstöðubirtinga kerfinu Ianseo og í mótakerfi BFSÍ. Í tilrauna og undirbúnings ferlinu var notað hugtakið „kynlaus flokkur“ í Íslenska texta niðurstaðna þegar ekkert kyn er tengt keppni í flokknum. Kynsegin/annað einstaklingum sem var rætt við fyrir reglubreytingar fannst unisex vera betra nafn á keppni óháð kynjum, þar sem líklegra væri fyrir suma að misskilja að keppendur í kynlausum flokki væru kynlausir, en ekki að flokkurinn sjálfur væri kynlaus (óháður kyni). Stjórn BFSÍ ákvað því að fara eftir þeim meðmælum. Án vafa á orðalag tengt ýmsum af þessum breytingum eftir að þróast í framtíðinni, en ætlunin og skilgreining viðbótanna eru skýrar í reglugerðum sem samþykktar voru og ættu að vera af hinu góða.

Kynsegin/annað sem iðka bogfimi sem rætt var við á meðan prufukeyrslan var í gangi 2022 og áður en reglunum var breytt voru spenntari fyrir viðbót unisex Íslandsmeistaratitils (þar sem allir keppa á móti öllum, keppni óháð kyni, kynlaus flokkur) frekar en kynsegin/annað Íslandsmeistaratitils (Íslandsmeistaratitils fyrir þriðju kynskráningu) af þrem megin ástæðum:

  1. Fáir kynsegin/annað eru skráðir í íþróttahreyfinguna og í þjóðskrá eins og er. Með því að setja þá fáu iðkendur í sér  kynsegin/annað flokk gætu þeir aðeins keppt við aðra sem væru skráðir kynsegin/annað í þjóðskrá og gætu þeir því upplifað það sem svo að það sé verið að ýta þeim út í horn íþróttarinnar með fáa eða enga til þess að keppa eða leika við. En með viðbót unisex flokks (keppni óháð kyni) upplifa þeir mun meira að vera hluti af íþróttinni. Og að það væri bara skemmtilegra að hafa fleiri til þess að keppa við.
  2. Sumum innan hreyfingarinnar fannst ekki við hæfi að vera með sér kynsegin/annað flokk skilgreindan sem sér kyn þar sem þeir eru með hlutlausa kynskráningu og því meira við hæfi að vera með unisex flokk (keppni óháð kyni) en að vera með sér kynsegin/annað keppnisflokk.  Kynsegin/annað er regnhlífar hugtak sem nær yfir víðan hóp fólks, en allir innan regnhlífarinnar ættu að falla undir að vera „fólk“ og ættu því að geta tekið þátt í unisex flokki (keppni óháð kyni/kynlaus keppni).
  3. Með því að bæta aðeins við kynsegin/annað flokki og ekki unisex flokki (keppni óháð kyni), þá tapast möguleikar margra hinsegin einstaklinga til þess að geta keppt  s.s. þeirra sem eru að efast um sýna kynvitund, eru í trans ferli en hafa ekki lokið breytingu á kynskráningu o.s.frv.. Þar sem þeir aðilar væru t.d. ekki með skráð kyn í samræmi við kynvitund í þjóðskrá og hefðu því aðeins möguleika á þátttöku í því kyni sem er skráð hjá þeim.

Með þessu móti er hægt að koma á móts við sem flesta til þess að keppa á sínum forsendum og tryggja að óháð kynja stöðu eða forsendum í lífi viðkomandi iðkanda að hann geti keppt ávallt tekið þátt á mótum.

Þó er vert að geta að ekkert er í ný uppfærðum reglum BFSÍ sem kemur í veg fyrir að titlar verði veittir fyrir þriðju kynskráningu í þjóðskrá (kynsegin/annað) í framtíðinni, ef að fjöldi slíkra iðkenda/keppenda eykst. En farið verður með það mat í samræmi við viðmið sem stjórn BFSÍ notar um viðbót formlegra Íslandsmeistaratitla s.s. tengt fjölda þátttakenda/iðkenda í t.d. mismunandi keppnisgreinum eða íþróttagreinum (s.s. langboga, traditional, 3D o.s.frv.). Þegar/ef slík viðbót þriðja kyns gerist þá verður boðið upp á titla í þremur kynjum (karla, kvenna og kynsegin/annað) og unisex (kynlausum flokki/keppni óháð kyni), til þess að koma á móts við sem flesta iðkendur/keppendur í íþróttinni.

Hins vegar var ákveðið að bæta við Íslandsmetum fyrir þriðju kynskráningu í þjóðskrá (kynsegin/annað) og ástæður þess voru m.a.:

  1. Það mun hvetja þá sem skráðir eru kynsegin/annað í þjóðskrá til að taka þátt í íþróttahreyfingunni, mótum og gefa viðurkenningu til þeirra sem hafa náð þar besta árangri.
  2. Áhugavert verður að geta fylgst með getustigi milli þessara þriggja kynskráninga sem eru í boði á Íslandi í dag.
  3. Ef metum væri aðeins bætt við fyrir unisex (keppni óháð kyni) er áætlað að þau væru oftast sama og annað hvort karla eða kvenna metið og erfitt væri að fylgjast með besta árangri þriðju kynskráningar í þjóðskrá og myndi því ekki henta jafn víðum hóps innan kynsegin/annað regnhlífarhugtaksins. Ef metum er bætt við fyrir kynsegin/annað þá er samt öllum kleift að sjá unisex metið, þar sem það væri þá hæsta skorið í þessum þremur kynskráningum.
  4. Það passar betur við lög um kynrænt sjálfræði sem segja „Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum, og skal skráningin táknuð á óyggjandi hátt…“. Og skráning gögnum um Íslandsmet, fjölda iðkenda og þátttakenda fjölda mót er safnað hjá BFSÍ.

Með þessu fyrirkomulagi ætti allt fólk að geta tekið þátt í íþróttinni á sínum forsendum, eins og mögulegt er að koma fyrir hverju sinni. Reglur Bogfimisambands Íslands um þátttöku í mótum/keppnum/viðburðum eru þá líklega orðnar með þeim opnustu í íþróttum á Íslandi og mögulega meðal þeirra opnustu í heiminum, þó að þeirri þróun sé aldrei lokið að fullu og vafalaust eigi eftir að gera frekari aðlaganir og viðbætur í framtíðinni.

Áætlað er að fyrsta Íslandsmetið í þriðja kynskráningu í þjóðskrá „kynsegin/annað“ verði sett á Bikarmóti BFSÍ sem haldið verður í Bogfimisetrinu laugardaginn 7 janúar 9:00-14:30. Sem er einnig fyrsta bogfimimót sem haldið verður á Íslandi eftir að breytingarnar tóku gildi á stjórnarfundi BFSÍ í gær.

Í heildarstefnu BFSÍ er markmið BFSÍ að “allir hafi tækifæri til þess að stunda, taka þátt í og hafa gaman af bogfimi íþróttum”. Þetta markmið er byggt á markmiði alþjóðabogfimisambandsins fyrir heiminn og að tryggja þátttökumöguleika allra er að sjálfsögðu einn liður þessa markmiðs.

Formaður Bogfimisambands Íslands Guðmundur Guðjónsson sagði í sambandi við breytingarnar eftir fundinn:

Ég hef mest verið í forsvari fyrir þessum breytingum, ef fólk vill setja sig upp á móti þessum breytingunum tek ég fulla ábyrgð á þeim.

Ég er mjög heppinn að vera með gífurlega góða, skilningsríka stjórnarmenn með mér og engin mótspyrna hefur verið við neinum af þessum breytingum meðal þeirra, aðildarfélaga okkar eða íþróttafólks í íþróttinni. Við höfum líka ráðfært okkur reglulega við starfsfólk Íþrótta og Ólympíusamband Íslands tengt ýmsum hinsegin málum, og þeir hafa verið mjög ánægðir með hvað BFSÍ hefur lagt hart að sér að tryggja þátttöku möguleika allra í íþróttinni umfram þau viðmið sem til eru íþróttahreyfingunni þegar.

BFSÍ er líka mjög heppið að eiga að gott heimssamband og starfsmenn þeirra, sem er opið og tilbúið til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja þátttökumöguleika allra alþjóðlega. Þó að skiljanlegt sé að öll aðildarlönd þeirra séu ekki komin eins langt á veg í þróun gagnvart málefnum hinsegin íþróttafólks og að heimssambandið sé að hluta bundið þeim viðmiðum og reglum sem þeim eru sett sem Ólympískt heimssamband. Því getur það tekið þá lengri tíma að ná fram breytingum í íþróttinni á alþjóðavísu en það tekur BFSÍ að breytast á landsvísu.

Fólk er bara fólk, af hverju ekki að vera með einn Íslandsmeistaratitil sem er bara fyrir fólk, algerlega óháð því hverjir eða hvað þeir eru eða hvað er skrifað á blöð, í skrám eða á skilríkjum? Bogfimi er íþrótt fólksins, án þeirra væri engin íþrótt og engin ástæða til þess að meina neinum þátttöku í íþróttinni sama hverjar lífsaðstæður þeirra eru.

Þessar reglubreytingar koma líklega fáum á óvart innan íþróttarinnar. Bæði þar sem að áður en að reglum er breytt innan BFSÍ er almennt bætt við óformlegri keppni til reynslu í því sem er áætlað að breyta, og þar sem það virðist vera frekar stórt hlutfall keppenda í bogfimi sem fellur einhver staðar á hinsegin regnbogann.

Það hefur þó farið töluverð vinna í þetta á bakvið tjöldin að koma öllu í rétt form svo að allir geti tekið þátt óháð lífsaðstæðum og að sem flestir geti tekið þátt á veg sem þeir sætta sig best við. En það er okkar verkefni að finna leiðir til þess að gera þeim það kleift að taka þátt og samræmist það lögum sambandsins og markmiðum í stefnum sambandsins.

Nokkrum íþróttafélögum utan BFSÍ hefur einnig verið vísað til BFSÍ til þess að leita ráða tengt hinsegin málum í íþróttum á árinu, m.a. frá samtökunum 78. Þar sem sambandið virðist mögulega vera komið lengra á veg í þróun hinsegin málefna tengt trans og kynsegin íþróttafólki en mörg sérsambönd á Íslandi.

Áður voru og eru en við líði sum staðar í heiminum fordómar gegn örvhentum og rauðhærðum, og hægt að finna tilfelli þess að slíkir einstaklingar hafi verið eða séu útskúfaðir, taldir vera nornir, aflífaðir, taldir vera verr gefnir og/eða þvingaðir til þess að fylgja norminu. Þó að líklega allir Íslendingar séu sammála um að slíkir fordómar gegn örvhentum og rauðhærðum séu með engu móti í lagi í nútíma þjóðfélagi, þá virðumst við oft ekki alveg vera komin á sama stað gagnvart hinsegin fólki í þjóðfélaginu.

En þetta eru bara mismunandi útgáfur af fólki. Íþróttum er almennt ekki skipt í keppni í rétthentra og örvhentra, og við stöndum svo ekki og þrætum svo um hvort að þeir sem séu jafnhentir eigi að keppa í flokki örvhentra eða rétthentra. Því væri hægt að hugsa um það sem fordæmi þess að bæta við keppni óháð kyni (unisex/kynlaus keppni), eins og við erum þegar með keppni óháð ráðandi hendi.

Þó tel ég líklegt að BFSÍ muni einnig til frambúðar halda áfram með keppni í kynja flokkun gagnvart titlum og metum, og sambandið er ekki með neinar fyrirætlanir um að bæta við rétthentum, örvhentum og jafnhentum flokki sem undirflokkum, eða titlum eða metum tengt slíkri flokkun. Ég tek þetta aðeins sem dæmi til þess að gefa annað sjónarhorn til þeirra sem ekki slíkt hafa.

Allir sem eru ekki í meirihlutanum eða passa ekki inn í normið á einhvern veg upplifa almennt eitthvað form af mismunun eða fordómum á ævinni. Það eru fáir iðkendur í bogfimi sem myndu skilgreina sjálfa sig sem venjulega. Iðkendur í bogfimi eru margir hverjir þeir sem fundu sig ekki í hefðbundnum íþróttum eða hefðbundnu skiplögðu íþróttastarfi.

Þannig að ef þú sem lest þetta upplifir að þú sért ekki partur af norminu á einhvern veg og þú fannst þig ekki í íþróttastarfi vegna þess, prófaðu bogfimi. Það er venjulegt að vera óvenjulegur í okkar íþrótt. Ég er sjálfur gott dæmi um það og fáir sem myndu segja að ég væri venjulegur.

Vert er að geta að formaður BFSÍ hafði einnig reglubundið samband við alþjóðabogfimisambandið World Archery á síðasta ári þegar unnið var að ferli þessara breytinga til þess að tryggja að þeim sem væru skráðir „kynsegin/annað“ í þjóðskrá væri einnig heimilt að taka þátt í landsliðsverkefnum fyrir hönd BFSÍ. Starfsfólk World Archery samþykkti tillögu formanns BFSÍ að slíku fyrirkomulagi. Ferlið er að „kynsegin/annað“ aðilum er heimilt að taka þátt í landsliðsverkefnum en þurfa að skilgreina sig innan kynjatvíhyggju sem er innan íþróttarinnar alþjóðlega sem stendur, en WA mun ekki þvinga ákveðin kynflokk (sem sagt kynsegin/annað stendur til boða að velja hvort að þeir muni keppa í karla eða kvenna). Því ætti nú að vera tryggt að þeir sem eru kynsegin/annað tekið þátt í erlendum landsliðsverkefnum fyrir hönd BFSÍ. World Archery mun þó ekki gera frekari breytingar eða aðlaganir tengt þátttöku slíkra aðila fyrr en viðmið IOC (International Olympic Committee) um kynsegin íþróttafólk koma út. Að sögn starfsfólks World Archery segist IOC tilbúið til þess að gefa slík viðmið út bráðlega og þegar þau koma út telja þeir líklegt að World Archery muni fara eftir þeim viðmiðum.

Einnig er vert að geta að formaður BFSÍ var einnig árið 2020 mikið í samskiptum við World Archery tengt ferli fyrir trans keppendur í landsliðsverkefnum. En ekkert slíkt ferli var til staðar hjá World Archery um hvernig farið væri með breytingar á kyni keppenda sem keppt höfðu áður í landsliðsverkefnum. Það ferli er nú komið til staðar og var Íslenskur keppandi sá fyrsti sem hefur áður keppt í landsliðsverkefni sem fékk breytta kynskráningu innan heimssambandsins eftir því sem best er vitað. World Archery var fyrir skömmu að kynna drög sín að nýjum viðmiðum fyrir trans íþróttafólk fyrir aðildarlöndum sínum, sem mun skýra og opinbera ferlið. Drögin eru frekar góð og er mjög skýrt og einfalt „pathway“ sem virðist ekki of íþyngjandi fyrir trans íþróttafólk sem er að breyta um kynskráningu. En drögin mættu á stöðum vera opnari. Fundur með World Archery verður í febrúar um drögin, þar sem ákveðnum landssamböndum verður boðið til að gera aðlaganir á ferlinu og áætlað að formaður BFSÍ verði einn þeirra sem mun sitja fundinn.

Í tölfræði ÍSÍ yfir iðkenda fjölda 2021 eru 13 af 34 sérsamböndum með skráða kynsegin/annað iðkendur. Um 9% kynsegin/annað iðkenda innan íþróttahreyfingarinnar iðka bogfimi. Sem eru þó bara 2 iðkendur af 22 iðkendum sem skráðir eru innan íþróttahreyfingarinnar í heild. En ekki er langt síðan að boðið var upp á hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá og því lítið mat hægt að byggja á þeim tölum en sem komið er, en hlutfallslega er það sem stendur hátt miðað við lítið sérsamband.

Skemmtileg viðbót sem er ekki tengd stjórnarfundinum eða reglubreytingunum, en er óbeint tengd málefninu eru nýju landsliðsbolirnir sem komu til á árinu 2022. Viðbótin tengist nýjum reglum um sjónvarpaða úrslitaleiki á heimsbikarmótum sem tók gildi 2022. Var þá öllum löndum gert það að skyldu á heimsbikarmótum að vera með tvo landsliðsbúninga í mismunandi litum svo að auðveldara væri að aðgreina lið/einstaklinga í gull og brons úrslitaleikjum á heimsbikarmótum. Ef bæði lið/einstaklingar eru í sömu litum fær liðið/einstaklingurinn sem var hærri í undankeppni mótsins að velja hvort að þeir eða hitt liðið skipti yfir í „alternate“ landsliðsbúninginn. Heimsbikarmót eru reglubundið notuð sem tilraunastig nýrra reglna og ferla innan World Archery áður en slíkra reglur eru teknar upp fyrir íþróttina í heild sinni.

Landsliðsbúningur BFSÍ

 

„Alternate“ landsliðsbúningur BFSÍ með Íslandi í regnbogalitum gefur bolnum smá „aurora flare“

Venjan er ekki hjá BFSÍ að leggjast í stórar fréttaskriftir tengt breytingum á reglum í íþróttinni. En það var talið við hæfi í þessu tilfelli þar sem að aðrir innan íþróttahreyfingarinnar geta mögulega notfært sér eitthvað af þeirri vinnu, viðmiðum og forsendum sem BFSÍ hefur unnið eftir og/eða útbúið frá stofnun sambandsins í desember 2019 til þess að stuðla að þátttöku hinsegin einstaklinga.

Það eru öll sérsambönd, íþróttahéruð og íþróttafélög að reyna að finna og útbúa bestu leiðir til þess að bæta aðstöðu, aðgengi og þátttöku möguleika hinsegin fólks og annarra að sínum íþróttum. Það getur verið flókin og erfið vinna sem getur tekið langan tíma, og vafalaust verða einhver feilspor tekin í því ferli. Því getur það verið ómetanlegt að hafa sniðmát af því hvernig aðrir hafa farið að slíkri vinnu. Þó svo að slíkt passi ekki alltaf 100% á milli íþrótta, gefur það oft hugmyndir um hvaða leiðir, aðferðir eða ferli myndu henta aðstæðum hverrar íþróttar eða hvers félags.