BFSÍ barst ánægjulegt bréf frá Evrópusambandinu (World Archery Europe-WAE) þar sem tilkynnt var að Guðmundur Guðjónsson hafi náð endurmenntunar og stöðuprófi til endurnýjunar réttinda til ársins 2026.
Guðmundur sagði að prófið hafi innihaldið 80 spurningar í 168 liðum. Svör við spurningum prófsins voru sendar til dómara eftir að því lauk sem gerði þeim kleift að fara yfir sín svör og fylla upp í möguleg göt í þekkingu þeirra. Guðmundur áætlar miðað við þær upplýsingar að hann hafi fengið einkunn upp á um 97%, en engin formleg einkunargjöf eða samanburður er á dómurum á prófinu, aðeins lágmarkskröfur sem ná þurfti.
Guðmundur telur þó líklegt að þetta sé meðal hærri niðurstaðna á prófinu, þar sem viðmiðið til að ná endurmenntun hjá Evrópusambandinu er aðeins 80%. 2017 og fyrr var lágmarkskrafa Evrópusambandsins lægri, aðeins 70%, og forsenda þess samkvæmt formanni dómaranefndar WAE á þeim tíma var að ef viðmiðið væri hækkað þá væru margir heimsálfudómarar sem næðu ekki réttindum. En viðmiðin voru hækkuð úr 70% í 80% eftir Evrópuþing 2018 eftir endurgjöf frá Guðmundi um að hærri kröfur og staðlar ættu að vera á dómurum Evrópusambandsins, og ekki ásættanlegt að dómari „dæmi rangt“, þekki ekki reglu eða beiti röngu ferli í næstum þriðja hverju tilfelli.
Guðmundur náði fyrst heimsálfudómara réttindum (Continental Judge – CJ) árið 2018 og er mjög virkur í alþjóðlegri þátttöku. Líklegt telst miðað við aldur og virkni hans í íþróttinni að hann muni þjóna um mjög langt skeið sem alþjóðlegur dómari á vegum BFSÍ. Þrátt fyrir að hafa fagnað fertugs afmæli í mánuðinum er Guðmundur meðal yngri heimsálfudómara Evrópusambandsins.
Það kemur sér einnig vel fyrir BFSÍ þar sem eitt af 16 viðmiðum fyrir A/Afrekssérsambönd hjá Afrekssjóði ÍSÍ er: „o) A/Afrekssérsambönd skulu hafa á að skipa dómara með alþjóðleg réttindi og taka virkan þátt í alþjóðlegum verkefnum.“. BFSÍ hefur náð því viðmiði frá árinu 2018 og talið ólíklegt að það breytist á næstu árum eða áratugum. Einn annar dómari er með alþjóðleg réttindi innan BFSÍ og var að ná þeim í ár. Sara Sigurðardóttir sem er ungmenna heimsdómari (WA- Youth Judge) heimssambandsins (World Archery – WA).
Miðað við núverandi upplýsingar á vefsíðu Evrópusambandsins eru 14 dómarar á Norðurlöndum með alþjóðleg dómararéttindi:
- Ísland – 2
- Danmörk – 3
- Noregur – 3
- Finnland – 3
- Svíþjóð – 3
- Færeyjar – 0