You are currently viewing Evrópuþing 2024

Evrópuþing 2024

Nítjánda Evrópuþing Evrópska bogfimisambandsins World Archery Europe (WAE) var haldið 4 maí síðastliðinn í Essen í Þýskalandi, í aðdraganda Evrópu undankeppni Ólympíuleika og Evrópumeistaramóts.

Fáar tillögur lágu fyrir þinginu og þær fáu sem var fjallað um voru tengdar góðum stjórnháttum, ásamt því sem eðlilega fer fram á þingum s.s. samþykkt ársreikninga, ársskýrslur o.s.frv. Þó eru en ýmis atriði sem þyrfti að lagfæra í skipulagi hjá WAE, meðal annars voru ársreikningar 2022 og endurskoðun þeirra samþykkt án þess að skjöl tengt því væru lögð fyrir þingið, sem er óvenjulegt. En flestar þjóðir líta á Evrópuþingin sem formsatriði sem þarf að klára til þess að halda starfinu gangandi og þau ganga því almennt hratt fyrir sig og klárast almennt fyrir hádegi.

Það sem var líklega markverðast á þinginu var ný stefna sem WAE setti sér. Stefnan var sköpuð af Steve Tully frá Bretlandi sem situr í DTAC nefnd og er fyrirmyndar skjal sem var einnig unnið í samstarfi við World Archery. BFSÍ hefur í raun verið framar en WAE í stefnumótun á síðustu árum, en nýja stefna WAE er það góð að líklegt er að BFSÍ muni notfæra sér atriði úr stefnu WAE þegar að kemur að endurskoðun heildarstefnu BFSÍ, eða jafnvel nota hana sem sniðmát.

Click to access Europe-Strategic-Development-Plan-Final-1004024.pdf

Formaður BFSÍ Guðmundur Guðjónsson var í framboði til stjórnar Evrópusambandsins á þinginu. Tvær þjóðir höfðu haft samband við hann af fyrra bragði og óskað eftir því að hann setti nafn sitt fram fyrir þingið. Til þess að ná kjöri þarf frambjóðandi að ná flestum atkvæðum og meirihluta atkvæða. Ef nokkrar stöður er lausar og margir frambjóðendur er því algengt að kjósa þurfi aftur. Þá er sá sem er með lægstan fjölda atkvæða fjarlægður og kosning endurtekin. Það er svo endurtekið þar til að búið er að kjósa í allar stöður. Um fimm kosningar þurfti til þess að skipa í stjórnar stöðurnar hjá WAE og Guðmundur hélst inni þar til í síðustu kosningu og í stuttu máli endaði hann sem varamaður í stjórn WAE.