Akureyringarnir og feðginin Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birgisson úr ÍF Akur á Akureyri voru valin Íþróttafólk ársins hjá Bogfimisambandi Íslands 2022.
Anna átti mjög árangursríkt ár í sinni keppnisgrein trissuboga kvenna. Anna var ekki langt frá því að vinna til verðlaun á Evrópumeistaramóti á árinu, en hún keppti fimm sinnum til úrslita á Evrópumeistaramótum á árinu. Til viðbótar við það vann Anna til nokkurra verðlauna í B/C landsliðsverkefnum. Anna vann þrjá Íslandsmeistaratitla á árinu og sló 18 Íslandsmet. Anna var í 8 sæti á Indoor World Series Open heimslista heimssambandsins eftir 2021-2022 tímabilið. Anna var annar hæsti Norðurlandabúi á heimslista trissuboga kvenna og komst í top 30 á Evrópulista og top 60 á heimslista á árinu. Sem telst nokkuð gott m.v. að aðeins eru gefin stig á heimslista fyrir alþjóðleg stórmót í Opnum flokki (fullorðinna) og engin stig fyrir U21 mót, flest mót sem Önnu á árinu gáfu því engin stig á heimslista. Anna vann fyrstu verðlaun Íslands í einstaklings keppni á heimslista móti á árinu á Veronicas Cup. Því nokkuð öruggt að Anna á eftir að hækka mikið á heims-/Evrópulista í framtíðinni. Trissuboga kvenna liðið sem hún er hluti af er nú í 11 sæti á Evrópulista og 23 sæti á heimslista.
Alfreð keppti til úrslita á Evrópumeistaramótinu innandyra í febrúar í Slóveníu ásamt trissuboga karla liðinu. Þar voru þeir slegnir út af Frakklandi í 8 liða úrslitum og enduðu í 8 sæti. Á EM utandyra í Munch komust strákarnir í 24 liða lokakeppni en voru slegnir þar út af Hollandi og enduðu í 17 sæti. Alfreð keppti einnig á Heimsleikum lögreglu- og slökkviliðsmanna þar sem hann vann silfur. Alfreð vann Íslandsmeistaratitilinn innandyra og utandyra í trissuboga á árinu í fyrsta sinn, ásamt góðu gengi á öðrum innlendum mótum á árinu. Alfreð sló þrjú Íslandsmet á árinu, einstaklings Íslandsmetið utandyra með skorið 683, ásamt því að slá eitt Íslandsmet í liðakeppni landsliða og eitt félagsliðamet. Alfreð er sem stendur í 169 sæti á Evrópulista og 400 á heimslista.
BFSÍ veitir einnig viðurkenningu til íþróttafólks sem stóð sig best í sinni keppnisgrein þar sem Anna og Alfreð hreppa einnig titilinn trissubogakona og trissuboga karla ársins. Viðurkenningu í öðrum keppnisgreinum fengu:
Sveigbogamaður ársins: Haraldur Gústafsson SkAust
Sveigbogakona ársins: Marín Aníta Hilmarsdóttir BF Boginn
Berbogamaður ársins: Izaar Arnar Þorsteinsson ÍF Akur
Berbogakona ársins: Guðbjörg Reynisdóttir BF Hrói Höttur
Íþróttafólk ársins var valið út frá tölfræðilegum útreikningi á heildar getustigi þeirra á árinu í samræmi við reglugerð BFSÍ um íþróttafólk ársins.
Verðlaunagripir fyrir Íþróttafólk ársins verða afhentir af ÍSÍ við lok árs á hátíð íþróttamanna ársins. Verðlaunagripir fyrir bogfimifólk ársins í hverri keppnisgrein verða afhent viðkomandi íþróttamönnum af BFSÍ á Bikarmótum BFSÍ í nóvember og desember.
You must be logged in to post a comment.