You are currently viewing Gott gengi Íslands Tveir Norðurlandameistarar, sex silfur og sjö brons á NUM í Finnlandi

Gott gengi Íslands Tveir Norðurlandameistarar, sex silfur og sjö brons á NUM í Finnlandi

11 af 15 keppendum Íslands unnu til einna eða fleiri verðlauna á Norðurlandameistaramóti ungmenna (NUM) um helgina og komu í heildina með tvö gull, sex silfur og sjö brons heim á klakann. Sem er mesti fjöldi verðlauna sem Ísland hefur unnið til á NUM í bogfimi til dags.

2021 vann Ísland til fjögurra verðlauna (tvö gull og tvö brons) með 18 keppendur. 2020 var aflýst vegna Covid. 2019 vann Ísland til þriggja verðlauna (tvö silfur og eitt brons) með 18 keppendur. Það er því töluverð framför 2022 að vinna til 15 verðlauna með 15 keppendur og greinilegt að getustig í íþróttinni á heildina litið er á hraðri uppleið.

Íslenskir verðlaunahafar á NUM 2022:

  • Freyja Dís Benediktsdóttir BF Boginn – Gull og Silfur
  • Þórdís Unnur Bjarkadóttir BF Boginn – Gull
  • Ragnar Smári Jónasson BF Boginn – Silfur
  • Ísar Logi Þorsteinsson BF Boginn – Silfur
  • Anna María Alfreðsdóttir ÍF Akur – Silfur
  • Eowyn Marie Mamalias BF Hrói Höttur – Silfur
  • Viktoría Fönn Guðmundsdóttir ÍF Akur – Silfur og Brons
  • Valgerður E. Hjaltested BF Boginn – Brons
  • Aríanna Rakel Almarsdóttir BF Boginn – Brons
  • Heba Róbertsdóttir BF Boginn – tvö Brons
  • Auðunn Andri Jóhannesson BF Hrói Höttur – tvö Brons

Þar sem keppt er í mörgum keppnisgreinum á bogfimimótum og flestir að keppa í fleiri en einni grein voru einnig nokkrir sem unnu til tveggja verðlauna (t.d. liðakeppni og einstaklingskeppni).

Gengið á fyrri degi mótsins var mjög gott og fjallað er um það í þessari frétt á archery.is.

Gengið á seinni degi mótsins kom líklega mörgum á óvart og lukkan lék ekki við okkar fólk. Margir af þeim Íslendingum sem voru taldir sigurstranglegastir á mótinu náðu jafnvel ekki á verðlaunapall og margir aðrir sem voru taldir líklegir til að taka verðlaun á mótinu náðu ekki á pall. Þar má nefna sem dæmi í trissuboga U21 kvenna þar sem Anna María Alfreðsdóttir var lang efst eftir undankeppni einstaklinga (og með hærra skor en allir karlarnir líka) en endaði í fjórða sæti. Það var nánast talinn öruggur titill fyrir Ísland á mótinu þar sem Anna var með mikla yfirburði í undankeppni mótsins. Þetta er búið að vera áhugavert ár í óheppni hjá Önnu í U21 aldursflokknum, hún var í fjórða sæti á EM U21, fjórða sæti á Íslandsmóti U21 og fjórða sæti á NM U21 og töluverður styrkleikamunur er nú á milli þessara móta. En á sama tíma á árinu hefur Anna verið að vinna til verðlauna í fullorðinsflokki á Íslandsmeistaramótum og alþjóðlegum heimslistamótum fullorðinna.

Freyja Dís Benediktsdóttir var eini Íslenski keppandinn sem vann Norðurlandameistaratitil á degi tvö á NUM, en hún var talin lang sigurstranglegust í sínum flokki með lang hæsta skorið í undankeppni og vann gull úrslitin með gífurlegum yfirburðum 137-117. Freyja var eiginlega svekkt yfir því að það gat engin á mótinu gefið henni almennilega samkeppni, en hún var með hæsta skor í kvenna og hefði verið næst hæst í karla þrátt fyrir að henni hefði gengið ill í seinni umferð undankeppni mótsins.

Valgerður E. Hjaltested náði einnig brons verðlaunum í sínum flokki sem var fjölmennastur á mótinu og hún var eini keppandinn sem náði að vinna sig upp. Valgerður var í fimmta sæti eftir undankeppni en náði með góðum leikjum í úrslitum mótsins að vinna sig upp í brons úrslitaleikinn þar sem hún vann örugglega 6-2.

Mótið mjög skemmtilegt þrátt fyrir ýmsa skipulags hnökra sem komu upp á mótinu. Flestir þeirra sem voru að keppa að þessu sinni voru að keppa á sínu fyrsta erlenda móti og allir nutu veðursins sem var frábært. Mótið er einnig frábært tækifæri fyrir ungmenni til að kynnast öðrum á Norðurlöndum sem hafa sama áhugamál og þeir. Of langt væri að telja upp öll úrslit mótsins og er stiklað á stóru í þessari frétt. En fjallað verður nánar um helstu úrslit keppenda og íþróttafélaga í komandi fréttagreinum á archery.is.

Norðurlandameistaramót ungmenna (NUM) var haldið að þessu sinni í Kemi Finnlandi 15-17 júlí og næsta NUM verður haldið í Larvik í Noregi í júlí 2023 og þar á eftir í Danmörku líklega í Óðinsvé (Odense). Áætlað er að NUM verði haldið í fyrsta sinn á Íslandi seinni hluta þessa áratugs en ekki er búið að negla niður hvaða ár það verður. Hingað til hafa mótin aðeins verið haldin í fjórum stærstu Norðurlöndum eftir íbúafjölda (Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku).