Akureyringurinn Anna María Alfreðsdóttir vann brons úrslita leik Veronicas Cup World Ranking Event í Slóveníu helgina 5-8 maí. Anna vann bronsið af miklu öryggi 142-130 gegn Stefania Merlin frá Lúxemborg og Anna tók einnig gull verðlaunin með trissuboga kvenna liðinu ásamt Freyju Dís Benediktsdóttir og Eowyn Marie Mamalias.
Þetta er í fyrsta sinn sem Íslenskur keppandi vinnur til verðlauna á heimslista móti (alþjóðlegu stórmóti) í einstaklingskeppni, en næst því komst Ewa Plosaj 2019 í fjórða sæti. Ísland hefur unnið til liðaverðlaun á slíkum viðburðum áður.
Ásamt því sló Anna fimm Íslandsmet á mótinu:
- Íslandsmet í trissuboga kvenna Opnum flokki undankeppni 679 stig
- Íslandsmet í trissuboga kvenna U21 undankeppni 679 stig
- Íslandsmet í trissuboga kvenna U21 útsláttarkeppni 142 stig
- Landsliðsmet í trissuboga kvenna Opnum flokki 1979 stig
- Landsliðsmet í trissuboga kvenna U21 1979 stig
Anna er ein af okkar fremstu íþróttakonum í bogfimi í trissubogaflokki og miðað við gengi hennar teljast mjög góðar líkur á því að hún hafi möguleika á því að tryggja sér sæti á Evrópuleikana 2023. Þó verður það töluverður bardagi þar sem aðeins 16 þjóðir fá þátttökurétt fyrir einstakling á Evrópuleikana. Til samanburðar var lágmarksskor 2019 fyrir Evrópuleika 640 stig og Anna skoraði 679 stig í undankeppni þessa móts. En það tryggir ekki þátttökurétt að vera yfir lágmörkum, það þarf einnig að vinna þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu utandyra í næsta mánuði eða Evrópubikarmótinu í apríl 2023.
Eini keppandinn sem Anna tapaði fyrir á Veronicas Cup var Toja Ellisson í 4 manna úrslitum um hvor þeirra myndi keppa í gull úrslitaleiknum. En vert er að nefna að Toja vann Evrópuleikana 2019, hver veit kannski verður Anna fyrsti Íslendingur í öllum íþróttum til þess að vinna til verðlauna á Evrópuleikum.
You must be logged in to post a comment.