You are currently viewing Mótakerfi BFSÍ birt

Mótakerfi BFSÍ birt

Mótakerfi BFSÍ hefur verið í bígerð frá árinu 2017 en loka ákvörðun um að taka upp þetta kerfi var gerð í byrjun árs 2020 af stjórn BFSÍ.

Úrslit úr mótum á Íslandi hingað til hafa aðeins verið gerð í úrslitakerfi heimssambandsins Ianseo sem er aðeins viðburðar tengt kerfi og engin tenging á milli upplýsinga mismunandi viðburða s.s. íþróttafólksins sem keppir á hverjum viðburði. Íþróttafólk þurfti því að leita að úrslitum sínum úr hverju móti í stað þess að geta farið inn á eina síðu með öllum sínum úrslitum. Einnig var erfitt að fylgjast með tölfræði íþróttarinnar. Mótakerfið bíður upp á mikla framför í ásýnd íþróttarinnar og aðgengi að upplýsingum tengt mótum, keppendum, íþróttafélögum og tölfræði móta innan BFSÍ.

Hægt er að sjá mótakerfið á mot.bogfimi.is

Í mótakerfi BFSÍ er m.a. hægt að sjá:

  • Úrslit úr öllum Íslenskum mótum
  • Prófíl síðu fyrir hvern íþróttamann með öllum úrslitum íþróttamannsins frá árinu 2020 og síðar
  • Úrslitalista, öll helstu einstaklings úrslit frá árinu 2020
  • Mótalista af mótum sem eru framundan
  • Tölfræði um þátttöku á mótum
  • Lista yfir aðildarfélög og upplýsingar um þau
  • Keppendaskrá
  • Lista yfir niðurstöður keppenda á hverju ári fyrir sig (ranking listi, gæti þróast í Íslandslista í framtíðinni, en byggist sem stendur aðeins á hæsta skori ársins)

Aðildarfélög BFSÍ geta fengið aðgang að kerfinu. Á þeirra aðgangi getur kerfisstjóri aðildarfélags m.a.:

  • Sótt um að halda metahæf mót
  • Birt úrslit af sínum metahæfu mótum
  • Búið til nýtt íþróttafólk í kerfinu
  • Breytt upplýsingum um sitt íþróttafólk (t.d. myndum)
  • Séð um félagaskipti keppenda
  • Séð tölfræði um þátttöku sinna meðlima

Áætlað er að bæta við kerfið í framtíðinni m.a.:

  • Íslandsmetaskrá
  • Liða úrslitum
  • Viðbótar listum (ranking)
  • Úrslitum úr alþjóðlegum mótum með tengingu við API heimssambandsins
  • Lista yfir dómara og þjálfara innan aðildarfélaga

Þróun kerfisins mun taka sinn tíma enda um stórt verkefni að ræða. Mótakerfið var upphaflega skapað af Sænska bogfimisambandinu í kringum árið 2016 og hefur verið í þróun síðan þá. 2019 bauð Sænska sambandið öðrum Norðurlandaþjóðunum að taka þátt í þróun kerfisins og Noregur og Ísland höfðu áhuga á því samstarfi. Kerfið í heild sinni er skapað viðhaldið og þróað af nánast einum Svía, Frederik Larsson en það var maðurinn sem Svíþjóð leitaði til við sköpun kerfisins upprunalega. Noregur setti sköpun síns kerfis í hendur Fredrik en Ísland ákvað að taka virkann þátt í þróun kerfisins og setja upp sitt kerfi á eigin spýtur á sænska grunninum. Guðmundur Guðjónsson er komin í teymið með Fredrik og hefur séð um uppsetningu Íslenska mótakerfisins á grunni þess Sænska. Við uppsetningu mótakerfis BFSÍ fundust margar villur í grunni Sænska kerfisins og er búið að breyta stórum hluta af virkni kerfisins til hins betra fyrir allar þjóðir sem nota það. Það hefur einnig hjálpað að Guðmundur er heimsálfudómari og því með regluverk tengt íþróttinni á hreinu.

Úrslit móta í mótakerfinu eru send inn úr úrslitakerfi heimssambandsins WA (Ianseo) og möguleika á að senda úrslit móta beint úr Ianseo hefur verið bætt við úrslitakerfi heimssambandsins. Því mun mótahald á Íslandi halda áfram að vera gert á sama veg og áður í Ianseo. Mótakerfið mun aðeins framsetja þær upplýsingar á betri veg og færa mörg atriði undir eitt kerfi sem áður var í sitt hvoru lagi í gegnum umsóknir eða annað slíkt.

Ekki er hægt að eyða úrslitum úr mótum þar sem það eru taldar sögulegar upplýsingar en í samræmi við GDPR geta keppendur sem óska eftir því að nafn þeirra komi ekki fram í öðrum hlutum mótakerfisins óskað eftir því að nafn þeirra verði fjarlægt. Nafn þeirra mun þá ekki koma fram í mótakerfi BFSÍ s.s. prófíl, ranking listum og slíkum viðbótum, en nafnið mun haldasta í úrslitum viðkomandi móts (þar sem það eru sögulega upplýsingar).

Aðeins er hægt að sjá úrslit úr mótum frá árinu 2020 og síðar (frá stofnun BFSÍ). Mögulegt er að úrslitum úr mótum fyrri ára verði bætt við kerfið en það er gífurlega mikil vinna þar sem aðlaga þarf hvert einasta mót að nýja kerfinu þar sem miklar breytingar hafa verið gerðar á sniðmátum Íslenskra móta í úrslitakerfi WA (ianseo) til þess að samhæfa allt. En mikilvægast er að framtíðar úrslit verða birt í kerfinu og verður viðhaldið.

Mögulegt er að einhverjar villur séu en í kerfinu sem er verið að laga jafnóðum og þær finnast, en þar sem meirihluti af virkni mótakerfisins er komið á góðan stað og það verður hvort sem er í sífelldri þróun ákváðum við að birta það og gefa iðkendum og aðildarfélögum BFSÍ tækifæri á því að notfæra sér þá eiginleika sem eru komnir til staðar innan kerfisins. Með þeim fyrirvara að mögulega geta leynst rangar upplýsingar hér og þar.

Ef einhverjar spurningar eru um mótakerfið má senda þær til BFSÍ á bogfimi@bogfimi.is