You are currently viewing Frumvarp til laga vegna bogfimi ungmenna

Frumvarp til laga vegna bogfimi ungmenna

Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum vegna bogfimi iðkun ungmenna.

https://www.althingi.is/altext/151/s/0520.html

Er þetta að mestu til þess að liðka lögin til þess að gera ungmennum kleift að æfa og keppa á sama veg og gert er í öðrum löndum í heiminum. Sem er nauðsynlegt fyrir ungmenni þegar þau stefna á að æfa eða keppa á mótum utandyra s.s. Íslandsmótum utandyra, Norðurlandamótum ungmenna og Ólympíuleikum ungmenna.

Breytingin sem lögð er til er einföld, að bætt verði við lögin að slík ástundun sé á ábyrgan veg heimil undir eftirliti lögráða einstaklinga.

Hægt er að vísa í margt þess til stuðnings, s.s. að bogfimi er með eina lægstu áhættugreiningu tryggingafélaga erlendis (oft í sama hópi og borðtennis, keila og mun lægri en flestar boltaíþróttir). Í Evrópulöggjöf vopna er ekki minnst á boga og þeir almennt flokkaðir sem íþróttatæki fremur en vopn á heimsvísu.

Þó er ekki talið athugavert að svo stöddu að einhverjar hömlur séu til staðar gagnvart ungmennum í þessum málum, en þó ekki svo strangar að hún komi í veg fyrir iðkun ungmenna á íþróttinni.

Umsögn BFSÍ er:

Núverandi tillaga að lagabreytingum myndi leysa þau vandkvæði sem liggja fyrir gagnvart bogfimi íþróttaiðkun ungmenna á mjög ábyrgan veg. Og gefa Íslenskum ungmennum tækifæri á því að stunda, æfa og keppa í bogfimi íþróttum með sama móti og ungmenni í heiminum og nágrannaþjóðum Íslands gera.

Til að gefa dæmi um áhrif núverandi löggjafar:

Ólympíuleikar ungmenna eru haldnir fyrir ungmenni á aldursbilinu 15-17 ára, þau ungmenni eru almennt að keppa um þátttökurétt á leikana á aldursbilinu 14-16 ára. Algengt er að togkraftur sem sé verið að nota sé um 15-20 kg. Núverandi löggjöf kemur því í óbeint veg fyrir að Ísland geti keppt um sæti á Ólympíuleika ungmenna, nema að flytja þau börn sem miða á þann árangur erlendis um árabil. Núverandi lagabreytingar tillaga myndi leysa það vandamál þar sem börnin gætu þá æft undir eftirliti lögráða einstaklings með þeim togkrafti sem til þarf hverju sinni.

Norðurlandameistaramót ungmenna eru haldin fyrir aldursbilið 13-20 ára á vegalengdum sem er ómögulegt að drífa á með minna en sirka 12-26 kg togkrafti. Núverandi hömlun kemur í veg fyrir að helmingur barna og ungmenna á Íslandi geti keppt á sama grundvelli með börnum og ungmennum frá Norðurlöndum.

Núverandi lög eiga sér enga hliðstæðu á Norðurlöndum og eftir því sem best er vitað í heiminum. Líklegt er að þegar þessari lagagrein var bætt við hafi lítið sem ekkert verið um bogfimi iðkun ungmenna á Íslandi. Sú iðkun hefur aukist gífurlega síðasta áratug og er séð fyrir miklum vexti og mögulegum árangri Íslands á alþjóðavettvangi. Langflest ungmenni stunda bogfimi íþróttir á æfingum á vegum íþróttafélaga undir eftirliti lögráða einstaklinga.

Þegar þessi lagabreyting gengur í gegn mun það lagalega séð gefa Íslenskum ungmennum sömu möguleika á iðkun bogfimi og í öðrum þjóðum.