Íslandsmót Ungmenna og öldunga utanhúss

Íslandsmót ungmenna og öldunga verður haldið á Víðistaðatúni í Hafnarfirði 27-28 Júní. Ungmenna mótið verður á laugardeginum og öldungamótið á sunnudeginum.

Við spáum mjög spennandi keppni í nokkrum flokkum.

U21 sveigbogi karla er 50/50 Dagur Örn Fannarsson vs Oliver Ormar Ingvarsson báðir í BF Boganum. Verður harður bardagi. Þeir hafa verið að berjast um að hækka U21 Íslandsmetin til skiptist og algerlega óvíst hver mun bera sigur.

U18 sveigbogi kvenna 60/40 þar er Marín Aníta Hilmarsdóttir talin líklegri til sigurs, en Halla Sól Þorbjörnsdóttir talin líkleg til að veita mikla samkeppni um gullið. Þær eru báðar í BF Boganum og kepptu um titilinn innandyra þar sem Marín hafði betur.

U18 trissubogi kvenna verður 50/50 um gullið. Anna María Alfreðsdóttir ÍF Akur vs Eowyn Marie Mamalias BF Hrói Höttur. Anna er nýlega búin að taka bæði U18 og U21 Íslandsmetin utandyra af Eowyn. En Eowyn tók titilinn innandyra.

U16 trissubogi karla verður 50/50 um gullið. Aðeins 1 mm var munurinn á jafntefli á Íslandsmóti ungmenna innahúss á milli Daníels Baldurssonar í SKAUST og Sigfús Björgvin Hilmarsson í BF Boganum. Og því líklega að harður bardagi myndist á milli þeirra utandyra og erfitt að spá fyrir um hver tekur titilinn.

U16 sveigbogi karla spáum við jöfnum bardaga. Pétur Már M Birgisson í BF Hróa Hetti og Máni Gautason í ÍF Akur. Á innanhúss móti ungmenna var Pétur hærri í undankeppni með naumum mun en Máni tók gullið í úrslitakeppninni.

Í 50+ sveigboga kvenna eru Guðný Gréta Eyþórsdóttir í SKAUST og Sigríður Sigurðardóttir í BF Hróa Hetti líklegar til þess að eiga hörku leik um gullið.

Í 50+ sveigboga karla er nýliðinn í öldunga Haraldur Gústafsson í SKAUST talinn lang líklegastur til sigurs.

Í 50+ trissuboga karla verður mögulega jafn bardagi á milli Rúnars Þórs Gunnarssonar í BF Hróa Hetti og Alberts Ólafssonar í BF Boganum. Rúnar hefur lengri feril af góðum niðurstöðum en Albert er búinn að vera sigursælari í keppnum á milli þeirra á þessu ári.

Við vitum ekki hvað gerist fyrr en dagurinn kemur. En gaman að hugsa og spá í úrslitin.

Sýnt verður beint frá mótunum á archery tv Iceland youtube rásinni https://www.youtube.com/channel/UCyslF-n8Fh5zwqDLdBVzgvg

Hægt er að finna dagsskrá og skipulag mótsins á ianseo.net. Ásamt úrslitum þegar þau eru ljós.

Íslandsmót ungmenna https://www.ianseo.net/Details.php?toId=7131

Íslandsmót öldunga https://www.ianseo.net/Details.php?toId=7133

Sumarfjarnám – Þjálfaramenntun ÍSÍ

Sumarfjarnám 1. 2. og 3. stigs ÍSÍ hefst mánudaginn 22. júní nk. og tekur það átta vikur á 1. stigi en fimm vikur á 2. og 3. stigi. Námið er almennur hluti menntakerfisins og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Sérgreinaþátt þjálfaramenntunarinnar sækja þjálfarar hjá viðkomandi sérsambandi ÍSÍ hverju sinni.

Nám allra stiga er allt í fjarnámi, engar staðbundnar lotur. Námið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár og þátttakendur komið frá fjölda íþróttagreina. Námið veitir réttindi til íþróttaþjálfunar og jafnframt rétt til áframhaldandi náms til frekari réttinda.

Þátttökugjald á 1. stig er kr. 30.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin í því verði.
Þátttökugjald á 2. stig er kr. 28.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin.
Gjaldið á 3. stig er kr. 40.000.-

Athugið að þeir nemendur/þjálfarar sem koma frá Fyrirmyndarfélögum/-deildum ÍSÍ fá 20% afslátt af námskeiðsgjaldi.

Skráning er rafræn og þarf henni að vera lokið fyrir mánudaginn 22. júní. Rétt til þátttöku á 1. stigi hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.

Slóð á skráningu á öll stig í sumarfjarnám Þjálfaramenntunar ÍSÍ 2020.

Allar nánari upplýsingar um Þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson í síma 460-1467 og 863-1399 eða á vidar@isi.is

Formannafundur Bogfimisambands Íslands 2020

Fundarboð

Formannafundur Bogfimisambands Íslands 2020

Hér með er boðað til formannafundar Bogfimisambands Íslands.  Fundurinn verður haldinn sunnudaginn 29. mars 2020 kl. 13:00 í húsnæði Múltikúlti Barónsstíg 3, 101 Reykjavík.

Rétt til setu á fundinum hafa formenn, eða fulltrúar þeirra, frá þeim íþróttabandalögum, héraðssamböndum og félögum sem mynda sambandið.

Dagskrá

·       Skýrsla stjórnar um starfsemi síðastliðins árs.

·       Ársreikningur síðastliðins árs lagður fram.

·       Fjárhagsáætlun lögð fram. 

·       Ákvörðun um drög að afreksstefnu fyrir 2020 og 2021.

·       Önnur mál.

Stjórn BSFÍ  28. febrúar 2020

Sambandslögin samþykkt 1. desember 2019

Á fullveldisdaginn 1. desember minnast Íslendingar þess að á þessum degi árið 1918 tóku Sambandslögin gildi milli Íslands og Danmerkur.  En í þeim viðurkenndi Danmörk fullveldi Íslands.   Nákvæmlega 101 ári síðar eða þann 1. desember 2019 voru ný sambandslög samþykkt þ.e.a.s. bogfimisambandslögin. Við þennan gjörning breyttist bogfiminefnd ÍSÍ í fullvalda Bogfimisamband Íslands. Þessi viðburður átti sér stað á stofnþingi sem haldið var í húsakynnum ÍSÍ.

Ólafur Gíslason var kjörinn formaður sambandsins en aðrir í stjórn BFSÍ eru Guðmundur Örn Guðjónsson varaformaður, Ásdís Lilja Hafþórsdóttir ritari, Albert Ólafsson gjaldkeri og Haraldur Gústafsson meðstjórnandi. Varamenn stjórnar eru Astrid Daxböck, Alfreð Birgisson og Kelea Quinn.

Á stofnþinginu kynnti Guðmundur Örn Guðjónsson afreksstefnu BFSÍ fyrir árin 2020-2022 sem einnig er tímamótaplagg í sögu bogfimi á Íslandi.  Hér er í fyrsta skipti lögð drög að langtimastefnu í afreksstarfi bogfimiíþróttarinnar hér á landi.

Heimasíða Bogfimisambandsins er bogfimi.is.

Nánari upplýsingar um stofnþing Bogfimisambandsins má finna á vef ÍSÍ.