Íslandsmeistaramóti innanhúss frestað

Íslandsmeistaramóti Innanhúss í opnum flokki sem halda átti helgina 27. – 28. Mars næstkomandi hefur verið frestað til 27. – 28. Nóvember.

Samkvæmt núgildandi reglugerð yfirvalda væri heimilt að halda mótið með frekar venjulegu sniði. Hinsvegar í ljósi fjölda þeirra þátttakenda sem skilgreindir eru í áhættuhóp og þess að áætlað er að aðeins rétt rúm 10% þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok mars þykir ekki verjandi að halda mótið á þeim dagsetningum sem áætlað var.

Neikvæðar afleiðingar þess að flytja mótið verða að teljast smávægilegar í hliðstæðu við að færa það ekki og þar með að hluti af okkar þátttakendum treysti sér ekki til að sækja það.

Í raun voru þrír möguleikar í stöðunni. Forsvarsmönnum aðildarfélaga voru kynntir þessir kostir og óskað eftir áliti þeirra.

  1. Halda Íslandsmeistaramót eins og venjulega á settum tíma.
    Þó alltaf haldið innan þeirra reglugerðar sem er í gildi að hverju sinni.

  2. Halda Íslandsmeistaramót með Covid-sniði á settum tíma.
    Að mótið verði haldið með miklum breytingum til að halda sóttvörnum í fullum forgangi. Undankeppni verði skipt niður og engin útsláttarkeppni.

  3. Að færa mótið fram í Nóvember og halda það þá með venjulegu sniði.
    Mótinu verði frestað til nóvember líkt og Ungmenna- og öldungamótunum, þegar áætlað er að bólusetningar séu komnar vel í gang og ætti þá að vera aðgengilegra fyrir alla að sækja mótið í venjulegu sniði.

Þeir forsvarsmenn sem skiluðu áliti voru hlynntir þriðja valkostinum; að færa mótið til nóvember. Er þessi ákvörðun því tekin í samráði við félögin.

Íslandsmótum ungmenna og öldunga innanhúss frestað

Vegna áframhaldandi óvissu af völdum COVID nú þegar nær dregur að íslandsmótum innanhúss og þar sem gildandi reglugerð bannar enn keppnishald þá hefur stjórn BFSÍ ákveðið að fresta Íslandsmótum ungmenna og öldunga til seinna á árinu þegar ástandið er vonandi orðið skárra.

Líklegt er að ekki verði leyfilegt að halda þessi mót á næstu mánuðum miðað við takmarkanir vegna Covid. Ef mögulegt yrði að halda mótin á næstu tveimur mánuðum þá yrðu þau ekki venjuleg Íslandsmót og þyrfti að breyta fyrirkomulagi mótana gífurlega, s.s. sleppa útsláttarkeppni og gull keppni á livestream. Líklegt er að mögulegt verði að halda venjuleg Íslandsmót seinni hluta ársins eftir að bólusetningar eru byrjaðar að segja til sín og samkomubönnum mögulega aflétt.

Ný dagsetning Íslandsmóts Ungmenna innanhúss er 30. og 31. Október.
Skráningarform Íslandsmót Ungmenna Innanhúss

Ný dagsetning Íslandsmóts Öldunga innanhúss er 13. og 14. Nóvember.
Skráningarform Íslandsmót Öldunga Innanhúss

Íslandsmeistaramót innanhúss í opnum flokki hefur ekki verið fært og er enn sett helgina 27. og 28. Mars. Við eigum þó eftir að sjá hvernig ástandið þróast en vonum að ekki þurfi að raska dagsetningum frekar.

BFSÍ gefur bikar til íþróttafólks ársins í hverjum bogaflokki í fyrsta sinn

BFSÍ samþykkti á síðasta stjórnarfundi 27.12  viðbót við reglur um íþróttafólk ársins. BFSÍ gefur út til viðbótar við tilnefningar til íþróttafólks ársins árlega bikar til þeirra sem stóðu sig best í hverjum bogaflokki fyrir sig.

Oft hefur reynst erfitt að velja einstaklinga úr bogfimi í íþróttafólki ársins hjá ÍSÍ þar sem um er að ræða margar íþróttagreinar og mismunandi bogaflokka þar sem aðeins er hægt að velja eina konu og einn karl óháð íþróttagrein eða bogaflokki.

Tölfræðin hefur verið notuð til þess að reyna skera úr á milli einstaklinga en þar er oft mjög lítill munur sem sker á milli þeirra einstaklinga á milli greina. Það eru bara allt of margir að standa sig vel 😊.

Til að koma á móts við þetta og gefa þeim viðurkenningu sem stóðu sig best á árinu í sínum bogaflokki og sinni íþróttagrein hefur BFSÍ ákveðið að gefa sjálft út til viðbótar árlega bikar til þeirra sem stóðu sig best í hverjum bogaflokki fyrir sig út frá sömu tölfræði og er notuð til þess að velja íþróttafólk ársins óháð bogaflokki.

Þeir sem hreppa bikarana á árinu 2020 eru:

Berboga karl ársins 2020: Izaar Arnar Þorsteinsson – ÍF Akur 

Izaar vann bæði innandyra og utandyra Íslandsmeistaramótin á þessu á ári ásamt því að vera hæstur í undankeppni á báðum mótunum. Því má segja að hann hafi átt yfirburðar ár í berboganum á árinu og sé óvéfengjanlegur berbogameistari ársins.

Berboga kona ársins 2020: Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur

Guðbjörg vann bæði innandyra og utandyra Íslandsmeistaramótin á þessu ári bæði í opnum flokki og U21. Guðbjörg sló einnig heims og Evrópumet í opnum flokki og U21 á árinu og var ekki langt frá því að bæta Evrópumetið í U21 aftur á indoor world series í desember þar sem hún var meðal 20% efstu keppenda í heiminum. Hún sló einnig Íslandsmetið í opnum flokki og U21 tvisvar á árinu.

Trissuboga karl ársins 2020: Nói Barkarson – BF Boginn

Nói átti frábært ár. Nói sló 10 einstaklings Íslandsmet í U18 og U21 flokkum á árinu oft með gífurlegri bætingu og 3 liðamet í opnum flokki með sínu félagi. Hann vann alla Íslandsmeistaratitla ungmenna innandyra og utandyra í U18 og U21 flokki, vann alþjóðlega hluta Íslandsmóts ungmenna innandyra í U18 og U21 og Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki innandyra þar sem hann skoraði hæsta skor ársins í trissuboga 581, það eru fáir Íslendingar sem hafa skorað yfir 580 stig af 600 mögulegum á móti hingað til.

Trissuboga kona ársins 2020: Anna María Alfreðsdóttir – ÍF Akur

Anna vann Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki og ungmenna utandyra. Anna náði einnig lágmarks skori fyrir Evrópuleika á árinu með skorið 641 af 720 og skilgreinist því sem afreksfólk hjá BFSÍ. Anna sló einnig bæði Íslandsmetið í U18 og U21 flokki utandyra með því 641 skori, en mjög mikil samkeppni er í trissuboga kvenna.

Sveigboga karl ársins 2020: Dagur Örn Fannarsson – BF Boginn

Dagur var einnig valinn íþróttamaður ársins á heildina litið hjá BFSÍ og fær því bæði bikarinn fyrir Sveigboga karl ársins 2020 og Íþróttamaður ársins 2020. Meira er fjallað um hans árangur í þessari grein https://bogfimi.is/2020/11/08/ithrottafolk-arsins-2020-bogfimi-dagur-og-marin/

Sveigboga kona ársins 2020: Marín Aníta Hilmarsdóttir – BF Boginn

Marín var einnig valinn íþróttakona ársins á heildina litið og fær því bæði bikarinn fyrir Sveigboga kvenna ársins 2020 og Íþróttakona ársins 2020. Meira er fjallað um árangur hennar í þessari grein https://bogfimi.is/2020/11/08/ithrottafolk-arsins-2020-bogfimi-dagur-og-marin/

Óskum þeim öllum innilega til hamingju. Sökum Covid verður enginn formlegur tími eða viðburður til afhendingar og haft verður samband við íþróttafólkið til þess að mæla sér mót til að afhenda verðlaunin.

Skráningarfrestur Desember fjarmót Indoor World Series

Frestur til að skrá sig til að taka þátt í fjarmótinu Indoor Archery World Series fyrir Desember rennur út á morgun 13. Desember kl. 23:00 að Íslenskum tíma, það er því hver að verða síðastur að skrá sig.

Til að skrá sig á mótið þarf að skrá sig inn á WAREOS og velja:
December | Indoor Archery World Series Online
https://extranet.worldarchery.org/wareos/

Áfram verður hægt að skrá sig til að taka þátt á mótinu í Bogfimisetrinu í Desember, en til að skorin verði færð í fjarkeppnina sjálfa er mikilvægt að skrá sig fyrir frestinn á morgun.

Til að skrá sig á mótið í Bogfimisetrinu sjálfu er hægt að finna skráningarformið hér.

Fyrri grein af archery.is hér fyrir neðan

Skráning á Indoor Archery World Series fyrir Desember er hafin

Ekki var fært að halda formlegt mót í kringum mótaröðina í Nóvember en fyrir Desember hefur heilbrigðisráðuneytið veitt BFSÍ undanþágu frá núgildandi ákvæði um keppnir til að halda mót í Bogfimisetrinu.

Grundvöllur undanþágunnar er að bogfimi þarfnast ekki nálægðar við aðra né sameiginlegan búnað og er því hægt að viðhalda ströngum sóttvörnum á meðan mótinu stendur og er undanþágan háð því. Eins er hún háð því að reglur um takmarkanir verði ekki hertar né Landsspítali settur á neyðarstig.

Til að viðhalda þessum ströngu sóttvörnum verður mótinu skipt í fjórar lotur:

Dagsetning Dagur Lota Byrjar Endar
19. Desember Laugardagur Fyrir hádegi 09:00 11:30
19. Desember Laugardagur Eftir hádegi 13:00 15:30
20. Desember Sunnudagur Fyrir hádegi 09:00 11:30
20. Desember Sunnudagur Eftir hádegi 13:00 15:30

Í hverri lotu verða að hámarki 8 keppendur og lokast fyrir skráninguna fyrir hverja lotu þegar hún er orðin full, það er því fyrstur kemur fyrstur fær.

Í nóvember tóku meira en 2.800 keppendur þátt í mótaröðinni frá 80 löndum víðsvegar um heimin.
Hægt er að sjá niðurstöður Nóvember hér.

Það er því tilvalið að nýta tækifærið og taka þátt í þessari einstöku mótaröð sem nær yfir allan heiminn.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um mótið í skráningarforminu.

Íþróttafólk ársins 2020 Bogfimi – Dagur og Marín

Dagur Örn Fannarsson 19 ára og Marín Aníta Hilmarsdóttir 16 ára eru yngstu keppendur í sveigboga sem hafa verið valin íþróttafólk ársins í bogfimi. Enginn sveigboga keppandi yngri en 35 ára hefur áður verið titlaður íþróttamaður og kona ársins í bogfimi og þetta er aðeins í annað sinn sem sveigboga keppandi er titlaður íþróttakona ársins. Þetta eru því tímamót í íþróttinni.

Dagur Örn Fannarsson 19 ára átti frábært ár í sveigboga.

Dagur tók Íslandsmeistaratitilinn innandyra með gífurlegum yfirburðum. Dagur var hæstur í undankeppni og tapaði aðeins 1 stig í öllum úrslitaleikjum mótsins. Hann var einnig hæstur í undankeppni á Íslandsmeistaramóti utanhúss. Dagur byrjaði í bogfimi 2018 og þetta var í fyrsta sinn sem Dagur keppir á Íslandsmeistaramótum í opnum flokki og hefur strax sett sig fram sem framúrskarandi íþróttamann. Þetta er einnig fyrsta sinn sem Dagur er tilnefndur og valinn íþróttamaður ársins í bogfimi. Dagur sló tvö einstaklings íslandsmet í U21 flokki á árinu, seinna metið var 553 stig sem setur hann meðal top fimm hæst skorandi sveigboga karla innandyra í bogfimi á Íslandi frá því að skráningar hófust. Dagur sló einnig fimm liðamet með félagsliði sínu.

Áætlað var að senda Dag á EM-, NM- og Evrópubikar ungmenna ásamt fleiri erlendum mótum. Því miður kom heimsfaraldur í veg fyrir það þar sem öllum alþjóðlegum bogfimimótum var aflýst. Einstaklega leitt þar sem Dagur var talinn sigurstranglegur á NM ungmenna.

Marín Aníta Hilmarsdóttir 16 ára að taka toppinn.

Marín sigraði allt með yfirburðum á Íslandsmótum innandyra á þessu ári og tók alla titla og verðlaun sem henni stóðu til boða. Marín vann Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki, U21 og U18 flokki ásamt því að sigra keppendur erlendis frá sem kepptu í alþjóðlega hluta íslandsmóts ungmenna í U18 og U21 flokki. Marín var aðeins einum Íslandsmeistaratitli frá því að taka fullkomið ár í sveigboga kvenna, þar þurfti silfur að duga. Marín á fimm af sex íslandsmetum í U21, U18 og U16 flokkum og hún bætti bæði U18 og U21 utandyra metin á árinu. Ásamt því að bæta fjögur Íslandsmet í liðakeppni með sínu félagsliði. Þetta var í fyrsta sinn sem Marín tók þátt á Íslandsmeistaramótum í opnum flokki og fyrsta sinn sem hún er valin íþróttakona ársins.

Áætlað var að senda Marín á EM-, NM- og Evrópubikar ungmenna ásamt öðrum erlendum mótum. Því miður kom heimsfaraldur í veg fyrir það. Marín hefur sett sér markmiðið að ná sæti fyrir Ísland á Evrópuleika 2023. Gífurlega efnileg stúlka sem vert er að fylgjast með.

Dagur og Marín kepptu og unnu saman Íslandsmeistaratitil í parakeppni félagsliða fyrir Bogfimifélagið Bogann á Íslandsmótinu utanhúss 2020, það var í fyrsta sinn sem keppt var í parakeppni félagsliða á Íslandsmeistaramóti. Þau voru einnig bæði í hæfileikamótun BFSÍ á árinu og náðu lágmörkum fyrir landslið/ungmennalandslið 2021.

Hægt er að finna mörg mynskeið af þeim á archery tv iceland youtube rásinni. https://www.youtube.com/c/ArcheryTVIceland/videos

Ófyrirséðar aðstæður í vali íþróttafólks ársins.

Covid-19 heimsfaraldur olli miklum röskunum í íþróttum hérlendis og erlendis. Undir venjulegum kringumstæðum væri valið eftir tölfræði keppenda sem er reiknuð út frá frammistöðu á mun stærra mengi af mótum og þá sérstaklega erlendum mótum. Sökum heimsfaraldurs þurfti stjórn BFSÍ að virkja ákvæði í reglum um íþróttafólk ársins um ófyrirséð atvik, þá var tölfræði notuð eins og mögulegt var til þess að skilja að besta íþróttafólk ársins. Loka val íþróttafólks ársins féll þá á formenn aðildarfélaga BFSÍ úr þeim einstaklingum sem voru hæstir í tölfræði ársins.

Translate »