NM ungmenna (NUM)

Nordic Youth Championships (NYCH) 2025, betur þekkt sem NUM (Nordiske Undoms Mesterskap), verður haldið í Borås Svíþjóð 4-6 júlí 2025 (dagsetningar voru staðfestar af framkvæmdastjóra Sænska sambandsins 23.08.2024, nema eitthvað óvenjulegt komi upp). Borås Bågskyttesällskap er nafn félagsins sem skipuleggur mótið og líklegast að það verði haldið á þeirra svæði eða í nánd við þeirra svæði í Svíþjóð (en óstaðfest).

Boðspakki og áætluð dagsskrá og slíkt er ekki komið út. Áætlað er að nánari upplýsingar um mótið komi út febrúar/mars 2025, þær verða sendar á félögin strax og BFSÍ berast þær. (Óformlegar upplýsingar sem hafa borist á bakvið tjöldin: gisting mótshaldara verður í skóla, fólk þarf að koma með eigin dýnur, sængur og slíkt. Því er hótel líklega vænlegri kostur fyrir Íslendinga á þessu móti.)

Foreldrar eru meira en velkomnir að taka þátt í verkefninu og í raun væri hægt að segja að án þeirra aðstoðar og stuðnings við sín ungmenni væri ekki hægt að framkvæma þetta verkefni.

Upplýsingar um mótið koma út á Ianseo.net þegar nær dregur mótinu. Þar verður hægt að finna boðspakka mótsins og dagskrá mótsins.

Vefsíða mótshaldara https://num2025.se/

Mögulegt skipulag (óstaðfest):
Fimmtudagur 3 júlí:
13:00-16:00 Formleg æfing og Búnaðarskoðun
17:00-17:30 Opnunarhátiíð
Föstudagur 4 júlí:
9:00-11:30 Undankeppni hópur #1
13:00-15:30 Undankeppni hópur #2
16:00-18:45 Útsláttarkeppni einstakling
Laugardagur 5 júlí:
9:00-11:30 Útsláttarkeppni einstaklinga
12:00-18:00 Gull útsláttarkeppni alternate shooting
18:00-18:30 Verðlaunaafhending
Sunnudagur 6 Júlí:
9:00-12:00 Útsláttarkeppni liða (allir taka þátt í liða)
12:30-13:00 Verðlaunaafhending
Mánudagur 7 Júli: Fljúga heim
(ATH þetta skipulag er bara ágiskun m.v. fyrri ár)

Mælt er með því að keppendur félagana hafi keppt á að lágmarki einu Íslandsmóti utanhúss (eða sambærilegu móti) áður en þeir taka þátt á NUM, til að hafa reynslu af utandyramótum. En allir sem aðildarfélög BFSÍ vilja senda er leyfilegt að taka þátt óháð því hvort að þeir hafa reynslu af utandyra mótum.

Mótið er hugsað sem reynslu mót og hittingur fyrir ungmenni á norðurlöndum með sambærileg áhugamál. Ásamt því er þetta vettvangur fyrir bestu krakkana á Norðurlöndum til þess að keppa sín á milli um titil. Því er getustig keppenda mjög mismunandi og er því mót sem er við hæfi allra ungmenna sem stunda bogfimi reglubundið. Oftast byrja ungmenni á því að taka þátt á NUM til gamans og reynslu, og svo út frá því myndast stundum áhugi á því að komast lengra í íþróttinni.

Nýjustu reglur NUM er hægt að finna hér Guide lines NBU English 2023

Fyrir þá sem hafa áhuga. Í Svíþjóð 2025 er Skara archery club að bjóða upp á æfingabúðir 30 júní til 2 júlí nokkrum dögum fyrir NM ungmenna. Um 1,5 klst akstri frá Borás þar sem NUM verður haldið í Svíþjóð 2025. https://skarabagskytteklubb.se/camp/

NUM – Norðurlandameistaramót ungmenna.

  1. SKRÁNING:
    Skráning fer fram í gegnum íþróttafélögin. Hafið samband við aðildarfélagið ykkar til þess að taka þátt (ef þið viljið taka þátt og eruð ekki innan aðildarfélags BFSÍ hafið samband við BFSÍ). Aðildarfélögin senda svo skráningar þátttakenda til BFSÍ.
  2. LIÐSSTJÓRI FÉLAGS:
    Hvert félag sem sendir keppendur þarf að senda einn liðsstjóra fyrir félagið sem er samskipta aðili við fulltrúa BFSÍ á mótinu og kemur upplýsingum til íþróttafólki síns félags.
  3. ÞJÁLFARAR:/FYLGDARFÓLK
    Það verður að vera einn ábyrgðarmaður (þjálfari/foreldri/liðsstjóri eða fylgdarmanneskja) per 4 ungmenni í U16 og U18 flokkum sem fara. Einstaklingurinn tekur ábyrgð á þeim keppendum í ferðinni og á keppnisvellinum. Einstaklingurinn þarf að vera 21 árs eða eldri. Yngri en 21 árs geta ekki alltaf ferðast með boga ein. Við erum að treysta mikið á að foreldrar séu almennt að fara með börnunum sínum (allavega í fyrsta sinn sem þeir taka þátt þegar allt er nýtt fyrir þeim) og jafnvel nota tækifærið og skipuleggja fríið í kringum NUM. Eða að vinna saman til að fylgja krökkunum á NUM.
  4. FULLTRÚI FRÁ BOGFIMISAMBANDI:
    Það verður einn fulltrúi á staðnum frá Bogfimisambandinu til að vera samskiptaaðili við mótshaldara, miðla upplýsingum til liðsstjóra félagana og aðstoða ef eitthvað kemur upp á, og kemur upplýsingum til liðsstjóra hvers félags. (aðstoð við skráningu, greiðslu og slíkt).
  5. FLUG:
    Allir sjá um að bóka sín eigin flug og koma sér á keppnisstaðinn (sum íþróttafélög ferðast saman sem hópur)
    Þegar búið er að bóka flug þarf að sækja um tímabundið útfluttnings- innfluttningsleyfi fyrir bogana. Félögin sjá um að sækja um slíkt leyfi fyrir sína keppendur, BFSÍ getur aðstoðað við það. Þegar búið er að bóka flug sendið flug upplýsingar á félagið ykkar og þeir græja það (almennt er það lítið mál en gott að gera það snemma). Mögulegt er að skrá alla boga á fararstjóra hópsins.
    (Bogarnir verða að vera skráðir á leyfinu á einstaklinginn sem ferðast með ungmennum. Ef þið lendið í vandræðum með þetta sendið póst á BFSÍ og leitið upplýsinga)
  6. FERÐALEYFI BARNA ANNARA:
    Til að ferðast með börn annarra þurfa foreldrar fylla út þetta leyfi og láta viðeigandi fylgdarmann hafa (samþykkt vegna ferðar barns til útlanda) https://island.is/utanlandsferdir-barna
  7. GISTING:
    Við mælum með því að þeir sem geta, bóki eigin gistingu þegar dagsetningar eru staðfestar til að geta bókað sem ódýrasta ferð og jafnvel að gera fjölskyldu frí úr ferðinni í leiðinni.
    Official accommodation (Gistingin) sem er hægt að bóka í gegnum mótshaldara er oftast tómt skóla/íþróttahús, koma þarf með eigin dýnur, svefnpoka eða svipað og um 20 manns per skólastofu, en það er þó mjög mismunandi milli ára.
    Almennt er gert ráð fyrir því að koma keppenda sem notfæra sér „official accommodation“ sé á Föstudegi og för keppenda af mótinu sé á Sunnudagskvöldi. Við höfum venjulega verið að fljúga út á Fimmtudegi og heim á Mánudegi. Þeir sem bóka eigin gistingu geta að sjálfsögðu farið hvenær sem er út eða heim og ferðast um svæðið eða landið.
  8. ALDURSFLOKKAR:
    Á NUM eru 3 aldurs flokkar,
    Junior – U21 (18-19 og 20 ára á árinu)
    Cadet – U18 (17 og 18 ára á árinu)
    Nordic Cadet – U16 (13-14 og 15 ára á árinu)
    Aldurinn miðast við fæðingarár ekki fæðingardag. (þannig að ef þú ert 13 ára á árinu máttu keppa, ef þú ert 18 ára á árinu þó að þú sért 17 ára þegar mótið er haldið keppirðu í U21 – Junior)
    12 ára og yngri er meinuð þátttaka á mótinu samkvæmt reglum Norðurlandasambandsins (BFSÍ ræður því ekki, okkur skylst að það tengist reglum Ólympíunefndarinnar í Noregi gagnvart heimiluðum keppnisaldri ungmenna þar. Því var ákveðið upp á sanngirni milli þjóðana og samhæfingu aldurs á NM ungmenna að lágmarksaldurinn sé 13 ára á árinu).
  9. LIÐAKEPPNI:
    Allir taka þátt í kynlausri (unisex) liðakeppni. Ef land er ekki með nægilegt magn keppenda í ákveðnum flokki til að búa til lið eða fylla í lið er aflögu einstaklingum safnað saman í „Nordic Team“ svo að allir fái að taka þátt í liðakeppni á mótinu. Þannig að munið að læra hvernig liðaútsláttur fer fram og hafa æft ykkur áður en þið farið.
  10. KEPPNISFÖT:
    Keppendur verða að vera í C landsliðsbúningum á mótinu. (heimilt er að vera í félagsbúningi en aðeins ef er keppt er fyrir íþróttafélag en ekki fyrir land). Hægt er að finna upplýsingar um landsliðsbúninginn á bogfimi.is. Norðurlandameistaramót ungmenna er skilgreint sem C landsliðsverkefni hjá BFSÍ og þeir sem keppa í því eru því að taka þátt í landsliðsverkefni fyrir landslið.
  11. KOSTNAÐUR:
    Þátttakendur skulu halda utan um kostnað vegna verkefnisins (bílaleigubílar, flug, gisting o.sv.frv.) og senda reikninga tengt því til BFSÍ beint bogfimi@bogfimi.is eða í gegnum íþróttafélagið sitt. Þetta er gert til þess að geta haldið utan um heildarkostnað þátttakenda tengt mótinu þar sem þetta er C-landsliðsverkefni, allir þátttakendur eru skráðir af BFSÍ til þátttöku og því allir keppendur að keppa fyrir landslið. (Þetta er einnig til þess að BFSÍ geti gefið út þátttöku staðfestingar til aðildarfélaga BFSÍ eða einstaklinga upp á styrktarumsóknir til ákveðinna bæjarfélaga vegna landsliðsverkefna. Ákveðin bæjarfélög óska eftir að heildar kostnaður þátttöku viðkomandi keppanda sé tekinn fram á staðfestingunni til þess að greiða slíka styrki).

Facebook síða Norðurlandasambandsins

Youtube síða Norðurlandasambandsins

Trans keppendur keppa í því kyni sem skráð er í vegabréfi sínu og/eða þjóðskrá. Kynsegin keppendur eru almennt látnir keppa í karla flokki í einstaklingskeppni. BFSÍ er að vinna að lausn með Norðurlöndunum fyrir kynsegin keppendur í einstaklingskeppni að þurfa ekki að setja sig inn í kynjatvíhyggjuna, en það gæti tekið nokkur ár að finna lausn sem hentar best og því biðjum við um þolinmæði tengt því. En kynsegin er og verður ekki meinað að taka þátt í mótinu. Stærsta flækjustigið við að bæta við unisex einstaklingskeppni (keppni óháða kyni) við karla og kvenna einstaklings keppni sem er nú þegar á NUM (Íslenska módelið) er að mótið myndi lengjast til muna, sem myndi auka kostnað allra keppenda og það væri illgerlegt að koma mótinu fyrir á einni helgi. Mögulegt er að bætt verði við Open flokki þar sem keppendur geta skráð sig til keppni óháð kyni en keppa þá ekki í karla eða kvenna…. en þetta er í vinnslu og of snemmt að segja til um hvernig lausn verður fundin á endanum, en það mikilvægasta er að kynsegin/annað geta nú þegar tekið þátt 😉

Ef ykkur vantar einhverjar viðbótar upplýsingar eða hafið einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við íþróttafélagið ykkar eða BFSÍ bogfimi@bogfimi.is, við viljum sjá sem flesta taka þátt á mótinu og hafa gaman af því 😉

 

 


Skor og þátttaka á fyrri NUM mótum.

NUM 2024 Danmörk

NUM 2023 Noregur

NUM 2022 Finnlandi

NUM 2021 Fjarmót (Svíþjóð)

NYCH 2020 Svíþjóð (Aflýst vegna Covid-19)

NUM 2019 Danmörk

NUM 2018 Noregi

NUM 2017 Finnlandi
Heildarúrslit 2017

NUM 2016 Danmörku
Heildarúrslit 2016

NUM 2015 Svíþjóð
Heildarúrslit 2015

NUM 2014 Noregi
Heildarúrslit 2014

Meðal fjöldi þátttakenda á NUM eftir boga- og aldursflokkum. (þetta er meðaltal allra keppenda frá öllum þjóðum á NUM ekki bara frá Íslandi, eins og sjá má er mjög mismunandi ástundun í mismunandi keppnisgreinum á Norðurlöndum.)

———————————————————–