Íslandsmeistaramót BFSÍ
Allir félagsmenn aðildarfélaga BFSÍ geta tekið þátt á Íslandmeistaramótum. Það eru engin lágmarksskor sem þarf að ná og engin hámarks fjöldi þátttakenda sem geta tekið þátt, mótið er opið öllum.
Skráningar á Íslandsmeistarmót í bogfimi eru almennt opnar öllum í mótakerfi BFSÍ og keppendur skrá sig almennt sjálfir til keppni á mótin. Slíkt er einnig gert í alþjóðlegum mótum þar sem að íþróttamenn keppa fyrir félagslið. Þó geta aðildarfélög BFSÍ að sjálfsögðu einnig skráð eða aðstoðað keppendur sína við skráningu á mótin.
Í stuttu máli tengt keppnisfyrirkomulagi, þá byrja Íslandsmeistaramót í bogfimi á undankeppni þar sem allir skráðir þátttakendur skjóta ákveðið mörgum örvum. Efstu XX einstaklingar og félagslið í skori í undankeppni mótsins halda svo áfram í útsláttarkeppni mótsins og keppa um Íslandsmeistaratitilinn. Sá sem sigrar alla sína leiki í útsláttarkeppninni stendur uppi sem sigurvegari og er krýndur Íslandsmeistari.
Skotskífur og fjarlægðir (Target faces) á Íslandsmeistaramótum í bogfimi
Mismunandi stærðir og gerðir af skotskífum eru notaðar á Íslandsmeistaramótum og fer gerðin og stærðin eftir keppnisgrein, íþróttagrein og aldursflokki hverju sinni.
Fjarlægðir sem keppt er á á Íslandsmeistaramótum eru einnig mismunandi eftir íþróttagrein, keppnisgrein og aldursflokki hverju sinni.
Í skráningum Íslandsmeistaramóta er hægt að finna samantekt af þeim fjarlægðum og skotskífum sem viðkomandi keppnisgreinar og aldursflokkar keppa á. En einnig er hægt að finna upplýsingar um það í reglum BFSÍ og þar sem við á í reglum alþjóðabogfimisambandsins World Archery.
Undankeppni Íslandsmeistaramóta
Það er ekkert takmark á því hve margir keppendur geta skráð sig í undankeppni Íslandsmeistaramóts og þátttaka í þeim er opin öllum iðkendum í aðildarfélögum BFSÍ.
Tilgangur undankeppni í bogfimi er tvíþættur.
- Að skera niður fjölda keppenda sem að munu keppa í útsláttarkeppni mótsins.
- Að raða þeim keppendum eftir getustigi (skori) í útsláttarleiki útsláttarkeppni (eða lokakeppni) mótsins.
Fjöldi örva sem skotið er í undankeppni fer eftir því hvaða íþróttagrein um ræðir t.d.:
- Innandyra markbogfimi – 60 örvar
- Utandyra markbogfimi – 72 örvar
- Víðavangsbogfimi er íþróttagrein í þróun og því breytist það árlega eftir þróun greinarinnar en er almennt 36 eða 72 örvar ef áætlað er að halda útsláttarkeppni á mótinu.
Í hverri umferð (eða lotu) undankeppni mótsins er almennt skotið 2-6 örvum eftir því hvaða íþróttagrein og keppnisgrein um ræðir. Slíkar umferðir (eða lotur) eru svo endurteknar þar til að viðeigandi fjölda örva er náð, t.d. á Íslandsmeistaramótum innandyra er skotið 3 örvum í hverri umferð og skotið er 20 umferðum, 3×20=60 örvar.
Efstu XX einstaklingar og félagslið í skori í undankeppni halda svo áfram í útsláttarkeppni. Fjöldi einstaklinga og félagsliða sem heldur áfram í útsláttarkeppni á Íslandsmeistaramótum er mismunandi eftir íþróttagrein, keppnisgrein og aldursflokki hverju sinni.
Útsláttarkeppni og útsláttarleikir á Íslandsmeistaramótum
Útsláttarkeppni (á ensku single elimination tournament) á Íslandsmeistaramótum samanstendur af útsláttarleikjum (eða leikjum).
Ákvarðað er hver leikur á móti hverjum í útsláttarkeppni byggt á stöðu þeirra í niðurstöðum undankeppni mótsins. Fjöldi einstaklinga eða félagsliða sem halda áfram í útsláttarkeppni er mismunandi eftir þeirri íþróttagrein, keppnisgrein og aldursflokki sem um ræðir. En til að taka dæmi af því hvernig útsláttarkeppni fer fram:
Sigurvegarar síns leiks í t.d. 8 manna úrslitum (fjórðungsúrslit) halda áfram í næsta leik, semsagt 4 manna úrslit (undanúrslit). Þeir sem tapa sínum leik í t.d. 8 manna úrslitum hafa þá verið slegnir út af mótinu, sem er ástæða þess að það kallast útsláttarkeppni og útsláttarleikir.
Þeir sem sigra sína leiki í 4 manna úrslitum halda áfram í gull verðlauna/úrslita leikinn og þeir sem tapa sínum leik í 4 manna úrslitum halda áfram í brons verðlauna/úrslita leikinn.
Sá einstaklingur (eða lið) sem sigrar alla sína leiki á mótinu stendur uppi sem sigurvegari og er krýndur Íslandsmeistari.
Keppnisgreinar á Íslandsmeistarmótum
Innan BFSÍ er almennt keppt í þrem keppnisgreinum á Íslandsmeistaramótum:
- Ólympískum sveigboga (almennt bara kalla sveigbogi)
- Trissuboga
- Berboga
Einnig hefur verið keppt á Íslandsmeistarmótum í öðrum keppnisgreinum t.d. Langboga, en ekki hafa verið veitir formlegir Íslandsmeistaratitlar fyrir aðrar keppnisgreinar en þær þrjár sem nefndar eru hér fyrir ofan. En ef að fjöldi keppenda í öðrum keppnisgreinum eins og t.d. langboga eykst í framtíðinni er líklegt að þeim keppnisgreinum verði bætt við formlega sem föstum parti af Íslandsmeistaramótum og veittir formlegir titlar fyrir sigur í þeim keppnisgreinum.
Keppt er í einstaklingskeppni og liðakeppni á Íslandsmeistaramótum.
Liðakeppni á Íslandsmeistaramótum fór fyrst fram eftir reglum alþjóðabogfimisambandsins WA þar sem að 3 efstu keppendur félagsliðs í sama kyni, keppnisgrein og aldursflokki mynduðu liðið. En liðakeppni hefur verið að þróast á Íslandi, að mestu til þess að koma á móts við stærð íþróttafélaga í landinu (vegna fjölda iðkenda í félögum í mismunandi kynjum/keppnisgreinum/aldursflokkum) til að auka líkur á því að minni aðildarfélög BFSÍ nái að skipa félagslið á móti. En einnig til þess að koma á móts við breytingar á kynskráningum hjá þjóðskrá.
Líklegt telst að í framtíðinni verði liðakeppni á Íslandsmeistaramótum kynlaus tveggja eða þriggja manna lið, í svipuðu fyrirkomulag og gert er á NM ungmenna.
Aldursflokkar á Íslandsmeistarmótum
Í bogfimi er aldur þátttakanda miðaður við fæðingar ár ekki fæðingardag og keppt er í eftirfarandi aldursflokkum á mismunandi mótum:
- Meistaraflokki (einnig kallað fullorðins flokkur eða opinn flokkur þar sem allur aldur getur tekið þátt)
- U21 flokkur (Undir 21 árs. Semsagt þeir sem eru 20 ára á árinu og yngri)
- U18 flokkur (Undir 18 ára. Semsagt þeir sem eru 17 ára á árinu og yngri)
- U16 flokkur (Undir 16 ára. Semsagt þeir sem eru 15 ára á árinu og yngri)
- 50+ flokkur (50 ára og eldri. Semsagt þeir sem verða 50 ára á árinu og eldri)
Einnig hefur verið boðið upp á keppni í 30+, 40, 60+ og 70+ flokkum á Íslandsmótum öldunga, en ekki eru veittir formlegir Íslandsmeistaratitlar fyrir keppni í þeim öldungaflokkum.
Íslandsmótum er almennt skipt niður í:
- Íslandsmeistaramót (meistaraflokkur þar sem allur aldur getur keppt)
- Íslandsmót ungmenna (þar sem keppt er í U aldursflokkum)
- Íslandsmót öldunga (þar sem keppt er í + aldursflokkum)
Þó hefur þróun Íslandsmóta í bogfimi verið að færast í átt að því að skipta mótum meira niður eftir aldursflokkum. T.d. er Íslandsmót U21 innandyra sér mót frá öðrum U flokkum.
Ýmis konar sögulegar upplýsingar um Íslandsmeistaramót
Árið 2018 og fyrr þá voru Íslandsmeistaramót í markbogfimi haldin fyrir alla aldursflokka og keppnisgreinar í viðkomandi íþróttagrein á sama stað og tíma. En árið 2018 var þátttakendafjöldi á Íslandsmeistaramótum orðin það mikill að nauðsynlegt var orðið að skipta Íslandsmeistaramótum niður eftir aldursflokkum. Með þeirri skiptingu myndaðist einnig nægilegur tími til þess að sýna beint frá úrslitaleikjum Íslandsmeistarmóta í stað þess að halda þá alla samtímis.
Fyrir stofnun BFSÍ árið 2019 voru Íslandsmeistaramót haldin af bogfiminefnd ÍSÍ en einnig voru haldin Íslandsmót í bogfimi undir hatti Íþróttasambands Fatlaðra (ÍF) fyrir þann tíma. Þó eru gögn og niðurstöður móta þess tíma frekar handahófskennd/óáreiðanleg þar sem ekki var verið halda utan um gögn mótana eða verið að nota skorskráningarkerfi til að halda utan um, staðfesta og birta niðurstöður. Einnig var ekki alltaf verið að fara eftir reglum íþróttarinnar á Íslandsmótum frá þeim tíma og því gat verið mjög mismunandi fyrirkomulag á slíkum mótum. Íslandsmót þess tíma voru ekki haldin reglubundið öll ár enda var iðkendafjöldi í íþróttinni mjög lítill á þeim tíma og engir af þeim skráðir sem iðkendur í bogfimi innan ÍSÍ. Því mætti segja að fyrstu áreiðanlegu niðurstöður Íslandsmeistaramóta í bogfimi byrji í raun með notkun alþjóðaskorskráningarkerfisins Ianseo árið 2017.
Þessi síða er í stöðugri vinnslu og verður uppfærð þegar tækifæri er til s.s. þegar að nýjar upplýsingar berast eða þær breytast. En almennt er markmiðið að birta hér almennar upplýsingar um Íslandsmeistaramót BFSÍ t.d. hvernig þau fara fram og saga Íslandsmeistaramóta.