Almennir skilmálar og upplýsingar hér fyrir neðan:

Á mótum innan vébanda BFSÍ er farið eftir móta og keppnisreglum heimssambandsins World Archery, nema annað sé tekið fram á þessari síðu, í reglugerðum BFSÍ eða í skráningu mótsins. Með því að skrá þig til þátttöku á móti ert þú að samþykkja að fara eftir þessum reglum.

Þátttökugjöld eru ekki endurgreidd eftir skráningarfrest nema slíkt sé skilgreint sérstaklega í skráningu. (mögulegt er að fá undanþágu vegna þessa ákvæðis vegna Covid smita og annarra staðfestra veikinda/smita)

Æskilegt er að keppendur séu í félagsbúningum, sérstaklega í úrslitum móta sem er sjónvarpað. Æskilegt er að einstaklingar klæðist EKKI landsliðsfatnaði á mótum innanlands, þar sem þeir eru ekki að keppa fyrir hönd landsliðs á innlendum mótum. Að öðru leiti er farið eftir klæðaburðarreglum WA. (s.s. ekki er leyfilegt að vera í felulitum (camo), opnum skóm (eins og sandölum), ermalausum bolum eða gallabuxum.)

Samkvæmt reglum WA er leyfilegt að keppa í fleiri en einum bogaflokki, en ekki má breyta skipulagi móts til að aðlaga mótið að þeim keppendum og ekki er leyfilegt að gefa auka tíma ef flokkar skarast á. Mótshaldarar gera sitt besta svo að bogaflokkar skarist ekki á þar sem það er mögulegt. Ekki er leyfilegt að keppa í mörgum aldursflokkum á sama mótinu samkvæmt reglum WA. (Til upplýsinga ef mót er með sér skráningu og greiðslu s.s. Íslandsmót U21 og Íslandsmót U16/U18, þá er það sitt hvort mótið þó svo að oft sé talað um þau í sameiginlega sem Íslandsmót Ungmenna).

Með því að skrá þig á mót innan vébanda BFSÍ ertu að gefa leyfi fyrir því að teknar séu myndir og myndbönd af þér og að gefa leyfi til þess að birta það efni. Með því að skrá þig á mót innan vébanda BFSÍ ertu einnig að gefa BFSÍ leyfi til að halda utan um persónu upplýsingar um þig tengdar mótinu (til dæmis, nafn, kennitölu, skor, email, o.s.frv.). BFSÍ áskilur sér rétt til að eyða öllum persónu upplýsingum um einstaklinga hvenær sem er. Ákveðnar upplýsingar teljast til sögulegra upplýsinga s.s. niðurstöður móta og annað slíkt og þeim er ekki hægt að eyða. Sjá frekari upplýsingar í persónuverndarstefnu BFSÍ https://bogfimi.is/log-og-reglur/

Iðkendur sem skrá sig eru skráðir fyrir hönd aðildarfélags BFSÍ á mótinu. Aðildarfélaginu er heimilt að meina einstaklingi þátttöku á mótinu fyrir hönd félagsins (til dæmis ef iðkandinn er ekki skráður á félagsskrá félagsins eða er skuldugur við félagið, félaginu ber að tilkynna það til BFSÍ).

Þeir sem mæta ekki í tímanlega í verðlaunaafhendingu mótsins fá ekki verðlaun sín afhent. Ef íþróttamaður kemst ekki í verðlaunaafhendingu af einhverjum orsökum skal hann láta skipuleggjanda mótsins (Ianseo staff) eða yfirdómara vita fyrirfram (t.d. hver tekur við medalíuni fyrir þína hönd).

Með því að skrá þig á mót BFSÍ samþykkirðu að fullu að fara eftir og virða hegðunarviðmið ÍSÍ

Click to access hegdunarvidmid.pdf

Refsingar vegna óíþróttamannslegrar hegðunar á mótum BFSÍ:

Dómurum mótsins er heimilt að veita viðvaranir (svo kallað gult spjald) eða vísa keppendum úr keppni (svo kallað rautt spjald) vegna óíþróttamannslegrar hegðunar á mótum. Slíkum ákvörðunum er hægt að áfrýja til dómnefndar mótsins (á alþjóðlegum mótum á Íslandi). Ef viðkomandi hyggst áfrýja ákvörðun um frávísun úr móti skal liðsstjóri aðildarfélag hans tilkynna yfirdómara mótsins það skriflega innan þess tímaramma sem gefin er upp í reglum WA. Frávísun úr keppni vegna óíþróttamannslegrar hegðunar getur haft áhrif á hlutgengi viðkomandi á öðrum mótum, en ákvörðun um slíkt er í höndum stjórnar BFSÍ. Yfirdómari og dómnefnd mótsins sjá aðeins um að leysa þau brot sem upp koma á meðan á móti stendur.

Í öllum mótum innan BFSÍ er farið eftir reglum WA um kærur og tímarammar sem vísað er í þar gilda (5 mínútur frá því að ákvörðun er tekin til þess að tilkynna skriflega ætlun þess að kæra, og skrifleg áfrýjun skal berast innan 15 mínútna frá því að ætlun um kæru var lögð fram til yfirdómara). Farið er með refsingar á mótum í samræmi við reglur WorldArchery „CONSEQUENCES OF BREAKING RULES“.

Kæru blað fyrir Íslenska viðburði – Appeal form for events in Iceland