Almennir skilmálar og upplýsingar hér fyrir neðan:

Á mótum innan vébanda BFSÍ er farið eftir móta og keppnisreglum heimssambandsins World Archery, nema annað sé tekið fram á þessari síðu, í reglugerðum BFSÍ eða í skráningu mótsins. Með því að skrá þig til þátttöku á móti ert þú að samþykkja að fara eftir þessum reglum og viðmiðum.

Þátttökugjöld eru ekki endurgreidd eftir skráningarfrest nema slíkt sé skilgreint sérstaklega í skráningu. (mögulegt er að fá undanþágu vegna þessa ákvæðis t.d. vegna Covid smita og annarra staðfestra veikinda/smita)

Fatnaður á mótum á Íslandi:

Félög eru hvött til þess að innleiða félagsbúninga innan sinna raða, sérstaklega í úrslitum móta í félagsliðakeppni sem er sjónvarpað. (Lookar betur ef að sama lið er í sama lit í sjónvarpi 😉). Nafn keppanda á félagsbúningi er valkvætt, en ef að nafn er á félagsbúningi er æskilegt að það nafn passi við nafn viðkomandi í mótakerfi BFSÍ. En BFSÍ skyldar ekki félagsbúninga á mótum eða í liðakeppni á Íslandi. Að öðru leiti er æskilegt að keppendur fari eftir almennum klæðaburðarreglum WA í mótum (s.s. ekki er leyfilegt að vera í felulitum (camo), opnum skóm (eins og sandölum), ermalausum bolum eða gallabuxum. Sjá úrtak úr WA reglunum frá 10.10.2025 á myndinni).

Ýmsar skýringar tengt fatnaði:

Meðal ástæðna þess að ekki er skylda að vera í félagsbúning á mótum BFSÍ:

  • Mörg félög eru ekki með og hafa aldrei verið með félagsbúninga í íþróttinni.
  • Svo að þeir einstaklingar sem eru með sérstaka stuðningsaðila (sponsors) geti keppt í slíkum merktum fatnaði á mótum BFSÍ (í samræmi við slíka samninga t.d. við framleiðendur bogfimibúnaðar)
  • Svo að nýjir keppendur hafi greiðara færi á því að byrja að keppa á mótum með skömmum fyrirvara og því auka þátttöku í íþróttinni.
  • Að gefa félögum frelsi til að velja hvort að þau vilja setja innri reglur sem skylda félagsmenn sína að vera í félagsbúningum í keppni fyrir félagið eða ekki
  • Að minnka sóun m.a. tengt:
  • Fylgja alþjóðlegum fordæmum:
    • Óþarfi er að BFSÍ setji hærri kröfur á keppendur félags á mótum innanlands, en kröfurnar eru almennt settar á keppendur félagsins alþjóðlega. Sem dæmi: Heimsmótaröð alþjóðabogfimisambandsins (Indoor World Series – IWS).
      • Þar er ekki skylda að vera í félagsbúningi þegar keppt er sem einstaklingur eða fyrir félagslið
      • Það má keppa í landsliðsbúningi þó að keppt sé fyrir félag (líka í félagsliðakeppni þegar slík keppni hefur verið haldin sem partur af IWS)
      • Svo lengi sem fatnaður stemmir við reglur WA um fatnað, sem tengist mest öryggi og snyrtileika, þá er allt A-OK. Sem er mjög keimlíkt þeim viðmiðum sem BFSÍ fer eftir gagnvart keppni félagsmanna félaga á mótum á Íslandi
  • Brottvísanir og/eða sektir á félög tengt fatnaði vinna gegn markmiðum BFSÍ s.s. fjölgun þátttakenda á mótum og útbreiðslu íþróttarinnar.

BFSÍ gerir ekki athugasemdir við að keppendur keppi í landsliðsfatnaði BFSÍ á innlendum mótum (þó að við mælum með félagsbúningi á innlendum mótum). Landsliðsfatnaðurinn (A/B) er sérsaumaður, til þess að hann passi íþróttafólki sem best. Landsliðsfólk hefur aðeins færi á að því að byggja upp reynslu að keppa í landsliðsfatnaðinum, í raun keppnisaðstæðum á móta innanlands, áður en haldið er í erlend landsliðsverkefni. Það er líka ekkert athugavert við að vilja keppa fyrir Ísland, við erum eftir allt öll Íslendingar fyrst og fremst.

Félögin geta sjálf að sjálfsögðu sett reglu innan félagsins síns, sem skyldar félagsmenn sína að keppa í félagsbúningi á mótum BFSÍ, ef félögin kjósa að gera slíkt. Félögin geta sem dæmi framfylgt slíkri reglu með sektum á sína keppendur eða með því að meina sínum keppendum þátttöku á mót ef þeir fylgja ekki reglu félagsins. (Til skýringar: BFSÍ er ekki að hvetja til þess að félögin setji slíkar reglur. Það er bara verið að benda á að félögin geta að sjálfsögðu sett innri reglur um sína starfsemi m.a. fatnað þeirra sem koma fram fyrir félagið)

Langboga/Hefbundnir bogar leyfilegur búnaður og skýringar:

Flokkur langboga/hefðbundinna boga: Engar reglur eru til staðar hjá WA fyrir markbogfimi fyrir langboga (longbow) eða hefðbundinna boga (traditional) að svo stöddu. Því er farið að eftir reglum um hefðbundna boga (traditional) í reglum WA um víðavangsbogfimi tengt því hvaða búnaður er leyfilegur í þeim flokki að svo stöddu í markbogfimi á Íslandi. Þar sem að bæði langbogar og hefðbundnir bogar passa innan skilgreininga reglna hefðbundinna boga (traditional) í þeim reglum. Sjá nánar í frétt hér frá BFSÍ:

Þar sem að nafnið „langbogi/hefðbundnir bogar“ er langt og frekar óþjált er flokkurinn oft kallaður „langbogi“ til styttingar. Sú stytting kom út frá könnun meðal keppenda í þeim greinum sem vildu frekar að nafn flokksins væri stytt í „langbogi“ frekar en „hefðbundnir bogar“ eða „gamaldags bogar“ eða „traditional“ eða „fornaldar bogar“ eða annað sem lagt var til á sínum tíma.

Refsingar vegna óíþróttamannslegrar hegðunar á mótum BFSÍ:

Dómurum mótsins er heimilt að veita viðvaranir (svo kallað gult spjald) eða vísa keppendum úr keppni (svo kallað rautt spjald) vegna óíþróttamannslegrar hegðunar á mótum. Frávísun úr keppni vegna óíþróttamannslegrar hegðunar getur haft áhrif á hlutgengi viðkomandi á öðrum mótum, en ákvörðun um refsingar umfram viðkomandi mót sem brotið er framið er í höndum stjórnar BFSÍ að ákveða. Yfirdómari/dómnefnd mótsins sjá aðeins um að leysa þau brot sem upp koma á meðan á móti stendur.

Ýmislegt:

Samkvæmt reglum WA er leyfilegt að keppa í fleiri en einum bogaflokki, en ekki má breyta skipulagi móts til að aðlaga mótið að þeim keppendum og ekki er leyfilegt að gefa auka tíma ef flokkar skarast á. Mótshaldarar gera sitt besta svo að bogaflokkar skarist ekki á þar sem það er mögulegt við skipulag mótsins fyrir upphaf þess. Ekki er leyfilegt að keppa í mörgum aldursflokkum á sama mótinu samkvæmt reglum WA. (Til upplýsinga ef mót er með sér skráningu og greiðslu s.s. Íslandsmót U21 og Íslandsmót U16/U18, þá er það sitt hvort mótið þó svo að oft sé talað um þau í sameiginlega sem Íslandsmót Ungmenna).

Með því að skrá þig á mót innan vébanda BFSÍ ertu að gefa leyfi fyrir því að teknar séu myndir og myndbönd af þér og að gefa leyfi til þess að það efni verði birt. Með því að skrá þig á mót innan vébanda BFSÍ ertu einnig að gefa BFSÍ leyfi til að halda utan um persónu upplýsingar um þig tengdar mótinu (til dæmis, nafn, kennitölu, skor, email, o.s.frv.). BFSÍ áskilur sér rétt til að eyða öllum persónu upplýsingum um einstaklinga hvenær sem er. Ákveðnar upplýsingar teljast til sögulegra upplýsinga s.s. niðurstöður móta og annað slíkt og þeim er ekki hægt að eyða. Sjá frekari upplýsingar í persónuverndarstefnu BFSÍ https://bogfimi.is/log-og-reglur/

Iðkendur sem skrá sig á mót eru skráðir sem keppendur fyrir hönd aðildarfélags BFSÍ á mótinu. Aðildarfélaginu er heimilt að meina einstaklingi þátttöku á mótinu fyrir hönd félagsins (til dæmis ef iðkandinn er ekki skráður á félagsskrá félagsins eða er skuldugur við félagið, félaginu ber að tilkynna það til BFSÍ).

Ef íþróttamaður kemst ekki í verðlaunaafhendingu af einhverjum orsökum skal hann láta skipuleggjanda mótsins (Ianseo staff) eða yfirdómara vita fyrirfram (t.d. hver tekur við medalíuni fyrir hönd íþróttamannsins). Þeir sem mæta ekki tímanlega í verðlaunaafhendingu mótsins eiga á hættu að fá verðlaun sín aldrei afhent.

Með því að skrá þig á mót BFSÍ samþykkirðu að fullu að fara eftir og virða siðareglur ÍSÍ
https://isi.is/um-isi/log-reglugerdir-og-stefnur/