Íþróttafélögin sem stunda bogfimi, bogfimi salir og bogfimi búðir geta gefið frábær ráð fyrir byrjendur. En best væri að fara fyrst á byrjendanámskeið, eða svipaða grunn kennslu, þar sem grunnatriðin í tækni og öryggi eru kennd.

Áður en ráðist er í kaup á boga er mælt með að stunda íþróttina í einhvern tíma til að finna hvaða bogategund og dragþyngd hentar viðkomandi. Aðrir íþróttamenn og þjálfarar geta gefið góð ráð varðandi kaup á búnaði og eiga jafnvel notaðann búnað sem hægt er að fá til að prófa.

Til að kaupa boga á Íslandi þarf að vera meðlimur í félagi sem stundar bogfimi samkvæmt lögum.

Varast skal sérstaklega að kaupa of þungan boga í byrjun (með þyngd boga er átt við hve mikinn kraft þarf til að draga/spenna bogann, dragþyngd er mæld í pundum), of þungur bogi getur leitt til meiðsla og skemmt fyrir ánægjunni af bogfimi.

Í bogfimi notar maður vöðva í baki og öxlum sem eru yfirleitt lítið notaðir í öðrum íþróttagreinum, óvanir iðkendur taka eftir eymslum á nýjum stöðum eftir duglega æfingu – það þarf að gefa þessum vöðvum tíma til að styrkjast áður en þyngri/kraftmeiri bogar eru keyptir.

Bogfimiverslanir sjá um að aðstoða við stillingar á búnaði sem búðirnar selja, einnig geta félagsmenn þíns félags gefið góð ráð. Þjálfara ættu einnig flestir að vera vel kunnugir um stillingar á bogfimibúnaði og gott að leita til þeirra.

Mundu að það mikilvægasta sem þú lærir í bogfimi er að hafa gaman af bogfimi. Það er líka mjög skemmtilegt að keppa hvort sem maður á möguleika á að sigra eður ei. Mesti sigurinn er að taka þátt og skemmta sér 🙂