Frumvarp til laga vegna bogfimi ungmenna

Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum vegna bogfimi iðkun ungmenna.

https://www.althingi.is/altext/151/s/0520.html

Er þetta að mestu til þess að liðka lögin til þess að gera ungmennum kleift að æfa og keppa á sama veg og gert er í öðrum löndum í heiminum. Sem er nauðsynlegt fyrir ungmenni þegar þau stefna á að æfa eða keppa á mótum utandyra s.s. Íslandsmótum utandyra, Norðurlandamótum ungmenna og Ólympíuleikum ungmenna.

Breytingin sem lögð er til er einföld, að bætt verði við lögin að slík ástundun sé á ábyrgan veg heimil undir eftirliti lögráða einstaklinga.

Hægt er að vísa í margt þess til stuðnings, s.s. að bogfimi er með eina lægstu áhættugreiningu tryggingafélaga erlendis (oft í sama hópi og borðtennis, keila og mun lægri en flestar boltaíþróttir). Í Evrópulöggjöf vopna er ekki minnst á boga og þeir almennt flokkaðir sem íþróttatæki fremur en vopn á heimsvísu.

Þó er ekki talið athugavert að svo stöddu að einhverjar hömlur séu til staðar gagnvart ungmennum í þessum málum, en þó ekki svo strangar að hún komi í veg fyrir iðkun ungmenna á íþróttinni.

Umsögn BFSÍ er:

Núverandi tillaga að lagabreytingum myndi leysa þau vandkvæði sem liggja fyrir gagnvart bogfimi íþróttaiðkun ungmenna á mjög ábyrgan veg. Og gefa Íslenskum ungmennum tækifæri á því að stunda, æfa og keppa í bogfimi íþróttum með sama móti og ungmenni í heiminum og nágrannaþjóðum Íslands gera.

Til að gefa dæmi um áhrif núverandi löggjafar:

Ólympíuleikar ungmenna eru haldnir fyrir ungmenni á aldursbilinu 15-17 ára, þau ungmenni eru almennt að keppa um þátttökurétt á leikana á aldursbilinu 14-16 ára. Algengt er að togkraftur sem sé verið að nota sé um 15-20 kg. Núverandi löggjöf kemur því í óbeint veg fyrir að Ísland geti keppt um sæti á Ólympíuleika ungmenna, nema að flytja þau börn sem miða á þann árangur erlendis um árabil. Núverandi lagabreytingar tillaga myndi leysa það vandamál þar sem börnin gætu þá æft undir eftirliti lögráða einstaklings með þeim togkrafti sem til þarf hverju sinni.

Norðurlandameistaramót ungmenna eru haldin fyrir aldursbilið 13-20 ára á vegalengdum sem er ómögulegt að drífa á með minna en sirka 12-26 kg togkrafti. Núverandi hömlun kemur í veg fyrir að helmingur barna og ungmenna á Íslandi geti keppt á sama grundvelli með börnum og ungmennum frá Norðurlöndum.

Núverandi lög eiga sér enga hliðstæðu á Norðurlöndum og eftir því sem best er vitað í heiminum. Líklegt er að þegar þessari lagagrein var bætt við hafi lítið sem ekkert verið um bogfimi iðkun ungmenna á Íslandi. Sú iðkun hefur aukist gífurlega síðasta áratug og er séð fyrir miklum vexti og mögulegum árangri Íslands á alþjóðavettvangi. Langflest ungmenni stunda bogfimi íþróttir á æfingum á vegum íþróttafélaga undir eftirliti lögráða einstaklinga.

Þegar þessi lagabreyting gengur í gegn mun það lagalega séð gefa Íslenskum ungmennum sömu möguleika á iðkun bogfimi og í öðrum þjóðum.

Íslandsmet félagsliða í ungmenna og öldunga flokkum breytt í 2 manna liðakeppni

Íslandsmet félagsliða var breytt fyrir skömmu á eftirfarandi veg.

Liðakeppni í Ungmenna og öldunga flokkum var breytt úr 3 manna liðakeppni í 2 mann liðakeppni.

Innandyra parakeppni var einnig bætt við í öllum aldursflokkum.

Breytingarnar eru að hluta til að koma á móts við minni íþróttafélög í bogfimi og að hluta til þess að reyna skapa grundvöll fyrir útsláttarkeppni liða á Íslandsmótum í ungmenna og öldunga flokkum. Það er auðveldara að finna/skapa t.d. tvær stelpur í trissuboga kvenna U18 til þess að búa til lið heldur en að finna/skapa þrjár. Parakeppni var einnig bætt við innandyra þar sem félagslið er eitthvað sem fellur ekki undir WA reglur og þar með hægt að aðlaga það betur að Íslenskum aðstæðum.

Þriggja manna liðakeppni mun halda áfram í opnum flokki í samræmi við reglur WA, þar sem engar hömlur eru á aldri í þeim flokki ætti ekki að reynast mjög erfitt fyrir minni íþróttafélög að skapa sér í lið í þeim flokkum.

Tveggja manna liðakeppni á sér hliðstæðu hjá heimssambandinu, en það er bæði keppt í tveggja manna liðakeppni á háskóla meistaramótinu (University Championships – Universiade) og það verður tekin 2 manna liðakeppni á Ólympíuleikum ungmenna 2022 (sem voru færðir til 2026).

Íslandsmetaskrá hefur verið uppfærð í samræmi við þessar breytingar.

Einnig er líklegt að á Íslandsmótum verði hverju félagi heimilt að hafa mörg lið í sama flokki, s.s. í sveigboga karla ef félag sendir 6 keppendur væru þeir með 3 lið (lið sett saman eftir skori). En það er en í hugsunarferli og einhverjar tilraunir verða gerðar á mótum til þess að finna bestu lausnina sem hentar best.

Fyrsta mótið sem þetta á við um er Bogfimisetrid Indoor Series í febrúar, en þar er ekki liðkeppni ungmenna eða öldunga en hægt að setja parakeppnismetið.

Bogfimiþing 2021 – Fyrra fundarboð

Bogfimisamband Íslands boðar hér með til bogfimiþings 13. Mars 2021 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal kl. 13:00.

Á bogfimiþingi hafa fulltrúar þeirra sambandsaðila sem eru skuldlaus við BFSÍ fjórum vikum fyrir bogfimiþing einir atkvæðisrétt, en rétt til setu á þinginu, með málfrelsi og tillögurétt hafa allir eftirfarandi þingfulltrúar:

1.
2.
3.
4.
5.
6.

stjórn BFSÍ;
framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóri ÍSÍ;
héraðssambönd og íþróttabandalög;
fastráðnir starfsmenn BFSÍ;
allir nefndarmenn/fulltrúar BFSÍ;
fulltrúi menntamálaráðherra;

Auk þess getur stjórn BFSÍ boðið öðrum aðilum þingsetu telji hún ástæðu til.

Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu og framboð skulu berast stjórn BFSÍ minnst 3 vikum fyrir þing, þ.e. 20. febrúar.

Eigi síðar en tveimur vikum fyrir þingið, þ.e. 27. febrúar, skal BFSÍ senda sambandsaðilum síðara fundarboð í tölvupósti með dagskrá þings og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir þingið ásamt kjörbréfi.

Lög sambandsins eru að finna hér.

Íslandsmeistaramóti innanhúss frestað

Íslandsmeistaramóti Innanhúss í opnum flokki sem halda átti helgina 27. – 28. Mars næstkomandi hefur verið frestað til 27. – 28. Nóvember.

Samkvæmt núgildandi reglugerð yfirvalda væri heimilt að halda mótið með frekar venjulegu sniði. Hinsvegar í ljósi fjölda þeirra þátttakenda sem skilgreindir eru í áhættuhóp og þess að áætlað er að aðeins rétt rúm 10% þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok mars þykir ekki verjandi að halda mótið á þeim dagsetningum sem áætlað var.

Neikvæðar afleiðingar þess að flytja mótið verða að teljast smávægilegar í hliðstæðu við að færa það ekki og þar með að hluti af okkar þátttakendum treysti sér ekki til að sækja það.

Í raun voru þrír möguleikar í stöðunni. Forsvarsmönnum aðildarfélaga voru kynntir þessir kostir og óskað eftir áliti þeirra.

  1. Halda Íslandsmeistaramót eins og venjulega á settum tíma.
    Þó alltaf haldið innan þeirra reglugerðar sem er í gildi að hverju sinni.

  2. Halda Íslandsmeistaramót með Covid-sniði á settum tíma.
    Að mótið verði haldið með miklum breytingum til að halda sóttvörnum í fullum forgangi. Undankeppni verði skipt niður og engin útsláttarkeppni.

  3. Að færa mótið fram í Nóvember og halda það þá með venjulegu sniði.
    Mótinu verði frestað til nóvember líkt og Ungmenna- og öldungamótunum, þegar áætlað er að bólusetningar séu komnar vel í gang og ætti þá að vera aðgengilegra fyrir alla að sækja mótið í venjulegu sniði.

Þeir forsvarsmenn sem skiluðu áliti voru hlynntir þriðja valkostinum; að færa mótið til nóvember. Er þessi ákvörðun því tekin í samráði við félögin.

Íslandsmótum ungmenna og öldunga innanhúss frestað

Vegna áframhaldandi óvissu af völdum COVID nú þegar nær dregur að íslandsmótum innanhúss og þar sem gildandi reglugerð bannar enn keppnishald þá hefur stjórn BFSÍ ákveðið að fresta Íslandsmótum ungmenna og öldunga til seinna á árinu þegar ástandið er vonandi orðið skárra.

Líklegt er að ekki verði leyfilegt að halda þessi mót á næstu mánuðum miðað við takmarkanir vegna Covid. Ef mögulegt yrði að halda mótin á næstu tveimur mánuðum þá yrðu þau ekki venjuleg Íslandsmót og þyrfti að breyta fyrirkomulagi mótana gífurlega, s.s. sleppa útsláttarkeppni og gull keppni á livestream. Líklegt er að mögulegt verði að halda venjuleg Íslandsmót seinni hluta ársins eftir að bólusetningar eru byrjaðar að segja til sín og samkomubönnum mögulega aflétt.

Ný dagsetning Íslandsmóts Ungmenna innanhúss er 30. og 31. Október.
Skráningarform Íslandsmót Ungmenna Innanhúss

Ný dagsetning Íslandsmóts Öldunga innanhúss er 13. og 14. Nóvember.
Skráningarform Íslandsmót Öldunga Innanhúss

Íslandsmeistaramót innanhúss í opnum flokki hefur ekki verið fært og er enn sett helgina 27. og 28. Mars. Við eigum þó eftir að sjá hvernig ástandið þróast en vonum að ekki þurfi að raska dagsetningum frekar.